Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins er 140. mál þessarar deildar á þskj. 144. Flm. að þessu frv. eru auk mín hv. þm. Geir Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir og Ragnar Arnalds.
    Frv. þetta kveður á um skv. 1. gr. að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á og í hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki.
    Auðlindir samkvæmt lögum þessum taka til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda á og í hafsbotninum.
    Í öðrum greinum þessa frv. er kveðið á um hvaða takmörk eru sett við leit að efnum til hagnýtingar og gert ráð fyrir að til þess þurfi skriflegt leyfi iðnrh. og einnig að sami ráðherra, þ.e. iðnaðarmála, veiti heimildir til að taka eða nýta efni af hafsbotni. Leyfi af þessu tagi er gert ráð fyrir að sé bundið við ákveðin svæði. Þá er kveðið á um heimild til að sett verði nánari reglugerð um ákvæði og framkvæmd laganna, svo og um brot við lögunum.
    Í bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir því að þeir sem við gildistöku laganna taka efni af eða úr hafsbotni skuli innan sex mánaða sækja um leyfi samkvæmt ákvæðum 4. gr. frv.
    Þetta frv. hefur áður verið flutt hér á Alþingi. Upphaflega kom það fram sem stjfrv. 1982, en það var undirbúið af nefnd sem starfaði á vegum iðnrn. á því ári. Sama nefnd hafði á hendi skipulagningu og ráðgjöf um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir og starfaði um nokkurra ára bil á vegum iðnrn. Meðal þeirra sem komu að undirbúningi þessa máls var Benedikt Sigurjónsson, fyrrv. hæstaréttardómari. Þetta mál var lagt fram á Alþingi í stjórnartíð dr. Gunnars Thoroddsens. Meðal þeirra sem sátu í þeirri ríkisstjórn var prófessor Ólafur Jóhannesson, þá utanrrh., og hann mælti sérstaklega með því að frv. af þessu tagi yrði flutt og hlyti samþykki. Málið fékk nokkra meðferð hér á Alþingi í ársbyrjun 1983, en starfstími þess þings var knappur þar eð þing var rofið fyrr en venja er til og var þá lagt til af þingnefnd og samþykkt að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, eins og þar sagði ,,til skjótrar en ítarlegrar athugunar hæfustu sérfræðinga``.
    Nefndin lagði áherslu á að skynsamleg skipan þessara mála yrði fundin sem skjótast og málið lagt fyrir næsta þing, eins og sagði í áliti nefndarinnar.
    Það hefur hins vegar ekki verið nein teljandi hreyfing á þessu máli síðan á vegum ríkisstjórna og því kemur þetta frv. nú enn fram hér sem þmfrv.
    Hæstv. núv. iðnrh. hefur greint mér frá að hann hefði áhuga á þessu máli en sérstakur undirbúningur hafi ekki farið fram vegna þess á vegum ríkisstjórnarinnar og því gerir hann ekki athugasemdir við að málið sé hér fram lagt á Alþingi. Við skulum vænta þess að þær undirtektir af hálfu ráðherra verði til þess að greiða götu málsins hér í þinginu.
    Í grg. með frv. er frá því greint m.a. að þótt settar hafi verið lagareglur um fullveldisrétt Íslands yfir

hafsbotninum skorti reglur um eignarrétt og nýtingarrétt að auðlindum sem þar kunna að finnast, a.m.k. á svæðum utan netlaga.
    Í grg. er einnig gefið yfirlit um helstu rannsóknir sem fram hafa farið á hafsbotninum umhverfis Ísland en þær rannsóknir eru vissulega skammt á veg komnar. Lítið er um það að hagnýt efni hafi verið numin af hafsbotni. Það eru þá helst möl og sandur sem byggingarefni, en nokkuð hefur verið rannsakað um útbreiðslu slíkra efna og vissulega má einnig nefna nám á skeljasandi sem tekinn hefur verið fyrir Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi um langt árabil og er auðvitað verðmætt og þegar hagnýtt jarðefni.
    Í grg. með frv. er yfirlit um rannsóknir sem tengjast setlögum á hafsvæðum umhverfis Ísland með tilliti til hugsanlegra kolvetna sem þar gætu fundist. Þær rannsóknir hafa staðið yfir fyrst og fremst frá árinu 1978 að telja þegar fyrstu bergmálsdýptarmælingar voru gerðar. Verulegu mælingarnar voru gerðar á svæðum fyrir norðan land og rannsóknir hafa einmitt beinst að svæðunum úti fyrir Norðurlandi og norðaustur af landinu sérstaklega.
    Í Flatey á Skjálfanda var sumarið 1982 boruð sérstök kjarnahola til rannsókna á setlögum sem er að finna úti fyrir Mið-Norðurlandi og frekari rannsóknir hafa farið fram á þessu setlagasvæði og hafa þær gefið betri mynd af því, þykkt setlaga og jarðlagagerð.
    Þá er í grg. og í fylgiskjölum með frv. gefið yfirlit yfir rannsóknir sem fram hafa farið samkvæmt ákvæðum samkomulagsins um Jan Mayen svæðið, en samningur um það var gerður milli Íslands og Noregs 22. okt. 1981 og gekk í gildi ári síðar.
    Einnig hafa farið fram rannsóknir á svæðum sem ekki eru ótvírætt undir yfirráðum Íslendinga enn sem komið er, hinu svonefnda Hatton-Rockall svæði þar sem Danir og Íslendingar hafa staðið sameiginlega að rannsóknum á setlögum. Ekki hafa komið neinar ótvíræðar niðurstöður úr þessum rannsóknum, en þó má
benda á að niðurstöður rannsóknanna á Jan Mayen svæðinu hafi veitt vísbendingar sem tákna að nokkrar líkur eru taldar á olíumyndun á því svæði.
    Eins og hér hefur verið greint er lítið vitað um auðlindir á hafsbotninum við Ísland. Ekki er útilokað að þar kunni að finnast verðmæt efni sem unnt væri að hagnýta. Það er því brýn nauðsyn að setja sem fyrst lagareglur um það hvernig háttað skuli eignarrétti að þessum auðlindum og nýtingu þeirra. Það er engum vafa undirorpið að mati flutningsmanna að ríkið sem slíkt er eigandi að auðlindum þeim er á hafsbotni kunna að finnast og ræður yfir nýtingu þeirra. Það er í samræmi við viðurkenndar skoðanir einnig í nágrannalöndum okkar.
    Hér hefur verið valinn sá kostur með frv. þessu að setja almenn lög um þetta efni þar sem ákveðnar eru meginlínur í stefnu þeirri sem tekin er. Um einstök svið hagnýtra rannsókna og vinnslu mætti síðar setja ákvæði í lögum eða með reglugerðum eftir því sem þurfa þykir, m.a. um umhverfisvernd. Í því sambandi legg ég sérstaka áherslu á það að ef til hagnýtingar

kæmi, ef nýtanlegar auðlindir fyndust, t.d. olíulindir, þarf auðvitað að fara fram mjög ákveðið og strangt mat á kröfum sem gerðar yrðu varðandi hugsanlega hagnýtingu slíkra efna á íslenskum hafsvæðum.
    Við samningu frv. hefur m.a. verið höfð hliðsjón af fyrirkomulagi og löggjöf sem Norðmenn hafa sett í þessum efnum, en eins og kunnugt er þá er mikið um hagnýtingu jarðefna á norskum hafsvæðum, á hafsbotni undir norskum hafsvæðum, ekki síst olíunám.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um frv. í framsögu við 1. umr. en vísa til grg. með frv. og 11 fylgiskjala sem prentuð eru með því og snerta mál þetta. Ég legg til að að lokinni umræðu um frv. verði því vísað til hv. iðnn. þessarar deildar.