Veiting ríkisborgararéttar
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá allshn. um frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar. Eins og venja hefur verið fjölluðu formenn allsherjarnefnda í báðum deildum um þetta mál, fóru yfir það og síðan afgreiddi allshn. Ed. það frá sér samhljóða með þeirri brtt. sem fram er borin á þskj. 170.
    Þær breytingar sem gerðar hafa verið frá því sem er í 1. gr. frv. eins og það var lagt fram eru: Í fyrsta lagi að eitt nafn sem er nr. 6 í frv. er fellt út úr greininni. Stafar það af því að viðkomandi umsækjandi er nú farinn af landi brott og ekki vitað hvar hans dvalarstaður er þannig að það þótti sjálfgert að fella það niður. Og í öðru lagi að í stað þess hefur verið bætt inn nöfnum 21 nýs aðila sem umsóknir lágu fyrir um, þannig að nú er skv. brtt. gerð tillaga um að það séu 33 einstaklingar sem fái ríkisborgararétt. Þeir einstaklingar sem þarna er gerð tillaga um uppfylla þau skilyrði sem allsherjarnefndir hafa starfað eftir um allmörg ár í sambandi við veitingu ríkisborgararéttar.
    Af þessum lista sést að það er vaxandi fjöldi einstaklinga sem leitar eftir því að fá íslenskan ríkisborgararétt og uppfyllir þau skilyrði sem Alþingi hefur sett í því sambandi. Að sjálfsögðu bárust nefndinni fleiri umsóknir en talið var fært að verða við. En þar sem gert er ráð fyrir að lagt verði fram nýtt frv. síðar á þessu þingi munu umsóknir þeirra aðila verða teknar til nánari athugunar síðar í vetur. Einn umsækjandi óskaði eftir því að koma á fund eða hitta fulltrúa frá nefndinni til þess að skýra sitt mál og kom fram á nefndarfundum að vert væri að taka það til athugunar hvort sá háttur skyldi verða tekinn upp í ríkara mæli.
    Allshn. stendur öll að þessari brtt. og leggur til að frv. verði samþykkt svo breytt.