Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það hefur verið ljóst um nokkurn tíma að breytingar eiga sér nú stað í Sovétríkjunum. Um árabil hafa síldarviðskipti okkar við Sovétríkin verið með nokkuð sérstökum hætti þar sem ein sölusamtök með þátttöku opinberra aðila hafa verið aðilar að samningnum og ríkið hefur annast innkaup á olíuvörum. Undanfarin ár hafa saltsíldarsamningar verið á nokkuð tæpu vaði þrátt fyrir gildandi rammasamning frá árinu 1985 og því hefði átt að vera ljóst að nokkur hætta var á ferðinni í þetta sinn. Fyrirkomulag þessara viðskipta á undanförnum árum er mál út af fyrir sig sem ég ætla ekki að ræða hér.
    Það hefur legið fyrir um skeið að breytinga væri að vænta á viðskiptaumhverfi í Sovétríkjunum. En meginspurning af okkar hálfu er hvort eðlilega hafi verið brugðist við breyttum aðstæðum af hálfu íslenskra stjórnvalda, þar á meðal hvort rétt hafi verið af viðskrh. að staðfesta samningana um olíukaup við Sovétríkin.
    Við ríkjandi aðstæður á vinnumarkaði er hér um sérstaklega afdrifaríkt mál að ræða þar sem ekki er víst að fólk sem hefur ráðið sig til síldarsöltunar fái önnur verkefni. Í mörgum tilfellum er um að ræða húsmæður sem lagt hafa sitt af mörkum við að bjarga verðmætum og tekjur af þeirri vinnu hafa haft verulega þýðingu fyrir mörg heimili. Því er eðlilegt að þessi mál séu rædd hér á Alþingi og ríkisstjórnin upplýsi málið af sinni hálfu. Íslensk stjórnvöld hafa ekki gert grein fyrir því á hvern hátt þau hafa brugðist við breyttum aðstæðum í Sovétríkjunum þannig að okkar hagsmuna sé gætt. Við hljótum að vona að samningar fáist staðfestir fljótlega en ljóst er þó að verulegur skaði er nú þegar orðinn.