Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það má benda á það að ég sé sekur eins og aðrir um það að hafa talað of lengi í þessum stuttu umræðum, hálftíma umræðum. Ég hygg á hinn bóginn að þetta gangi ekki eins og tekist hefur til nú. Hæstv. utanrrh. hefur fengið heimild til þess að tala jafnlengi tvisvar sinnum til þess að flytja sömu ræðuna, en öðrum er hins vegar ekki hleypt að hér við þessar umræður. Ég vil beina því til hæstv. forseta eftirleiðis að sýna meiri röggsemi í því að menn reyni að halda sig við þingsköpin og ég skal reyna að leggja mig fram um það. En annað tveggja er að leggja hálftíma umræðurnar niður eða menn reyni að halda sig betur innan tímamarka. Ég geri ráð fyrir að hæstv. viðskrh. sé næstur með ræðu númer tvö?