Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 176 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Þetta er nál. vegna frv. um breytingar á lánsfjárlögum fyrir árið 1989. Ég les hér fyrst upp nál., en það er á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið til viðræðna Halldór Árnason, skrifstofustjóra í Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Ingimund Friðriksson, forstöðumann alþjóðadeildar Seðlabanka Íslands, Gunnar Hilmarsson, formann stjórnar Atvinnutryggingarsjóðs, Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar, og Helga Bergs, formann stjórnar hlutafjársjóðs Byggðastofnunar.
    Halldór Árnason sat alla þá fundi er málið var rætt. Helgi Bergs, Gunnar Hilmarsson og Guðmundur Malmquist komu á einn fund, skýrðu sjónarmið sín og lögðu áherslu á nauðsyn þess að frumvarpið hlyti skjóta afgreiðslu. Ingimundur Friðriksson lagði fram gögn um erlendar lántökur ríkissjóðs og opinberra sjóða. Eftir að ríkisstjórnin heimilaði Byggðastofnun að taka 350 millj. kr. erlent lán í samráði við Seðlabanka Íslands og fór þess á leit við nefndina að breyting yrði gerð á frumvarpinu í samræmi við þá heimild kallaði nefndin Guðmund Malmquist aftur á sinn fund. Lagði hann þunga áherslu á að umrædd breyting yrði samþykkt og afgreiðslu málsins hraðað.
    Í ljósi þessa leggur meiri hl. til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Þessi brtt. er á þskj. 177 og hún er þannig að í stað ,,1 milljarður`` í 2. gr. komi: 1 milljarður 350 millj. Eins og segir í nál. er þarna verið að auka erlendar lántökur fyrir Byggðastofnun en eins og einnig segir í nál. var reyndar samþykkt í ríkisstjórn að heimila Byggðastofnun að taka þessar 350 millj. að láni erlendis.
    Í nefndinni urðu töluverðar umræður um hverjir skuli taka þau lán sem lánsfjárlög heimila, hvort það eigi að vera ríkissjóður eða hvort einstakum stofnunum innan ríkissjóðs sem hafa ríkisábyrgð skuli vera heimilt að taka þau lán. Fjmrh. lýsti því yfir við 1. umr. þessa frv. að stefnt skuli að því í framtíðinni að allar lánveitingar færu í gegnum Seðlabanka og í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990 segir að Seðlabankinn þurfi að samþykkja allar erlendar lántökur einstakra stofnana á vegum ríkisins er hafa ríkisábyrgð.
    Þá var einnig rætt um stöðu þeirra sjóða sem lánsfjárlögin fyrir 1990 fjalla um, Atvinnutryggingarsjóðs og Byggðastofnunar. Í 1. gr. frv. er mælt fyrir um auknar heimildir til erlendrar lántöku vegna Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, en í c-lið er fjallað um að 900 millj. verði teknar að láni erlendis til að mæta fjárþörf sjóðsins. Í 1. gr. er talað um auknar lántökur innan lands til að mæta fyrirsjáanlegum fjárlagahalla þessa árs. Þegar fjárlagafrv. fyrir þetta ár var samþykkt var

gert ráð fyrir 636 millj. kr. tekjuafgangi, en fyrirsjáanlegt er að hallinn á þessu ári verði upp undir 5 milljarðar. Því þarf að fá auknar lánsheimildir í lánsfjárlög upp á um 6 milljarða. Það er að sjálfsögðu erfitt fyrir Alþingi að standa frammi fyrir gerðum hlut og sérstaklega þegar um fjárveitingar er að ræða, að Alþingi þurfi að standa frammi fyrir því að aðstæður hafa breyst þannig að það þurfi að samþykkja 6 milljarða kr. heimildir fyrir ríkissjóð til að taka að láni. En hér er þó stigið það skref að áður en árið er liðið er lögð fyrir Alþingi beiðni um að samþykkja þessi aukaútgjöld þannig að það hefur verið gert ýmislegt í því að leyfa Alþingi að fylgjast með. Í Sþ. hafa verið lögð fram fjáraukalög sem skýra þennan mismun, hverju hefur verið varið utan fjárlagaheimilda. Það er von mín og eflaust fleiri þm. að í framtíðinni verði gerð miklu betri grein fyrir þeim fjármunum sem ríkisstjórn ákveður á hverju ári þannig að Alþingi, sem á að fara með fjárveitingavaldið, hafi raunverulega það vald og geti ákveðið útgjöld fjárlaganna fyrir fram.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri að sinni en ég býst við því að minni hl. geri grein fyrir því hvað þeir hafa um þetta frv. að segja og ef ég sé ástæðu til þess að svara því, þá kem ég hérna upp aftur.