Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það hefði nú verið jafngagnlegt að kalla fjmrh. eins og menntmrh. hingað upp í pontuna og leyfa honum að skýra orðsendinguna frá því hér um bil fyrir ári sem ríkisstjórnin hefur ekki tekið alvarlegar en raun ber vitni um. Það vekur enn fremur eftirtekt að hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir að honum hafi verið fyllilega ljóst 1. okt. að það stæði fyrir dyrum mikill vandi í sambandi við þessi viðskipti. Eftir sem áður hafa ráðherrarnir verið að gefa það í skyn að þessir samningar um sölu á saltsíld til Sovétríkjanna væru alveg á næstu grösum. Á þetta hefur síldarverkunarfólk út um allt land hlustað, útvegsmenn og þeir sem annast vinnslu þessara afurða.
    Nú lýsir hæstv. utanrrh. því yfir að hann sjái ekki að það þjóni neinum tilgangi að hann fari til Sovétríkjanna til að herða á þessum samningum og enn þá eru gefin fyrirheit og vaktar vonir hjá fólkinu í landinu um að þessir samningar séu á næsta leiti. Ég veit raunar ekki hvort það þjónar einhverjum tilgangi að hæstv. utanrrh. fari til Sovétríkjanna eða einhverjir aðrir ráðherrar í fylgd með honum. En það vill nú samt svo til að við sitjum með þessa ríkisstjórn og í þessu tilviki er sjálfsagt eitthvað skárra að veifa röngu tré en öngu og þess vegna vil ég nú hvetja ráðherrana til þess að sýna einhvern áhuga og taka einhverja rögg á sig í þessu máli.