Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Þannig háttar til að hér er um að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Og það eru eðlileg tilmæli að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur slíka umræðu.
    Nú vill þannig til að hann hefur ekki tök á að vera hér í dag eins og þegar hefur komið fram. Vildi ég þess vegna beina því til forseta að sami háttur verið hafður á um þetta mál og næstu tvö mál á undan, að umræðu ljúki ekki í dag svo að hæstv. ráðherra fái tækifæri til að tjá sig um þetta frv.
    Ég mæli hér sem sagt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem allir hv. þm. Sjálfstfl. í neðri deild flytja.
    Frv. þetta lætur ekki mikið yfir sér, það er stutt en það er í rauninni gríðarlega efnismikið. Í þessu frv. felst, ef það nær fram að ganga, að eignarskattshækkanirnar, sem meiri hlutinn á síðasta Alþingi samþykkti, verði afturkallaðar og að eignarskattur manna verði eftir gildistöku þessara laga hinn sami og hér var, t.a.m. í fyrra og nokkur síðustu ár, þ.e. aðeins eitt þrep, 0,95%.
    Ég þarf ekki að rifja upp í löngu máli hvaða breyting átti sér stað á síðasta þingi. Þá var eignarskattsstiganum breytt með þeim hætti að hið almenna skattþrep var hækkað úr 0,95% í 1,2% og sömuleiðis var tekið upp nýtt þrep, svokallað háeignaþrep, eða stóreignaþrep, fyrir eignir einstaklinga yfir 7 millj. og hjóna yfir 14 millj. Þegar þessi mál voru hér til umræðu á sl. vetri og ekki síður í kjölfar þess að lögin voru samþykkt kom fram mjög kröftug gagnrýni á þessa lagasetningu og ábendingar um að þessi lög kæmu sérstaklega illa við einstaklinga í þjóðfélaginu, ekki síst ekkjur og ekkla, einstæða foreldra, fráskilda og aðra þá aðila sem þurfa einir að standa undir heimilisrekstri.
    Við þessu var að hluta til brugðist á síðasta þingi þegar samþykkt var, að frumkvæði stjórnarandstöðunnar, sérstök breyting til ívilnunar fyrir ekkjur og ekkla sem misst hafa maka sína á sl. fimm árum og sitja í óskiptu búi. Þessi breyting gagnaðist að sjálfsögðu ákveðnum hópi manna en eftir stendur eigi að síður að skattbreytingin frá í fyrra var í raun
sérstök árás á ákveðna hópa einstaklinga sem síst áttu það skilið að ríkisvaldið gengi fram fyrir skjöldu og refsaði þeim fyrir ráðdeild og sparnað á liðinni tíð. Skattur þessi kom síðan að sjálfsögðu ekki til framkvæmda fyrr en um mitt sumar þegar álagning fór fram vegna þess að hér er um að ræða skatt sem lagður er á utan staðgreiðslu. Hann er greiddur á fimm mánuðum og hækkunin kom til framkvæmda á síðustu fimm mánuðum þessa árs.
    Mér er kunnugt um að í ýmsum tilfellum hafa þeir einstaklingar sem orðið hafa fyrir barðinu á þessum gríðarlegu hækkunum þurft að standa undir því með því að taka lán. Og það er alveg ljóst að hjá slíkum einstaklingum er vandi fyrir dyrum, ekki bara að standa skil á slíku láni heldur jafnframt að horfast í

augu við fyrirframgreiðslu þessa skatts í upphafi næsta árs, væntanlega 70%, til viðbótar við fasteignagjöld og annan kostnað sem leggst á þessar eignir.
    Þess vegna, herra forseti, er mjög brýnt að gera hér leiðréttingu á og afturkalla þau mistök sem voru gerð í fyrra. Margir hv. þm., sem að þeirri gjörð stóðu, hafa verið það miklir drengskaparmenn að viðurkenna að þeim hafi orðið á mistök. Það er viðurkennt af ýmsum þeim sem að þessari lagasetningu stóðu að þeir höfðu ekki séð fyrir endann á því hvað hún þýddi. Og það verður að segjast eins og er að skýringar hæstv. fjmrh. í þessu efni, bæði í greinargerð með frv. á sínum tíma og allan tímann síðan, hafa verið byggðar á ónógum upplýsingum, að ég segi ekki blekkingum. Það er þess vegna ljóst að ýmsir þeir sem tóku þátt í þessari lagasetningu á síðasta þingi gerðu sér ekki nægilega grein fyrir því hvað hún hefði í för með sér og hafa í því sambandi talað um slys, mistök o.s.frv.
    Nú gefst þessum aðilum öllum tækifæri til að taka þátt í því, með flm. þessa frv., að leiðrétta þessi mistök. Við munum fagna því, fagna hverjum og einum sem er reiðubúinn til að ganga til móts við flm. um að breyta þessum lögum. Við erum að sjálfsögðu reiðubúnir til allra viðræðna um það með hvaða hætti hægt er að ná samkomulagi um að gera hér breytingar á. En hitt er ljóst að það er alger nauðsyn að knýja fram breytingu á þessum lögum, knýja fram einhverja leiðréttingu fyrir þann hóp fólks sem í hlut á.
    Við, sem flytjum þetta frv., tókum þann kost að takmarka það einvörðungu við leiðréttingu á þeim lögum sem samþykkt voru í fyrra. Þess vegna er þetta frv. einvörðungu um það að afturkalla hækkanirnar á eignarskattinum frá því á síðasta þingi. Þetta frv. er ekki um það að leiðrétta allar hugsanlegar skekkjur sem kunna að finnast í skattalögunum. Þetta frv. tekur t.a.m. ekki á því að það var ákveðið óréttlæti fyrir í lögum að því er varðar skattlagningu á einstaklinga miðað við hjón og þar með skattlagningu á ekkjur og ekkla miðað við hjón. En sú mismunun og það óréttlæti margfaldaðist með þeim lögum sem samþykkt voru í fyrra. Frv. núna gengur út á að afturkalla það. Það hefur hins vegar ekki í för með sér að ganga lengra en var í lögunum sem giltu þangað til
í fyrra.
    Sama má segja um skattfrelsismörkin í þessu frv. Þau eru með þeim hætti að ekki er gert ráð fyrir öðru en þeirri hækkun skattfrelsismarka sem núgildandi lög hefðu hvort eð er haft í för með sér. Það er alveg ljóst að hið svokallaða fríeignamark, skattfrelsismörkin í eignarskatti, hafa á undanförnum árum ekki hækkað til samræmis við fasteignamat. Þar er því auðvitað komin full ástæða til frekari leiðréttingar og flm. gera sér það ljóst. En í stað þess að taka þann kost að reyna að leiðrétta alla þessa hluti á einu bretti var valin sú leið að takmarka frv. eingöngu við mistökin sem gerð voru hér í fyrra og freista þess að ná samstöðu við einhverja sem að því stóðu þá í stað þess að hafa hér meira undir sem núv. stjórnarliðar og

þeir sem studdu þetta mál í fyrra bera ekki sérstaka ábyrgð á.
    Það mætti bæta við þessa upptalningu því atriði, sem hefur verið í skattalögum lengi, að eignarskattar barna undir 16 ára aldri leggjast við skattstofn foreldra og í einstaka tilfellum stjúpforeldra. Þetta er mál sem þarf að taka sérstaklega á. Ekki er gerð tillaga um það í þessu frv. vegna þess að þetta mál er einangrað við hækkanirnar frá í fyrra eins og ég hef ítrekað látið koma fram.
    Ég vil láta þess sérstaklega getið, vegna þess að ég þykist vita að einhverjir sem hafa lesið þetta frv. hafi rekið í það augun, að því fylgir ekki áætlun um hvað þessi breyting kunni að kosta ríkissjóð. Það er engin áætlun um það hvað þessi lagfæring og óhjákvæmilega leiðrétting á eignarskatti kann að kosta ríkissjóð. Það er því eðlilegt að spurt sé: Hvað skyldi það kosta ríkissjóð að færa þetta í sama farið og áður? Það er ekkert sérstaklega flókið mál að reyna að geta sér til um hver sú upphæð kynni að vera. En flm. tóku þá afstöðu að láta það liggja á milli hluta vegna þess að hér er um að ræða hreint prinsipmál, hreina spurningu um grundvallaratriði og leiðréttingu sem verður að koma til, þó svo að hún kosti ríkissjóð einhverja fjármuni, sem voru teknir í fyrra af því fólki sem hér um ræðir með því sem ég vil leyfa mér að kalla rangindum. Hér er um að ræða illræmda skattahækkun sem kom til framkvæmda í fyrra og verður að afturkalla. Ég er ekki í neinum vafa um það að hinn hugmyndaríki fjmrh. finnur leiðir til þess að bæta ríkissjóði upp það tekjutap sem af því kann að leiða. A.m.k. hefur þessi skattahækkun, sem átti að verða liður í því í fyrra að tryggja ríkinu 600 millj. kr. rekstrarafgang, ekki orðið til þess heldur bendir nú allt til þess að ríkissjóður verði á þessu ári rekinn með 5,5 milljarða kr. halla, eða 6 milljörðum kr. lakari afkomu en gert var ráð fyrir í fyrra þegar hæstv. fjmrh. og stuðningsmenn hans börðu fram þessar breytingar á eignarskatti.
    Nei, herra forseti, þetta mál snýst ekki um þær krónur og þá aura sem hér kunna að vera í húfi fyrir ríkissjóð. Þetta snýst um leiðréttingu gagnvart almenningi í landinu, þetta snýst um hagsmuni þeirra sem rangindum voru beittir í þessu efni á síðasta þingi. Þess vegna er þetta frv. flutt án þess að þess sé sérstaklega getið hvert tekjutap ríkisins kunni að verða.
    Þannig er, herra forseti, að stofnuð hafa verið hér í bænum sérstök samtök fólks til að beita sér gegn þessari hækkun eignarskatta sem var knúin í gegnum Alþingi á síðasta þingi. Þessi samtök hafa fengið til liðs við sig ýmsa glögga reikningsmenn sem hafa lagt fram ýmis ágæt dæmi um það hve skattar af eignum, bæði einstaklinga og hjóna, hafa hækkað mikið á þessu ári. Eins og kemur fram í fréttatilkynningu fjmrn. frá síðasta sumri tvöfölduðust eignarskattarnir á þessu ári miðað við það sem var í fyrra í krónum talið. En það kemur fram í ýmsum gögnum sem þau samtök, er ég nefndi, hafa látið gera hversu gríðarlega miklar hækkanir er um að ræða fyrir tiltekna hópa

fólks. Ég vil leyfa mér að benda á í þessu sambandi þá greinargerð sem fylgir frv. sem fskj. I þar sem eru dæmi um breytingar á eignarsköttum milli áranna 1988 og 1989, annars vegar fyrir einstaklinga og hins vegar fyrir hjón.
    Það er alveg ljóst að í mjög mörgum tilfellum, t.a.m. þegar um er að ræða ekkjur sem búa í eldri húsum, í stærri eignum hér í Reykjavík eða nágrenni, er um að ræða hækkanir sem nema á annað hundrað prósenta og geta þá numið í ýmsum tilvikum vel á annað hundrað þúsund krónum. Í mörgum tilvikum er um aðila að ræða sem búa í gömlum eignum, sem eru hátt metnar, en hafa ekki tekjur í samræmi við skráð verðmæti þeirrar eignar sem viðkomandi býr í. Þetta er ein af meinsemdunum í þessu kerfi. Fólki er refsað fyrir að búa áfram í íbúðarhúsum sínum með því að leggja háa eignarskatta á slíkar eignir þótt ekki séu tekjur að sama skapi til að standa undir þeim.
    En það er augljóst mál sem allir vita að eignarskatta hlýtur að verða að greiða af tekjum, annaðhvort af tekjum sem eignin gefur af sér sjálf eða þá af vinnulaunum eða eftirlaunum eða öðrum tekjum. Nema það sé hugmynd manna að menn greiði eignarskatta með því að selja eignirnar, hluta af þeim, leysa þær upp og hrökklist þannig úr sínum vistarverum. Það heitir hins vegar ekki skattlagning á íslensku. Það heitir eignaupptaka. Og því miður hefur stefnt í þá átt með skattastefnu núv. ríkisstjórnar og með þeim lögum sem illu heilli voru samþykkt á Alþingi um þetta efni fyrir síðustu áramót en við flm. leggjum
til að breytt verði með því frv. sem hér er til umfjöllunar.
    Ég skal ekki hafa um þetta lengra mál, herra forseti, en ég vil benda mönnum á að kynna sér þær töflur sem eru í frv. og sýna glöggt hvaða breytingar hér hafa orðið á og hversu mikil röskun það er á högum fólks þegar slík hækkun kemur til framkvæmda, afturvirkt, án þess að fólki gefist nokkur umþóttunartími til þess að huga að breytingum á sínum högum ef það yrði ofan á hjá fólki.
    Ég vil ítreka það að endingu, herra forseti, að flm. þessa máls gengur ekki annað til með því að flytja þetta frv. en að knýja hér á um leiðréttingar. Og við, eins og ég sagði, fögnum hverjum og einum þeim sem vill ganga til liðs við okkur með að knýja hér á um leiðréttingar. Þess vegna erum við til viðræðu um aðrar breytingar á þessum lögum ef um þær kynni frekar að nást samstaða. Aðalatriðið er að þoka áleiðis breytingum í þessa átt þó að auðvitað sé það okkar markmið að flytja þetta í það horf sem frv. gerir ráð fyrir.
    Ég vænti þess að hv. fjh.- og viðskn., sem mun fá þetta frv. til umfjöllunar, gefi sér gott tóm til þess að kanna rækilega hverjar hafa verið afleiðingar þessarar skattahækkunar í fyrra og freisti þess síðan að ná samkomulagi um óhjákvæmilegar leiðréttingar í þessu efni.
    Ég ætla ekki að segja hv. fjh.- og viðskn. fyrir verkum en sem gamall nefndarmaður þar veit ég að

í henni sitja upp til hópa valinkunnir sæmdarþingmenn sem ættu að geta náð einhverju samkomulagi um þetta mál. Ég minnist þess að í fyrra var þessu máli breytt lítillega í meðförum fjh.- og viðskn., m.a. þannig að fríeignarmarkið í efra þrepinu var hækkað úr 6 millj. í 7 og það munaði strax verulega um það.
    Það eru ákveðin fordæmi um það í fjh.- og viðskn. að taka á þessum málum og ná um það samkomulagi þegar við blasir að gengið hefur verið allt of langt í skattlagningu. Ég leyfi mér að vona að það muni áfram takast í þessu máli þó svo að flm. fái hugsanlega ekki allt sitt fram.
    Ég vil að svo mæltu, herra forseti, leyfa mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn., um leið og ég ítreka ósk mína um að umræðunni ljúki ekki í dag heldur gefist hæstv. fjmrh. tækifæri til að taka þátt í henni.