Frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að flytja langt mál um þetta frv. Það hef ég þegar gert í ræðu sem ég flutti þegar ég mælti fyrir 95. málinu. Frv. er flutt í tengslum við áðurgreint mál og er hluti af þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru í skattlagningu atvinnurekstrar í því skyni að auka eigið fé fyrirtækja og renna styrkari stoðum undir atvinnulífið.
    Helstu ákvæði frv. eru:
    1. Heimild einstaklinga til frádráttar frá tekjum vegna hlutabréfakaupa er stóraukin og verður 500 þús. kr. fyrir hjón.
    2. Kaupi einstaklingur hlutabréf fyrir meira í einu en sem svarar til árlegrar frádráttarheimildar er heimild til að flytja það sem umfram er milli ára í allt að fimm ár.
    3. Lítil fyrirtæki geta aflað sér eigin fjár með sölu hlutabréfa með sömu skattfríðindum fyrir þá sem kaupa hlutabréf, enda séu engar hömlur á viðskipti með hin nýju hlutabréf.
    Ég sé ekki ástæðu til, virðulegur forseti, að hafa þessa framsöguræðu lengri, en mælist til þess að þetta mál verði að 1. umr. lokinni sent til hv. fjh.- og viðskn.