Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen spurði að því hvað ríkisstjórnin hygðist gera í þessu alvarlega máli. Sannleikurinn er sá að það hefur trúlega aldrei verið meira gert en nú í þessu máli og hefur þó margt þurft að gera á undanförnum árum og hef ég kynnst því mjög vel í gegnum tíðina.
    Það er alveg rétt að það eru miklar breytingar í Sovétríkjunum en það er jafnframt rétt að hér er um mikilvæg viðskipti að ræða, bæði fyrir okkur og Sovétmenn, ekki aðeins í ár heldur um langa framtíð. Það er ekki nægilegt að treysta þessi viðskipti til eins árs í senn heldur verður að gera það um lengri framtíð og það hefur verið gert í þeim rammasamningi sem hefur verið gerður milli landanna.
    Ég átti m.a. í upphafi októbermánaðar samtöl við sjávarútvegsráðherra Sovétríkjanna í opinberri heimsókn þar og mér var þá strax ljóst að þetta mál var í verulegri hættu. Þeir stóðu við það sem þá var lofað að viðræður mundu hefjast mjög fljótlega, en þá lá ekkert fyrir um það hvort viðræður hæfust á næstunni. Það eru hins vegar mikil vonbrigði að sá samningur sem hefur verið gerður hefur ekki verið staðfestur. Það er líka verið að hefja í dag viðræður um kaup á frystum fiski og á lagmeti, þannig að hér er ekki eingöngu um saltsíldarviðræðurnar að ræða.
    Það er alveg ljóst að ef ekki fæst niðurstaða fljótlega í síldarsölumálinu og ekki gengur vel í viðræðum um hin málin tvö sem ég nefndi, þá er brostinn grundvöllur fyrir þessum viðskiptum í framtíðinni. Við höfum hins vegar fengið það staðfest að það er mikill og góður vilji fyrir því að þessi samningur sem nú er talað um komist á. Ekki hefur fengist upplýst hvenær niðurstöðu er að vænta en menn trúa því enn að þessi niðurstaða fáist. Það er hins vegar alveg rétt að hér hefur orðið verulegt tap og að ráðist hefur verið í mikla fjárfestingu í sambandi við þetta mál og jafnframt hefur verið ráðist í mikla fjárfestingu til frambúðar, m.a. með því að byggja kæligeymslur í flestum söltunarstöðvunum.
    Hér var á það minnst að lélegur samgangur væri innan ríkisstjórnarinnar. Svo er ekki. Hins vegar vill svo til að þegar viðræður um olíukaupasamninginn hófust, sem tóku mjög skamman tíma var ég staddur austur á landi. Ég kom þaðan á mánudagskvöldi og á þriðjudagsmorgun var þetta mál rætt en þá var samningurinn nánast frágenginn. Hitt er svo annað mál að jafnvel þótt slík samtöl hefðu átt sér stað er ekki þar með sagt að það hefði leitt til þess að ég hefði verið þeirrar skoðunar að ekki ætti að undirrita samninginn. Það eru mörg rök sem mæla með því að það hefði átt að undirrita samninginn. Það er t.d. ljóst að ef það hefði ekki verið gert hefði það flækt málið enn þá frekar. Auðvitað eru tvær hliðar á því máli eins og öllum öðrum og með því hefði verið tekin allmikil áhætta. Hins vegar er það alveg ljóst að ef ekki verður af þessum viðskiptum nú hlýtur það að koma mjög alvarlega fram í þeim viðræðum sem hefjast eftir tvo daga í Moskvu um áframhaldandi

viðskipti þjóðanna. Ég held að Sovétmönnum sé þetta alveg ljóst ekki síður en okkur, en ég trúi því enn að niðurstaða fáist í þessu máli og síld verði seld héðan eins og hefur verið í gegnum áratugina. En sá dráttur sem þarna hefur orðið er bagalegri en nokkru sinni fyrr.