Greiðslujöfnun fasteignaveðlána
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir litlu frv. á þskj. 131 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, þ.e. breyting á lögum nr. 63 26. júní 1985.
    Þetta frv. er flutt að beiðni Hagstofu Íslands og í samráði við félmrh. og það er flutt af fjh.- og viðskn. deildarinnar.
    Í gildandi lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána einstaklinga, er í 6. gr. kveðið á um ,,launavísitölu til greiðslujöfnunar``. Þessi vísitala skal að jöfnu samsett úr vísitölu atvinnutekna á mann og vísitölu meðalkauptaxta allra launþega. Launavísitala til greiðslujöfnunar er metin mánaðarlega og nýtt til greiðslujöfnunar opinberra húsnæðislána en ekki í öðru skyni. Undanfarin tvö ár hefur ekki verið hægt að reikna þessa vísitölu í samræmi við fyrirmæli laganna þar sem mánaðarlegar áætlanir um vísitölu atvinnutekna og meðalkauptaxta hafa ekki verið tiltækar. Hagstofan hefur því reist vísitölu þessa á áætlunum um breytingar greiddra launa, einkum dagvinnulauna, að teknu tilliti til samningsbundinna breytinga annarra launaþátta.
    Á sl. vori voru sett almenn lög um launavísitölu, nr. 89/1989. Við umfjöllun málsins í fjárhags- og viðskiptanefndum Alþingis var á það bent af hálfu Hagstofunnar að eftir gildistöku nýrra laga um launavísitölu væri æskilegt að færa ákvæði um gerð launavísitölu til greiðslujöfnunar til samræmis við ný lög um launavísitölu. Hér kemur tvennt til. Annars vegar hefur eins og áður segir ekki verið unnt að fullnægja þeim fyrirmælum um útreikning launavísitölu til greiðslujöfnunar sem fram koma í núgildandi 6. gr. laga nr. 63/1985 og hins vegar er ekki heppilegt að beitt sé mörgum opinberum launavísitölum. Af þessum ástæðum er frv. þetta flutt.
    Frv. þarfnast ekki sérstakra skýringa, en um gerð hinnar nýju launavísitölu vísast til þeirra skýringa sem fram komu í frv. til laga þar að lútandi (þskj. 361 á 111. löggjafarþingi 1988--89).
    Forstjóri Hagstofu Íslands, Hallgrímur Snorrason, kom til fundar við fjh.- og viðskn. og gerði okkur nákvæma grein fyrir eðli málsins og nauðsyn þess að frv. yrði flutt og féllst nefndin einróma á að verða við tilmælum hans. Þetta frv. er einnig flutt í samráði við félmrh.