Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Mál þetta er að formi til um málefni aldraðra, breyting á lögum um málefni aldraðra, en efnislega er hér á ferðinni skattamál. Ég vil leyfa mér að rifja upp fyrir þingheimi hvernig háttaði til hér á síðasta vori þegar afgreidd voru ný heildarlög um málefni aldraðra. Þá var það þannig að búið var að lauma inn í þessi lög nýrri tekjuöflun í ríkissjóð upp á 200 millj. kr. með því að í frv. var gert ráð fyrir sérstökum nefskatti upp á 2500 kr. á hvern gjaldanda á aldrinum 16--70 ára.
    Ég vakti ítrekað athygli á því á síðasta þingi að hér væri bæði um að ræða brigð við skattgreiðendur og þau fyrirheit sem gefin voru þegar upp var tekin staðgreiðsla í landinu, en þá voru allir slíkir nefskattar og sérskattar lagðir niður. Auk þess væri hér með lymskulegum hætti verið að lauma inn nýjum skattahækkunum ofan á allt annað sem þessi hæstv. ríkisstjórn hafði þá þegar komið í gegnum hv. Alþingi.
    Að auki er það þannig, og á því vakti ég líka athygli á síðasta vori, að nefskattar, sérstök aukagjöld, passa ekki inn í það innheimtuform sem hið nýja staðgreiðslukerfi skatta er. Þess vegna væri þetta mál, hinn nýi nefskattur, hið versta mál að öllu leyti. Það tókst að knýja fram breytingu á frv. sem hér var til meðferðar í vor þannig að þessi skattur kom ekki til framkvæmda á líðandi ári eins og þó stóð til í upphafi, heldur mun hann að óbreyttu ekki koma til framkvæmda fyrr en á næsta ári.
    Nú er það þannig, herra forseti, að ýmsir óvæntir stuðningsmenn bættust í þann hóp sem tók undir minn málflutning á síðasta þingi. M.a. lýsti hæstv. utanrrh. því að hér væri á ferðinni slys og hann ætti að vita það best sjálfur vegna þess að hann hefur verið í hópi þeirra sem stutt hafa upptöku staðgreiðslukerfisins og var reyndar fjmrh. þegar lögin um staðgreiðslu tóku gildi. Þess vegna var honum þetta mál nokkuð skylt. Hann lýsti því yfir að þetta hefði verið slys og það væri ekki stefna Alþfl. að taka upp nefskatta á nýjan leik. Ummæli hæstv. ráðherra eru rakin hér í grg. með frv.
    Hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson tók í sama streng og það gerðu reyndar fleiri. Og hæstv. utanrrh. lýsti því yfir að ekki hefði verið tími á síðasta vori til þess að ganga lengra en að fresta þessum skatti í eitt ár og gaf í skyn að það væri unnið að því til haustsins að gera endurbætur á þessu máli þannig að skatturinn þyrfti aldrei að koma til framkvæmda.
    Í grg. með fjárlagafrv. er látið koma fram að það standi til að gera breytingar á fjáröflun í Framkvæmdasjóð aldraðra, en þessi margumræddi nefskattur, þetta margumrædda sérstaka gjald, rennur einmitt í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þess vegna mátti ætla af fjárlagafrv. að ríkisstjórnin hygðist standa við það sem hæstv. utanrrh. gaf í skyn hér á síðasta vori. Það er hins vegar ekki svo að sjá af lista yfir frv. frá ríkisstjórninni sem dreift hefur verið til þm. Þar er ekki að sjá að neitt slíkt frv. sé á döfinni hvorki frá

hæstv. heilbrrh. né hæstv. fjmrh. Það er vegna þessa, herra forseti, sem við þrjú sem stóðum að brtt. um þetta efni á síðasta þingi höfum leyft okkur að flytja hana aftur og nú í frumvarpsformi að sjálfsögðu. Við viljum ekki una því að það verði ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru um þetta efni á sl. vori og viljum láta á það reyna hvort sá meiri hluti, sem hér var fyrir hendi um þetta mál að því er virtist á síðasta vori, er til staðar og hvort hægt er að knýja hann fram í atkvæðagreiðslu um frv. Í þeim meiri hluta eru auk stjórnarandstöðuflokkanna væntanlega stór hópur þm. Alþfl. og í það minnsta hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og e.t.v. fleiri úr hans þingflokki.
    Þetta mál snýst sem sagt um það að gera ákveðna lagfæringu á lögunum sem samþykkt voru hér í vor um málefni aldraðra en þó þannig að Framkvæmdasjóður aldraðra beri ekki skarðan hlut frá borði heldur verði honum tryggðar nákvæmlega sömu tekjurnar með beinu framlagi úr ríkissjóði sem þegar er innheimt í gegnum staðgreiðslukerfi skatta, en ekki með því að leggja nýtt gjald á landslýð eins og illu heilli var tekið upp ákvæði um í þeim heildarlögum um málefni aldraðra sem þingið samþykkti í vor. Um þau lög var almenn og góð samstaða í heild sinni, eins og eðlilegt er um slíkt mál, að öðru leyti en því er snerti þetta ákvæði um sérstakt gjald sem er að finna í 10. gr. þessara laga.
    Við flm. viljum sem sé knýja fram úrslit um þetta atriði og herma þann stuðning við þetta mál sem fram kom á sl. vori upp á þá sem hann veittu og honum lýstu yfir eða knýja ríkisstjórnina til þess að flytja sjálf frv. um þetta efni.
    Það er illt í efni, herra forseti, að enginn þeirra aðila sem þátt tóku í umræðu um þetta mál á sl. vori séu hér viðstaddir, til að mynda hæstv. utanrrh., en ég hyggst ekki gera neina kröfu um að einhverjir sérstakir ráðherrar eða aðrir séu viðstaddir þessa umræðu. Það væri þá helst hæstv. fjmrh. vegna þess að hér er um að ræða skattamál, en ég ætla ekki að fara fram á neitt slíkt, og auðvitað heyrir þetta mál ekki formlega undir utanrrh. þó að hann hafi tjáð sig um það á síðasta þingi sem formaður Alþfl.
    Þetta hygg ég, herra forseti, að geri nægilega grein fyrir því um hvað þetta mál snýst, en ég hyggst gera tillögu um að málið fari fyrir hv. fjh.- og viðskn. en ekki heilbr.- og trn. vegna þess að eins og ég sagði í upphafi er hér um að ræða í raun skattamál en ekki heilbrigðismál þó svo að það sé að formi til um breytingu á lögum um málefni aldraðra að ræða.
    Ég vænti þess að hv. fjh.- og viðskn. taki þetta mál eins og önnur skattamál til ítarlegrar umfjöllunar og kanni það sérstaklega hjá skattyfirvöldum með hvaða hætti sérstakur aukaskattur eða nefskattur af þessu tagi getur fallið að staðgreiðslukerfi skatta, rifji upp þau fyrirheit sem gefin voru um að fella öll slík gjöld niður og kanni það hvort ekki er unnt að ná samstöðu um að tryggja Framkvæmdasjóði aldraðra þá fjármuni sem hann á vissulega skilið án þess að ganga á bak þeim fyrirheitum sem gefin voru á sínum tíma varðandi staðgreiðsluna, án þess að grafa undan

framkvæmdinni í staðgreiðslunni, án
þess að hækka skatta á almenningi um 200 millj. kr. á ári á núvirði eins og allt stefnir í að óbreyttum lögum.
    Þess vegna er þetta frv. flutt. Þetta er framhaldssaga frá síðasta vori ef svo mætti segja og hún er tilkomin vegna þess að það bólar ekkert á því að þeir menn sem tóku undir þennan málflutning á síðasta vori gefi sig fram sjálfir og flytji frv. til breytinga á þessum lögum. Eðlilegast væri að sjálfsögðu að fram kæmi stjfrv. til þess að afmá þennan nefskatt og koma í veg fyrir að grafið verði undan framkvæmdinni í staðgreiðslukerfi skatta, en eins og fram kom á síðasta þingi lýsti ríkisskattstjóri því yfir í heilbr.- og trn. --- það var nú svo undarlegt að það þurfti að kveðja hann á fund í þeirri nefnd vegna þessa máls --- að þetta frv. félli illa að staðgreiðslukerfinu þó að hann á hinn bóginn léti þess getið að auðvitað væri þetta framkvæmanlegt. Það er auðvitað allt framkvæmanlegt sem mönnum dettur í hug í þessum efnum. Það er hins vegar misjafnlega vel framkvæmanlegt og það fellur misjafnlega vel að því sem lofað var þegar staðgreiðslukerfið var upp tekið og ástand þessara mála eins og það er í dag, með þetta ákvæði í lögum um málefni aldraðra, er hrein brigð, hrein svik gagnvart því sem lofað var á sínum tíma í þessum efnum. Þess vegna er þetta frv. flutt til þess að hnekkja því og knýja fram eðlilegar breytingar í þessu efni.
    Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.