Jarðhitaréttindi
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um jarðhitaréttindi. Það er 86. mál þessa þings á þskj. 87. Flm. ásamt mér að þessu máli eru hv. þm. Geir Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir og Ragnar Arnalds.
    Þetta mál hefur komið fram áður á Alþingi en ekki orðið útrætt. Þar sem hér er um stórt og þýðingarmikið mál að ræða freistum við hv. flm. þess að leggja það hér fram aftur og væntum þess að á því verði nú tekið því að nauðsynin til þess að setja heildarlöggjöf um jarðhitaréttindi er enn brýn og hefur þýðing þess raunar vaxið.
    Meginákvæði þessa frv. koma fram í 1. og 6. gr. frv. þar sem kveðið er á um mörk eignarréttar á jarðhita. Í 1. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar í allt að 100 metra dýpi.
    Landeiganda er rétt að bora eftir og hagnýta sér jarðhita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina.``
    Í 6. gr. segir:
    ,,Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur dýpra en 100 metra undir yfirborði landareigna skv. 1. mgr. 1. gr.
    Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur utan landareigna skv. 1. mgr. 1. gr.``
    Í 11. gr. frv. er sérstakt ákvæði sem varðar sveitarfélög, en greinin er svohljóðandi:
    ,,Sveitarfélag, sem á land á jarðhitasvæði við gildistöku laga þessara, skal hafa forgangsrétt til jarðhitarannsóknarleyfis og jarðhitaleyfis skv. 9. og 10. gr. á landi sínu og vera undanþegið leyfisgjaldi.``
    Í 8. gr. er kveðið á um forgangsrétt þeirra sem nýta nú þegar jarðhitasvæði, gert ráð fyrir því að þeir hinir sömu hafi forgangsrétt til frekari borana og hagnýtingar jarðhitans á því jarðhitasvæði til sama fyrirtækis.
    Í III. kafla frv. eru ákvæði sem snerta sérstaklega meðferð jarðhitasvæða og náttúruvernd í því samhengi.
    Þetta má segja að séu meginefni þessa frv. og þau eru vissulega mjög ákvarðandi og það er mjög gild stefnumörkun sem í þeim felst. Í núgildandi löggjöf er helstu ákvæði um jarðhita að finna í 9. og 10. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, og í orkulögum, III., V. og VII. kafla. Í ákvæðum vatnalaga er á því byggt að hverir og laugar fylgi landareign þeirri sem hver eða laug er á en nokkrar takmarkanir eru á umráðaréttinum. Ákvæðin í orkulögum sem vitnað var til leystu af hólmi lög nr. 98/1940, um eignar- og notkunarrétt jarðhita, en í 1. gr. þeirra laga sagði að landareign hverri fylgdi réttur til umráða og hagnýtingar á hverum og laugum sem á henni eru, þó með takmörkunum þeim sem lög þessi tilgreina, eins og þar segir.
    Í grg. við I. kafla frv. er nánar rakið hvernig núgildandi ákvæði birtast varðandi jarðhitaréttindi.
    Það hafa, herra forseti, verið gerðar margar atrennur að því að setja heildarlöggjöf um

jarðhitaréttindi eða um ákveðin svið varðandi jarðhita, svo sem um háhitasvæði. Það er rakið á bls. 5--6 í grg. með frv. hverjar þessar meginatrennur eru. Sú saga nær ekki skemur en til ársins 1937 og að þessu máli hafa komið menn hverra nöfn Íslandssagan geymir og hafa látið mjög að sér kveða á liðinni tíð, m.a. hér á Alþingi. Þar á meðal var dr. Bjarni Benediktsson sem stóð að máli sem hann flutti á Alþingi árið 1945 og vitnað er til á bls. 6 í grg., en þetta mál varðaði eignar- og notkunarrétt jarðhita. Þar var lagt til að jarðboranir er ná dýpra en 10 metra megi ekki framkvæma án leyfis ráðherra sem skuli synja leyfis ef hætta kynni að vera á því að með jarðborunum væri spillt hagnýtingu jarðhita á eign annars manns en þegar er hafin eða hagnýtingu síðar meir.
    Í frv. var ekki ákvæði um bætur, enda segir m.a. í grg. með þessu frv. dr. Bjarna Benediktssonar: ,,Hér er aðeins um almenna takmörkun á eignarréttinum að ræða, sem löggjafarvaldinu er heimilt að setja, þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.`` Í þessu frv. dr. Bjarna var því lagt til að unnt væri að svipta landeiganda rétti til hagnýtingar jarðhita neðan 10 metra dýpis ef hætta kynni að vera á því að það spillti byrjaðri eða væntanlegri hagnýtingu jarðhita á landi annars manns. Dr. Bjarni Benediktsson taldi þetta almenna takmörkun eignarréttar sem heimil væri án bóta.
    Ég tel þýðingarmikið að draga fram viðhorf þessa stjórnmálamanns og fræðimanns á sviði löggjafar þegar rætt er um þetta mál hér.
    Dr. Ólafur Jóhannesson skrifaði ritgerð sem fylgdi stjfrv. til jarðhitalaga sem lagt var fram á Alþingi 1957 og það frv., sem hét frumvarp til laga um jarðhita, kvað á um rétt landeiganda til umráða og hagnýtingar jarðhita og um rétt ríkisins til umráða og hagnýtingar jarðhita. Þar voru sett fram ákvæði ekki ósvipað og kemur fram í þessu frv. M.a. var í 8. gr. þess frv. að finna svohljóðandi ákvæði, með leyfi forseta: ,,Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita, sem liggur dýpra eða sóttur er dýpra en 100 metra undir
yfirborð jarðar.`` Og í 9. gr. þess frv. var kveðið á um að engum væri heimilt að bora eftir jarðhita niður fyrir 100 metra dýpi né ráðstafa eða hagnýta jarðhita nema til kæmi sérstakt leyfi ráðherra.
    Í grg. með þessu frv. er vitnað til ritgerðar prófessors Ólafs Jóhannessonar. Niðurstöður hans voru þær að þrátt fyrir að réttur landeigenda til umráða og hagnýtingar jarðhita á landi sínu sé, að því er virðist, litlum skorðum bundinn að núgildandi lögum þá megi setja honum ýmis takmörk með nýrri löggjöf ef ástæða þykir til. Hann segir enn fremur að það sé sanngjörn regla og í samræmi við eðli máls að sérstök náttúruauðæfi, sem enginn einstakur hefur átt þátt í að skapa, séu sameign þjóðarinnar allrar.
    Það er ekki lítils virði að hafa álit þessara fræðimanna í lögum fyrirliggjandi þegar fjallað er um ákvæði af því tagi sem það frv. sem ég mæli hér fyrir hefur að geyma.

    Í IV. kafla grg. með frv. er fjallað sérstaklega um eignarréttarviðhorfin og með tilliti til ákvæða stjórnarskrárinnar. Niðurstaðan, eins og greint er frá í þessari grg., er sú að með ákvæðum frv. þessa sé einungis verið að setja eignarréttinum almenn takmörk. Ekki verði séð að stofnast hafi til eignarréttar að jarðhita djúpt í jörðu sem girði fyrir að almenni löggjafinn geti mælt fyrir um umráða- og hagnýtingarrétt til handa ríkinu á jarðhita sem ekki hefur verið virkjaður og er neðan 100 metra dýpis í landi sem er háð einkaeignarrétti. Í niðurlagi grg. segir um þetta frekar:
    ,,Um rétt ríkisins til að setja reglur um meðferð jarðhita utan einkaeignarlanda og neðan við 100 metra dýpi undir einkaeignarlöndum má vísa til dóms Hæstaréttar 19. febr. 1981, um eignarrétt að botni Mývatns utan netlaga, og dóms Hæstaréttar 28. des. 1981, um eignarrétt að Landmannaafrétti. Í báðum tilvikum var einkaeignarréttarkröfum landeigenda hafnað, en kveðið á um rétt handhafa ríkisvaldsins til að setja reglur um yfirráð, meðferð og nýtingu náttúruauðæfa þessara.``
    Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi máls míns er veruleg nauðsyn á að marka almenna stefnu um umráða- og nýtingarrétt jarðhita í landinu. Jarðhitinn er ein af auðlindum þjóðarinnar. Jarðhiti djúpt í jörðu er eðlilegt að talinn verði almannaeign, sameign þjóðarinnar. Það eru auðæfi sem engir einstaklingar hafa átt þátt í að skapa. Vöntun á almennum ákvæðum um þessa auðlind standa nú þegar og hafa um skeið staðið í vegi fyrir eðlilegum rannsóknum á þessari auðlind. Það er alveg ljóst að rannsóknir geta leitt til verulegra krafna varðandi verðmæti lands, varðandi bætur fyrir land og það er mjög brýnt að löggjafinn taki loks á þessu máli og setji um það leiðbeinandi reglur, almennar reglur eins og hér er gert ráð fyrir samkvæmt frv.
    Þetta frv. mótast af því viðhorfi, sem við alþýðubandalagsmenn og margir fleiri höfum mælt fyrir, að auðlindir þjóðarinnar eigi að líta á sem sameign og það hefur hlotið stuðning manna í öðrum stjórnmálaflokkum óháð því hvar þeir flokkast í hinu pólitíska litrófi eins og fram hefur komið í mínu máli.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegur forseti, að fara fleiri orðum um mál þetta nú á þessu stigi við þessa umræðu nema tilefni gefist til hér síðar við umræðuna, en mæli með því að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn. deildarinnar.