Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég svaraði fyrirspurn frá hv. 4. þm. Vesturl. úr sæti mínu með jái og endurtek nú sama svar úr ræðustól. Svarið er já. Málið hefur verið rætt og málið verður rætt. Auðvitað er það þannig að hér er á ferðinni mál sem snertir fjölda fólks, verkafólk og sjómenn, og að sjálfsögðu er þetta rætt og að sjálfsögðu hljóta ráðherrar Alþb. í samræmi við stefnu sína og skyldur að taka þátt í slíkum umræðum og hafa frumkvæði um þær ef þörf krefur.
    Það er hins vegar athyglisvert að ævinlega þegar verið er að ræða um viðskipti við Sovétríkin koma hér einstakir þingmenn Sjálfstfl. til þess að varpa tortryggni á þá menn sem nærri málum hafa komið. Það er sama hvort um er að ræða þann mann sem hér stendur og gegndi um skeið starfi viðskrh., en þá hélt Sjálfstfl. því fram að ég hefði í samráði við Sovétríkin hækkað verð á olíu um 200%. Það væri í raun og veru eingöngu útmetinn skepnuskapur undirritaðs sem ylli því að verð á olíu frá Sovétríkjunum hefði hækkað. ( HBl: Og kom engum á óvart.) Þessir aðilar, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e., hafa unnið að því um áratuga skeið að reyna að eyðileggja hugsanleg viðskipti við Sovétríkin. Þeir hafa hvatt til þess að hætt yrði olíuviðskiptum við Sovétríkin. Hins vegar hefur það verið svo að sömu menn hafa á hverju hausti kvartað undan því að ekki tækjust síldarsamningar við Sovétríkin. Þannig er nú samfellan og samkvæmnin í málflutningi Sjálfstfl.
    Frá þessu eru hins vegar heiðarlegar undantekningar þar sem um er að ræða menn eins og hv. 1. þm. Vestf. sem þekkir þessi mál ákaflega vel, bæði sem stjórnmálamaður og úr sínu atvinnulífi og sínum byggðarlögum þannig að auðvitað hafa fjölmargir talsmenn Sjálfstfl. áttað sig á því að viðskiptin við Sovétríkin hafa verið mikilvæg fyrir okkar atvinnuvegi og þar með okkar efnahagslíf og að sjálfsögðu hlýtur núverandi ríkisstjórn að starfa á þeim grundvelli. ( EgJ: Og læra af því.) Hitt er svo aftur annað mál að það hafa átt sér stað mjög miklar breytingar í Sovétríkjunum, breytingar sem ég hélt að við almennt séð fögnuðum frekar en hitt. Og þó að ég gangi ekki eins langt og hv. þm. Hreggviður Jónsson í þeim efnum tel ég ástæðu til þess að fagna þeim breytingum sem þarna eru að gerast. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að að einhverju leyti á sá vandi, sem nú er um að ræða í síldarsölusamningunum við Sovétríkin, rætur að rekja til þeirra breytinga sem eru að eiga sér þar stað, þar sem einstakir aðilar eru ekki á sama hátt seldir undir sök hinnar algjöru miðstýringar og áður var.
    Varðandi svo aftur það hvort hæstv. fjmrh. birtir sína skýrslu, þá er það hans mál. En ég verð að segja alveg eins og er að ég held að honum sé frekar þakkandi fyrir það að hafa rætt þessi mál á þeim vettvangi sem hann var staddur á og hafa gert grein fyrir því heldur en menn séu uppi með dylgjur, annarlegar dylgjur hér í málflutningi eins og þingmenn Sjálfstfl. hafa verið með hér í dag.