Áfengisfræðsla
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Flm. (Árni Johnsen):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um áfengisfræðslu. Samsvarandi mál var flutt á Alþingi fyrir tveimur árum, en fékk ekki framgang og er nú lagt fram á ný.
    Markmið þessara laga er að byggja upp skipulega áfengisvarnafræðslu til þess að draga úr því heilsutjóni sem misnotkun áfengis veldur. Það er lagt til í frv. að þriggja manna nefnd verði skipuð til fjögurra ára í senn og að í henni sitji sérfróðir menn um það vandamál sem um ræðir og ætlast er til að ráðherra skipi einn nefndarmann formann.
    Nú er hér stillt upp dæmi sem er ekki nýtt af nálinni. Þetta er ekki ósvipað fyrirkomulaginu varðandi tóbaksvarnafræðslu sem hefur gefist vel. Það er ljóst að vandamál af áfengisneyslu á Íslandi er allverulegt. Nefna má að nokkur hundruð sjúkrarúm í landinu eru bundin vegna ofnotkunar áfengis og vandamálið því stórt í sniðum.
    Það er miðað við í frv. að varið sé 2 prómillum af brúttósölu áfengis til áfengisvarnafræðslu. Þetta er sama hlutfall og miðað er við í tóbaksvarnanefnd og miðað við árið 1988 hefðu verið þarna u.þ.b. 8,5 millj. kr. til þessa starfs sem ætlast er til að nefndin skili.
    Það er að mínu mati mikil ástæða til þess að sporna á eins skynsamlegan hátt og hægt er við því vandamáli sem áfengisneysla er og þetta frv. til laga er liður í þá átt.
    Að lokinni 1. umr. legg ég til að málinu verði vísað til heilbr.- og trn.