Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Sigríður Lillý Baldursdóttir:
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er afturhvarf til þess sem var fyrir skattabreytinguna um sl. áramót. Við kvennalistakonur teljum það vissulega til bóta að hverfa til fyrri reglna um eignarskatt, en við erum þeirrar skoðunar að eignaviðmiðun sú sem lögð er til í þessu frv. sem hér er til umræðu sé of lág og taka hefði mátt tillit til hjúskapar eða sambúðar þannig að eignamörkin yrðu hærri hjá einstaklingum.
    Kvennalistakonur eru þeirrar skoðunar að ekki skuli leggja skatt á nauðþurftir fólks. Íbúð, þó lítil væri, fæst ekki fyrir 2,5 millj. Þess vegna hefðum við viljað sjá hér hærri tölu sem viðmið fyrir einstakling. Og eins og áður sagði finnst okkur eðlilegt að tekið sé tillit til sambúðar. Við vitum öll að í íbúð þarf að vera ákveðin nauðsynleg aðstaða eins og eldhús, baðherbergi, anddyri og fleira óháð því hve margir búa í henni. Þannig er nauðsynlegur kostnaður einstaklings vegna íbúðar hærri en þess sem er í sambýli.
    Kvennalistinn lagði nokkuð af mörkum á síðasta þingi til að draga úr því misrétti sem fólk varð fyrir vegna eignarskattsbreytingarinnar um sl. áramót með frv. til l. um að eftirlifandi maki þyrfti ekki að greiða hærri skatt af eignum eftir lát maka á meðan setið er í óskiptu búi. Hér er enn reynt að taka á misréttinu með því að fara í gamla farið. Skoðun kvennalistakvenna er að þessi mál þurfi að skoðast í tengslum við heildarendurskoðun á eignarsköttum, en slíka endurskoðun má ekki gera í fljótræði. Við megum ekki hrapa að slæmum lausnum í kerfisbreytingum. Dæmin um slíkar lausnir eru allt of mörg í skattakerfinu sem víðar. Reynsla kerling verður að ná eyrum stjórnvalda. Því teljum við eðlilegt að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem hér er lagt til því það liggja fyrir raunveruleg dæmi um fólk sem stendur mjög höllum fæti vegna eignarskatts af nauðþurftum, af nauðþurftarhúsnæði. Þar eru fjölmennastar einstæðar konur með litlar sem engar tekjur. Það getur ekki hafa verið meining stjórnvalda að níðast á þessum hópi með eignarskattsbreytingunum sl. ár. Kvennalistakonur eru þeirrar skoðunar að betra hefði verið heima setið en af stað farið þá. Því hljótum við að fagna því frv. til l. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem hér er til umræðu. En ég ítreka að þrátt fyrir að hér sé lögð til tiltölulega lág skattaprósenta, þá teljum við að eignaviðmiðun sé of lág. Nauðþurftir okkar ættu ekki að skattleggjast.