Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur lagt hér fram heilbrigðisáætlun í formi till. til þál. Ég tel að það hnígi ákaflega mörg rök að því að skynsamlegt sé að gera þál. um verkefni eins og þetta. Menn gætu e.t.v. spurt: Er nú ekki óraunsætt að vera að gera áætlun um einstök atriði í heilbrigðismálum, ýmislegt sem kostar peninga, sumt kostar nýskipan og annað kostar útfærslu á því sem fyrir er eða tilfærslu verkefna? Ég er þeirrar skoðunar að við séum hér að fjalla um málaflokk sem að mestu leyti sé þess eðlis að hann sveiflist ekki með pólitískum breytingum í stjórnarfari landsins heldur byggi hann á víðtækum þekkingargrunni, oft miklum og kostnaðarsömum framkvæmdum svo og mikilli sérhæfingu sem kemur engri flokkapólitík við. Allt eru þetta þættir sem eru þess eðlis að til þess að ná sem bestum árangri í heilbrigðisþjónustunni, sem öruggastri heilbrigði landsmanna, sé það skynsamlegt að menn viti með nokkrum fyrirvara að hverju stefnt sé, hvers vænta má og hvernig þessar mikilvægu og óneitanlega dýru stofnanir geti hagað störfum sínum þannig að árangur verði að og þeir starfskraftar sem í heilbrigðiskerfinu eru, og líka þeir sem vinna þar verkefni framkvæmdarvaldsins, nýtist sem allra best.
    Þetta eru þau rök sem ég tel liggja til þess að það sé skynsamlegt að gera slíka áætlun, þ.e. þau rök sem varða fyrst og fremst verkefni Alþingis og framkvæmdarvaldsins. Hins vegar eru svo þau rök sem varða samstarf almennings og heilbrigðisþjónustunnar í landinu. En þau felast einmitt líka í mikilvægi þess að fólk viti það almennt hvað heilbrigðisyfirvöld telji skynsamlegast til verndar heilsu manna og þá í víðtækum skilningi, til verndar umhverfi, til þess að varast ýmiss konar heilsuleysi og óáran sem af því leiðir. Fólk þarf að vita hvaða ráð heilbrigðisþjónustan telur að best séu og byggð á hinni bestu þekkingu hverju sinni. Þetta er þeim mun nauðsynlegra sem menn hallast æ meir að því víða um lönd að ráðstafanir til verndar heilbrigði eigi sem mest að felast í því að fá þjóðfélagsborgarana til að gerast þátttakendur í þessu starfi, að verða æ betur meðvitandi um ábyrgð hvers og eins á þeirri mikilvægu auðlind sem góð heilsa er. Það gerist hins vegar ekki nema með því að saman sé safnað árangri af rannsóknum sem framkvæmdar eru víða um lönd og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur einmitt gerst farvegur fyrir.
    Ég held þess vegna að þessi tillaga sé í langflestum atriðum á þann veg að okkur beri að fagna því að þetta mál hefur verið undirbúið. Mér er það mikið gleðiefni að sjá að því starfi, sem hófst og var lagt fyrir Alþingi í minni ráðherratíð, hefur verið haldið áfram nákvæmlega með þeim hætti sem bæði við sem að því stóðum þá svo og Alþingi hefur ætlast til. Skýrsla sú um íslenska heilbrigðisáætlun, sem lögð var fram á síðari hluta þings 1986--1987, var í því formi að hún gæti orðið umræðugrundvöllur sem víðast um þjóðfélagið meðal þeirra sem fjalla um þá

þætti sem hér skipta máli. Sú varð einmitt raunin og því ber að fagna.
    Hins vegar dylst mér ekki að það kunna að vera einstök atriði, afar afmörkuð og skipta ekki meginmáli í þessu heildarplaggi, einstök atriði sem skipta ekki heldur meginmáli fyrir heilsuverndina í sjálfu sér heldur geta verið skiptar skoðanir um, eins og t.d. frá sjónarmiði rekstrarfyrirkomulags. Slíkt eru hlutir sem við gætum alltaf staðið andspænis. Nýjar kenningar koma öðru hvoru
upp um slíkt, en slík atriði mega ekki verða til þess að menn verði á nokkurn hátt til að tefja framgang málsins. Ég hygg að dugað geti að menn bendi á einstök efnisatriði og komi þeim þá til þeirrar nefndar sem um málið fjallar, en meginatriðið sé að hugmyndin sem hér er verði staðfest sem vilji Alþingis.
    Frú forseti. Ég ætlaði mér ekki að fara fram yfir tímatakmörkin. Áður en ég fer í sætið langar mig til að bæta þessu við: Ég vonast til þess að þau markmið, sem hér eru sett fram, fái að njóta sín, fái framgang þegar litið er til undirbúnings fjárlaga þessarar og væntanlegra ríkisstjórna.