Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað ræða þetta málefnalega, sérstaklega eftir hortugt svar hæstv. viðskrh. og rangfærslur hans í sínu svari, en það er ekki tími til þess. En það gerir það eðlilega að verkum að við hljótum að biðja um umræðu með öðrum hætti. Ég held að síldarsala til Sovétríkjanna sé það mikilvæg og hvernig málum er háttað að Alþingi Íslendinga geti vel eytt lengri tíma en hálftíma í þær umræður.
    Ég vil benda hæstv. viðskrh. á að það kom engin athugasemd frá Sovétríkjunum við því þegar frestað var undirritun olíusamninganna 1986. Ekki nokkur. Engin ásökun um brot á rammasamningi. Það er ekki fyrr en núna að Íslendingar hafa viðskrh. sem er svo hræddur við Sovétríkin að hann þorir ekki annað en að skrifa undir olíusamninga og eru þó Sovétríkin ólíkt mildara þjóðfélag í dag en það var 1986. Þetta er nú allur kjarkurinn.
    Ég spyr líka hæstv. sjútvrh. Hann var að reyna að bera í bætifláka fyrir viðskrh. út af því að hafa gengið frá olíukaupasamningi. Af hverju samþykkti hann og taldi ráðlegt 1986 að skrifa ekki undir olíukaupasamning við Sovétríkin? Hver er breytingin núna? Hvað hefur breyst á þessu tímabili? Hins vegar hefur ekkert breyst í viðhorfum Sovétmanna. Þeir voru að pína verðið niður 1986. Þá var hægt að fá ódýrari síld, m.a. frá Kanadamönnum og að einhverju leyti frá Norðmönnum. Þeir höfðu áður viðurkennt að gæði okkar síldar væru meiri og betri en hjá Kanadamönnum og við urðum auðvitað að láta hart mæta hörðu. Ég sagði við sendiherra Sovétríkjanna á þeim tíma að við ætluðum ekki að skrifa undir samninginn um olíuviðskipti fyrr en við værum búnir að fá afgreiðslu á okkar málum. Það var líkt á komið þá eins og nú. Það voru nýir menn sem voru að taka við viðskiptaráðuneyti Sovétríkjanna. Og það er ekkert í fyrsta skipti að sendiherrar Sovétríkjanna séu kallaðir á fund íslenskra ráðherra. Ég man ekki tölu á því hvað sendiherra Sovétríkjanna kom oft út af þessum síldarsamningum og fisksölusamningum og ullarvörum og fleira og fleira. Hér er ég með í höndunum orðsendingu sem send var til Sovétríkjanna 21. okt. og samningarnir tókust í raun og veru. Það var búið að fullvissa okkur um það fyrr en 5. nóv. Það var búið að gera það rétt eftir mánaðamót, fyrsta eða annan, svo að við vissum þá um niðurstöður, en nú er komið á þriðju viku fram yfir þennan tíma svo að það er ekki óeðlilegt að það sé órói bæði í sjómönnum, útvegsmönnum og verkafólki og öllum síldarsaltendum í landinu.