Jarðgöng milli lands og Eyja
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Flm. (Árni Johnsen):
    Hæstv. forseti. Ég þakka jákvæðar undirtektir við þessa till. Það er auðvitað ljóst að hér er fjallað um mál sem er framtíðarmál, gæti orðið fyrr en seinna, hvort sem menn eru að tala um tíu eða tuttugu ár. Ég ætla ekki að víkja hér að verðlagningu fargjalda með Herjólfi. Auðvitað er æskilegt að þau lækki, en það eru tvær leiðir milli lands og Eyja, önnur frá Eyjum og hin til Eyja, og á auðvitað þá að gilda jafnt um alla sem fara þar á milli, í verðlagningu. Það má velta ýmsum hlutum fyrir sér eins og því, ef maður tengir við þjóðvegakerfið, er þá ekki kominn tími til þess að greiða niður ferðir Akureyringa til þess að koma til höfuðborgarinnar og komast í tengsl við stjórnsýslukerfið? Þær eru því margar spurningarnar sem vakna upp í svona málum.
    Það kann að vera að þegar búið er að skoða þetta mál --- sem vonandi verður nú þegar því að það er æskilegt að gera það, sérstaklega með tilliti til þess að kostnaðurinn er ekki neitt sem mönnum bregður við --- þegar tíma líða, eins og ég sagði, eftir tíu til fimmtán ár, þá séu aðrir valkostir sem gætu leyst þessa hugmynd af hólmi, loftpúðaskip eða annað sem tæknin býður upp á, en ég vona að þetta mál gangi í gegn. Það er forvitnilegt, það er vissulega stórt, en þó vil ég nefna, af því að hér var talað um að það væri skortur á peningum, að göng í gegnum Ólafsfjarðarmúla eru 3,3 km. Þau kosta 1,2 milljarða. Það er þrisvar sinnum lengri leið milli lands og Eyja. Göng þar mundu þó ekki kosta þrisvar sinnum meira í dag, miðað við þá tækni sem nú er, heldur fjórum til fimm sinnum meira. Bilið er í rauninni ekki meira. Það er eilítið önnur tækni en sama grunnaðferð við gerð ganga, hvort sem það er í gegnum berg ofan sjávar eða neðan sjávar.
    Ég hef rætt við forseta um athugasemd sem gerð var áðan um framgang málsins og stend við þá ósk að það fari til atvmn. Sþ.