Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram sanna hversu raunverulega nauðsynlegt var að þetta mál kæmi hér inn í sali Alþingis. Það eitt ætti að sannfæra ráðherrana um að það er horft til þess með hvaða hætti þeir standa að þessum málum og ég hafna því sjónarmiði hæstv. viðskrh. að ég hafi ekki efnislega rætt þetta mál hér áðan, mjög efnislega. Það sýnir hins vegar hvað málið er honum viðkvæmt. Það sýnir líka í raun og veru hvernig hann metur sjálfur það sem hann er þegar búinn að gera þegar hann kemur hér upp og hefur málflutning eins og hann gerði hér í sinni seinni ræðu.
    Það hefur enginn komið hér upp til þess að leggja til að sá rammasamningur sem gerður hefur verið verði brotinn. Ekki einn einasti maður. Og það hafa allir komið hér upp og gert grein fyrir því og lagt á það áherslu hvað þetta eru þýðingarmikil viðskipti sem við höfum þarna átt. Sjálfur hef ég farið þar austur til þess einmitt að ganga frá þessum samningi og koma á síldarsamningi, árið 1985, en það var bara í júnímánuði sem það var að gerast.
    Menn hafa svo vikið að þeim breytingum sem eru að gerast í Sovétríkjunum um þessar mundir og hafa verið að gerast. Það er einmitt þeirra vegna sem það var ástæða til þess að horfa svolítið betur á þessi mál en kannski stundum áður. Og það er ekki að ófyrirsynju sem framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna skýrir frá því í Morgunblaðinu 18. nóv., með leyfi forseta, að þeir hafi gengið á fund viðskrh. til þess að óska eftir því við hann að ,,ekki verði gengið frá olíusamningum fyrr en svör hafa fengist frá Sovétmönnum um hvaða fjármuni þeir ætluðu til innkaupa frá Íslandi á sama tímabili. Þessi beiðni var sett fram vegna þess að útflytjendum þótti sem nokkuð skorti á að sovésk stjórnvöld gæfu fyrirtækjum sem Íslendingar skipta við nægilegt svigrúm til innkaupa. Þar sem olíuviðskipti eru á hendi íslenskra stjórnvalda fannst okkur, þ.e. hinum sem hafa viðskiptin við Sovétríkin, vegna þess að olíuviðskiptin eru hjá ríkinu en hitt er hjá hinum einstöku fyrirtækjum, beiðnin eðlileg en ráðherrann sá ekki ástæðu til þess að verða við þessari beiðni þá,,.
    Og svo heldur hann áfram og segir: ,,Við höfum reynt að ná viðbótarsamningum um frystan fisk allan seinni hluta ársins. Fyrir liggur að kaupandinn í Sovétríkjunum hefur áhuga á viðskiptum en skortir gjaldeyrisheimildir til að geta keypt. Mér skilst líka að vandræðin við síldarsöluna núna snúist fyrst og fremst um gjaldeyri. Þetta finnst mér benda eindregið til þess að skynsamlegt hefði verið að ræða báðar hliðar viðskiptanna á svipuðum tíma,,, þ.e. inn- og útflutning.
    Ég vil svo leyfa mér að biðja hæstv. utanrrh. að lesa fréttatilkynningu sem Síldarútvegsnefnd sendi frá sér í gær. Með leyfi forseta segir: ,,Í viðræðum þessum olli það alvarlegum erfiðleikum og skaðaði stöðu samningsnefndar Síldarútvegsnefndar að mikils ósamræmis gætti milli upplýsinga viðkomandi íslenskra og sovéskra stjórnvalda varðandi

viðskiptajöfnuð landanna á yfirstandandi bókunartímabili.``
    Segi svo menn, hér uppi í ræðustól, að þetta hafi ekki valdið vandræðum. Og ég trúi því ekki að hæstv. utanrrh. hafi ekki lesið þetta eða séð þetta en það er kannski skiljanlegt með tilliti til þess sem hann hefur verið að gera síðustu vikur og mánuði. En það að ráðherra fari til Sovétríkjanna væri þá ekki til annars en að herma upp á núverandi forsætisráðherra Sovétríkjanna það sem hann lofaði hæstv. forsrh. 2. mars 1987, vegna þess sem gerðist 1986, að til þessara hluta þurfi ekki að koma. En umfram allt: Við skulum vona það sem hæstv. utanrrh. sagði, að það eina sem eftir sé sé að skrifa undir þessa samninga sem gerðir voru 4. nóv. en ekki að þótt hann færi eða einhver annar ráðherra tæki það marga daga að ná árangri. Að það gerist á morgun eða hinn daginn, það er nauðsynlegt fyrir okkur.