Tæknifrjóvganir
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Flm. (Sigríður Lillý Baldursdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 157. Meðflm. mínir eru hv. þm. Lára V. Júlíusdóttir, Birgir Ísl. Gunnarsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Guðni Ágústsson, Ingi Björn Albertsson og Guðrún Helgadóttir.
    Till. er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að áður en glasafrjóvganir verða hafnar hér á landi verði lagt fyrir Alþingi lagafrumvarp um réttarstöðu og tryggingamál þeirra sem hlut eiga að máli, þegar tæknifrjóvgunum er beitt.``
    Á fjárlagafrv. fyrir 1990 er gert ráð fyrir 3,75 nýjum stöðum við Landspítalann vegna fyrirhugaðra glasafrjóvgana þar. Enn hefur ekki verið ákveðið, að því ég best veit, hvenær fyrstu meðferðirnar verða framkvæmdar þar, en ýmislegt bendir til þess að það verði strax næsta vor. Ég hef lagt fram fsp. til hæstv. heilbrrh. varðandi undirbúning þessarar meðferðar á Landspítalanum og vænti þess að fá svar við þeim í fyrirspurnatíma nk. fimmtudag.
    Á 108. löggjafarþingi var samþykkt þáltill. sem einnig bar númerið 157. Sú tillaga kvað á um skipan nefndar til að kanna réttaráhrif tæknifrjóvgunar og gera tillögu um hvernig réttarstaða aðila væri ákveðin. Nefndinni var ætlað að ljúka störfum fyrir upphaf 109. löggjafarþings, en nú, þremur árum síðar, hefur hún enn ekki skilað af sér. En ég veit að þar hefur farið fram mikið starf sem ætti að nýtast við lagasetningu þá sem þessi tillaga sem hér er til
umræðu kveður á um. Tveir af flm. fyrri tillögunnar, hv. þingkona Guðrún Helgadóttir og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson eru einnig flm. þessarar tillögu.
    Glasafrjóvganir eru þær tæknifrjóvganir nefndar þegar egg er frjóvgað utan legs. Þegar tæknifrjóvganir fara fram í legi hefur orðið tæknisæðing hins vegar stundum verið notað, en jafnframt tæknifrjóvganir. Ég hef valið þann kostinn að nota orðið tæknifrjóvgun þegar vísað er til beggja aðferðanna en gera greinarmun á frjóvgun í eða utan legs með orðnotkuninni glasafrjóvgun annars vegar og tæknisæðingu hins vegar.
    Það var árið 1979 sem fyrst var farið að framkvæma tæknisæðingu hér á landi, en fram til þess tíma höfðu íslenskar konur farið utan til meðferðar. Við tæknisæðingar er ýmist notað sæði eiginmanns eða sambýlismanns eða þá að fengið er sæði ókunns manns og til þessa hefur slíkt sæði verið fengið hingað frá Danmörku. Barn sem getið er með tæknisæðingu er því erfðafræðilegt afkvæmi þeirrar konu sem gengur með það og elur. En það þarf ekki að vera erfðafræðilegt afkvæmi þess sem samkvæmt íslenskum lögum er skráður faðir þess.
    Eins og ég gat um áðan stendur nú til að hefja glasafrjóvganir hér á landi, en það merkir auðvitað ekki að nú fyrst séu íslenskar konur að fara í slíka meðferð því að eins og ég vænti að kunnugt sé hafa þær farið utan til þessa nú um nokkurra ára skeið. Að jafnaði hafa 100 pör farið út árlega og gert er ráð

fyrir að árangur af meðferðinni sé um 10%. Þannig má búast við að nú þegar hafi fæðst á landinu nokkrir tugir glasabarna. Hve mörg þau eru er ekki nákvæmlega vitað, enda er enginn aðili í samfélaginu sem fylgist með og skráir slíkar upplýsingar.
    Þegar glasafrjóvgun er gerð er í langflestum tilfellum frjóvgað egg frá móður með sæði eiginmanns eða sambýlismanns. Barn sem verður til með þeim hætti er þá erfðafræðilegt afkvæmi parsins og lagaleg staða þess í engu frábrugðin lagalegri stöðu annarra barna. Við glasafrjóvgun er einnig hægt að nota sæði annars en eiginmanns eða sambýlismanns eins og þegar um tæknisæðingu er að ræða og þar að auki er mögulegt að nota egg annarrar konu. Þannig bætast tveir nýir möguleikar við með tilkomu glasafrjóvgana.
    Þá er einnig hægt að koma frjóvguðu eggi, svokölluðum fósturvísi, fyrir í líkama annarrar konu. Slíkur fósturvísir gæti verið af eggi og sæði parsins en þyrfti ekki að vera það. Sú kona sem gengur með fóstur annarra hefur ýmist verið kölluð leigumóðir eða staðgengilsmóðir eftir því hvort hún þiggur fyrir það fé eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að banna beri leigumæður. Það stríðir gegn siðferðisvitund minni að meðganga sé verslunarvara.
    Sú vinnuregla hefur verið viðhöfð til þessa hér á landi að tæknisæðing er einungis gerð á konum sem eru í hjónabandi eða sambúð sem jafna má til hjónabands og með skriflegu samþykki eiginmanns eða sambýlismanns. Sama er að segja um glasafrjóvganirnar, þær sem borgaðar hafa verið af Tryggingastofnun ríkisins.
    Íslenskum konum er ekki skylt að segja til um faðerni barna sinna. Því má spyrja hvort eðlilegt sé að heimta með þessum hætti feðrun þeirra barna sem verða til við tæknifrjóvganir.
    Samkvæmt íslenskum lögum er eiginmaður konu talinn faðir barns hennar nema það sé vefengt og annað sannað. Ekkert stendur í lögunum um mæðrun barns, enda hefur ekki verið talin ástæða til þess að setja slíkt í lög til þessa. Með tilkomu glasafrjóvgana þarf löggjafinn að taka á því máli. Faðerni barna hefur aldrei verið fulltryggt en nú er svo komið að móðerni þarf ekki heldur að vera
það.
    Í lögum um tæknifrjóvganir þarf að kveða skýrt á um skyldur og réttindi skráðra foreldra. Það má t.d. hugsa sér að þeim verði gert skylt að ættleiða ófætt barn þeirra strax við getnað til að koma í veg fyrir hugsanleg vefengingarmál þeirra síðar því slík mál gætu haft í för með sér veruleg sárindi og e.t.v. óbætanlegan skaða fyrir alla aðila, ekki síst barnið sjálft, enda um svo viðkvæman hlut sem upphaf lífs þess að ræða.
    Það eru engin lög til í landinu sem tryggja barni rétt til að fá að vita hverjir séu erfðafræðilegir foreldrar þess. Það að vita ekki raunveruleg deili á uppruna sínum getur haft í för með sér ýmsar ófyrirséðar afleiðingar fyrir barnið. T.d. kann ástæðan fyrir því að farið var fram á tæknifrjóvgun að vera sú að annað foreldra eða bæði eru haldin arfgengum

sjúkdóm sem parið vill forðast að viðhalda. Barnið gæti talið sig bera þennan sjúkdóm og forðast þess vegna barneignir síðar meir. Það má e.t.v. spyrja hvort ekki sé rétt að svipta leyndinni af tæknifrjóvgunum að einhverju marki, t.d. í tilfelli því sem ég lýsti hér.
    Ég hef fram til þessa dvalið við rétt barns til foreldra og réttindi og skyldur foreldra gagnvart barni. Lög um tæknifrjóvganir þurfa að vera afdráttarlaus hvað þetta varðar. En þau þurfa einnig að taka til eignarhalds á fósturvísum og þess hvort gera megi tilraunir á þeim.
    Þegar glasafrjóvganir eru gerðar eru yfirleitt frjóvguð fleiri egg en notuð eru hverju sinni. Við það verða til umframfósturvísar sem geyma má frosna og til notkunar síðar. Tilvist þessara fósturvísa og að það skuli vera hægt að geyma þá hlýtur að kalla á sterkar tilfinningar og blendnar hjá öllum þeim sem í alvöru leiða hugann að því og spurningarnar hrannast upp: Hver á fósturvísana? Hver á að eiga þá? Er eðlilegt að líf sem til er stofnað fái ekki að dafna fyrr en löngu síðar, jafnvel áratug síðar? Er hægt að koma í veg fyrir að óprúttnir vísindamenn taki sér fósturvísa og geri á þeim alls kyns tilraunir? Má búast við að foreldrar eða jafnvel samfélagið velji og hafni einstaklingum frekar en orðið er? Höfum við yfirleitt nokkurn rétt á að velja okkur afkvæmi? Og til hvers mundi slíkt geta leitt okkur?
    Sumir nefna í þessu sambandi að með því einu að leggja verulegt fé í tæknifrjóvganir á norðurhveli jarðar á sama tíma og konur í svokölluðum þróunarlöndum eru hvattar til að fara í ófrjósemisaðgerðir, þá séum við að velja. Einnig er bent á það val sem vitað er að fram fer í mörgum ríkjum Asíu og víðar þar sem stúlkufóstrum er frekar eytt en karlkyns fóstrum.
    Hver er kominn til með að segja hvaða eiginleikar séu eftirsóknarverðir og hverjir ekki í fari fólks? Og höfum við yfir höfuð nokkurn rétt til að setja okkur í slíkt dómarasæti?
    Það hefur sýnt sig að mannkynið hefur ætíð nýtt sér tæknilega möguleika sína út í ystu æsar. Ég er því þeirrar skoðunar að banna beri með lögum allar tilraunir með fósturvísa og tilraunir til eingetnaðar og leggja við broti á þeim þung viðurlög. Eignarhald á þeim fósturvísum sem ekki eru notaðir að bragði tel ég að eigi að vera foreldranna, enda hafi þeir skrifað undir samning sem jafngildi ættleiðingu. Vera má að setja megi einhver tímamörk á það hve lengi geyma megi fósturvísana og einnig hvað skuli gert við þá ef parið skilur eða annað eða bæði látast frá frosnum fósturvísum. Í þessu sambandi má nefna að nú er í gangi forræðismál vegna fósturvísa í Bandaríkjunum.
    Nokkuð mismunandi reglur gilda um tæknifrjóvganir og meðferð á fósturvísum í nálægum löndum. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa verið sett lög um tæknifrjóvgun, en í Danmörku hefur ekki verið talin þörf á löggjöf. Þar er hins vegar starfandi siðaráð sem tryggja á að þinginu, opinberum aðilum og almenningi séu ávallt veittar upplýsingar varðandi siðferðileg vandamál sem upp kunni að koma vegna

þróunar í læknisfræði og heilbrigðismálum. Þar eru þó bannaðar með lögum ákveðnar tilraunir í tengslum við tæknifrjóvgun.
    Í Noregi tóku gildi lög árið 1987 um tæknifrjóvganir og kom sú löggjöf af stað miklum deilum þar í landi, ekki síst það ákvæði að einungis giftar konur skuli eiga rétt á meðferðinni. Í Noregi má ekki nota frjóvguð egg til annars en að koma þeim fyrir á ný í legi konu og það má einungis geyma þau í eitt ár. Bannað er að gera rannsóknir á frjóvguðum eggjum.
    Í Bretlandi, þar sem fyrsta barnið fæddist eftir glasafrjóvgun árið 1978, eru nú starfandi fjölmargar stofnanir þar sem tæknifrjóvganir eru framkvæmdar. Í Bretlandi var skipuð nefnd árið 1982 til þess að vinna að stefnumótandi áliti um æxlunartæknina frá félagslegum, siðfræðilegum og lagalegum sjónarhól. Nefndin skilaði skýrslu 1984 og í kjölfar hennar hafa verið sett ýmis lög um þessi mál. Samkvæmt tillögum nefndarinnar voru heimilaðar rannsóknir á fósturvísum fyrstu 14 dagana eftir frjóvgun en sú samþykkt hefur verið mjög umdeild. Frysting frjóvgaðra eggja er heimil og koma má áður frosnum fósturvísi fyrir í líkama konu. Gefa má bæði frjóvguð og ófrjóvguð egg, hvort sem er vegna ófrjósemi eða vegna arfgengra sjúkdóma hinna væntanlegu foreldra. Í Bretlandi má geyma frosinn fósturvísi í allt að tíu ár og hafa íslenskar
konur sem fara þangað í glasafrjóvgun skrifað undir samning um að viðkomandi stofnun eigi frosna fósturvísa þeirra að tveimur árum liðnum hyggist þær ekki nota þá, annars er þeim fargað.
    Virðulegi forseti. Það er löngu tímabært að hér verði sett lög um tæknifrjóvganir og að mínu mati er ekki verjandi að fara af stað með glasafrjóvganir hérlendis án þess. Ég vænti þess að þingmenn standi saman um að svo megi verða með því að samþykkja þessa tillögu.
    Tæknifrjóvganir varða upphaf lífs og hljóta því að snerta siðferðiskennd okkar allra, enda hafa allt frá upphafi verið miklar umræður og heitar um þær, bæði hér á landi og erlendis.
    Öll tækni og vísindi fela í sér möguleikann á misnotkun og samfélagið er ekki alltaf í stakk búið til að bregðast við framvindu vísindanna sem kalla stundum á algjörlega nýja hugsun og skilja okkur eftir með gjörbreytta heimsmynd.
    Lengi vel setti tæknin okkur mörk sem nægðu, en hún gerir það ekki lengur og hefur raunar ekki gert það um nokkurt skeið. Dæmi þess eru mýmörg. Umhverfisspjöll, mengun, þurrð náttúruauðlinda, drápstól byggð af ótrúlegri og óhugnanlegri hugkvæmni, allt eru þetta afleiðingar vísindanna og útfærslu þeirra í tækninni.
    Tækniþróun innan læknavísindanna hefur í mörgum tilfellum gert okkur kleift að lifa bæði lengur og betur en annars hefði orðið. Hún hefur einnig orðið til þess að mörgum auðnast nú sú hamingja að eignast afkvæmi sem ekki hefðu orðið hennar aðnjótandi ella. Við verðum að tryggja að hamingja þessa fólks og

barna þeirra verði ekki síðri en þeirra sem eignast börn sín með náttúrlegum hætti. Við þurfum jafnframt að vera á verði gagnvart þeim hættum sem þessari tækni fylgja og bera gæfu til að koma í veg fyrir misnotkun hennar. Enn einu sinni stillir tæknin okkur upp við vegg og krefst þess að við setjum siðferðismörkin og undan því megum við ekki víkjast.
    Að umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og félmn.