Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf., að menn séu ekki róir í sinni yfir því hvernig síldarvertíðin líður dag frá degi án þess að menn geti hafið söltun upp í Rússasamningana, eins og sagt er. Að sjálfsögðu vakir það fyrir þeim sem fara með viðskiptamál landsins og viðskiptin við Sovétríkin að greiða fyrir því af fremsta megni að sölusamningar takist og hljóti staðfestingu. Ég hlýt reyndar að spyrja hv. málshefjanda hver sé tillaga hans í málinu. Er hann að leggja til að við teflum í tvísýnu því rammasamkomulagi sem hann gerði sjálfur?
    Ég get ekki sleppt því, virðulegi forseti, að minnast hér á einkennileg ummæli í leiðara Morgunblaðsins í gær um olíukaupamálin. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, ,,að rjúfa þurfi þá einokun í olíuviðskiptum, sem byggð hafi verið upp í samstarfi olíufélaganna, nokkurra embættismanna og vinstri sinnaðra stjórnmálamanna og sölusamtaka í sjávarútvegi``. Hvert er hér verið að fara? Er þetta dómur um þann fyrrv. ráðherra Sjálfstfl., hv. málshefjanda, sem gerði núgildandi rammasamning um viðskiptin við Sovétríkin eða um hv. 1. þm. Vestf., fyrrv. viðsk.- og sjútvrh.? Eru þeir þessir vinstri sinnuðu menn? Til vinstri við hverja eru þeir? Er hér e.t.v. verið að ræða um alla þá sem gegnt hafa embætti viðskiptaráðherra frá árinu 1953, og eru forstjórar olíufélaganna og sölusamtakanna seldir undir sömu sök?
    Ég vil leyfa mér að ítreka þá skoðun mína að það hefði ekki falist í því neinn þrýstingur á Sovétríkin að fresta nú undirritun olíukaupasamnings sem er okkur hagstæður. Matið á þessu er m.a. byggt á því að athuga staðreyndir málsins frá 1986. Ég met það við hv. 1. þm. Vestf. að hann fjallaði um þetta málefnalega eins og hans er vandi. Ég veit að hann frestaði undirritun þá í bestu trú á það að þetta væri áhrifaríkt ráð. Það reyndist ekki vera það. Það væri það enn síður nú. Ég er reyndar sannfærður um það að við hefðum þá orðið til að tefja málið. Við verðum líka að hugsa um aðra útflytjendur til Sovétríkjanna en síldarsaltendur. Eins og hv. 4. þm. Vesturl. minnti okkur á er nú verið að hefja samningaviðræður um viðskipti næsta árs. Þar er reyndar um að ræða 70% af okkar útflutningi til Sovétríkjanna samkvæmt reynslu síðustu ára. Um leið og við gerum þá kröfu til Sovétríkjanna að þeir standi við sína hlið á rammasamkomulaginu verðum við líka að standa við okkar part. Ég er því þess vegna andvígur að við tökum nú upp einhvers konar viðskiptastríð við Sovétríkin vegna síldarsölumálsins og ég tel reyndar að við eigum, eins og aðrar þjóðir á Vesturlöndum, að leggja áherslu á að auka við þau verslunarviðskipti í framtíðinni. Í því skyni eigum við auðvitað að standa við gerða samninga. En við þurfum, eins og við höfum verið minntir á í þessum umræðum, að gera okkur betur en við höfum gert grein fyrir þeim breytingum sem eru í vændum í Sovétríkjunum og þá á ég fyrst og fremst við það sem kallað hefur verið

,,perestrojka``. Þessar breytingar fela m.a. í sér að heimildir til utanríkisviðskipta eru einkum veittar fyrirtækjum og atvinnugreinum sem sjálfar afla gjaldeyris um leið og slakað er á miðstýringu. Við þurfum að laga síldarsölu til Sovétríkjanna að þessum breytingum og í reynd verðum við að finna form fyrir okkar viðskipti sem samrýmast þessum frjálsari viðskiptaháttum. Það er einmitt hlutverk stjórnvalda að taka nú þessi mál upp í komandi viðræðum um nýtt rammasamkomulag, e.t.v. um nýtt fyrirkomulag í viðskiptum milli Íslands og Sovétríkjanna. Það er mikið í húfi og við þurfum að gæta hagsmuna þess fólks sem á allt sitt undir því að það takist vel til um þessi viðskipti.