Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Málshefjandi í þessum umræðum utan dagskrár er hv. 1. þm. Reykn. Þess vegna er rétt að taka það fram að viðskiptin við Sovétríkin, hvort sem er með olíu eða saltsíld, byggjast á rammasamkomulagi um viðskipti milli landanna sem var gert árið 1985 í viðskiptaráðherratíð málshefjandans. Það er einnig rétt að minna á að þetta samkomulag var á sínum tíma gert til þess að þjóna íslenskum útflutningshagsmunum, ekki síst hagsmunum síldarsaltenda.
    Það er rétt sem fram hefur komið að það hefur valdið vandræðum hversu dregist hefur að fá staðfestingu sovéskra stjórnvalda á samkomulagi sem gert hafði verið 4. nóv. um sölu á saltsíld héðan til Sovétríkjanna. En í því moldviðri sem þyrlað hefur verið upp um undirritun olíukaupasamninganna við Sovétríkin 14. nóv. sl. hafa efnisatriði málsins týnst. Og ekki var ræða hv. 1. þm. Reykn. til þess fallin að varpa nýrri birtu á það mál. Það rammasamkomulag sem er í gildi um viðskiptin og nær yfir tímabilið 1986--1990 er hvorki vöruskiptasamningur né eru þær magn- eða verðmætistölur sem þar eru upp gefnar bindandi fyrir hina ýmsu vöruflokka. Hér er um að ræða samkomulag um viðskipti þar sem greiðslurnar eru í frjálsum, skiptanlegum gjaldeyri fyrir vörukaup. Endanlegar samningstölur á hverjum tíma eru háðar samkomulagi þeirra aðila sem viðskiptin eiga.
    Ég vil taka það fram að frá árinu 1980 til líðandi stundar hafa bindandi olíukaupasamningar við Sovétríkin oftast nær verið gerðir snemma hausts og hefur þótt æskilegt, efnis þeirra vegna, að þeir væru gerðir a.m.k. þremur mánuðum fyrir áramót. Gerð sölusamninga við Sovétríkin hefur hins vegar oftast tekið mið af fjárlagagerð í því landi sem venjulega lýkur um miðjan nóvember. Þeir hafa því oftast verið gerðir á fyrstu mánuðum næsta árs á eftir. En vegna þess hvenær síldveiðarnar fara fram höfum við jafnan reynt að fá samningum um sölu saltsíldar framgengt fyrr en öðrum sölusamningum. Þetta hefur stundum tekist en því miður ekki alltaf.
    Nú stendur einnig svo á að dreifing á ábyrgð utanríkisviðskipta hefur verið gerð í Sovétríkjunum og kann það enn að tefja málið, fyrir utan takmörkuð gjaldeyrisfjárráð. Málshefjandi nefndi hér að samgöngur innan ríkisstjórnarinnar hefðu verið eitthvað torveldar í þessu máli. Ég vildi bara vekja athygli á því að það hefur ekki tíðkast að hafa um þetta formlegt samráð á milli ráðuneyta. Viðskrn. lét að sjálfsögðu utanrrn. fylgjast með málinu og sjútvrh. var skýrt frá því á lokastigi og þá var málið rætt á ríkisstjórnarfundi. Þá var m.a. ákveðið að starfandi forsrh., sem þá var sjútvrh., og viðskrh. kölluðu á sovéska sendiherrann til viðræðna um málið þann sama dag.
    Það hefur reyndar ekki tíðkast að tengja saman kaup okkar á olíu frá Sovétríkjunum og sölu okkar á síld þangað í beinum viðskiptasamningum. Það er einungis rammasamkomulagið sem tengir þetta tvennt

saman. Bein tenging var reynd í eitt skipti eins og hér kom fram hjá málshefjanda, haustið 1986, og hafði þá að mínu áliti alls ekki áhrif til þess að greiða fyrir síldarsölusamningi. Þvert á móti bendi ég á að það liðu 3 1 / 2 vika frá því að íslenskir ráðherrar ákváðu að skrifa ekki undir olíusamninginn þar til síldarsamningar náðust 5. nóv. það ár og hafa reyndar aldrei náðst síðar. Töfin á undirritun olíusamningsins þá kann hins vegar að hafa spillt um sinn þeim góðu samskiptum sem verið hafa við sovéska olíufélagið sem hingað selur olíu. Reynslan frá 1986, sem er hið eina sem við höfum við að styðjast, styður alls ekki það sem fram er haldið að nú hefði átt að fresta undirritun olíukaupasamningsins. Það stendur svo á að Síldarútvegsnefnd hefur gert samkomulag við sovéska innflutningsfyrirtækið Sovrybflot um kaup á 150 þús. tunnum af saltsíld með hugsanlegri viðbót upp á 50 þús. tunnur. Þetta samkomulag hefur beðið staðfestingar sovéskra stjórnvalda frá 4. nóv. sl. Sá dráttur sem orðið hefur á þessum samþykktum er vissulega erfiður. Óvissan um síldarviðskiptin er illþolandi því síldarsöltunin er og verður burðarás í tekjuöflun fólksins í plássunum þar sem síldin er söltuð á þessum tíma árs. En ég spyr hv. þingheim: Hefði verið viturlegt við þessar aðstæður að undirrita ekki olíukaupasamning við Sovétríkin sem er íslenskum viðskiptaaðilum hagstæður í sjálfu sér? Ég tel það afar ólíklegt svo að ekki sé meira sagt að leiðin til þess að koma fram síldarsölumálinu nú hefði verið sú að við brytum sjálfir rammasamkomulagið um olíuviðskiptin. Ég trúi því ekki að málshefjandinn sem sjálfur stóð að gerð þessa samkomulags mæli þeirri leið bót. Við sækjum ekki rétt í tvíhliða samning sem við virðum ekki sjálfir.
    Að lokum vil ég taka það fram að ég hef orð framkvæmdastjóra Síldarútvegsnefndar og forustumanns samninganefndar Síldarútvegsnefndar í Rússlandi í þessu máli fyrir því að Síldarútvegsnefnd hafi verið studd með ráðum og dáð af utanríkisþjónustunni og hafi aldrei notið annars eins fulltingis og í þetta sinn.