Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta mál í 1. umr. Það er þá fyrst að hér er um að ræða frv. sem útfærir nánar þær breytingar sem fram komu í frv. og síðar lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég vil taka undir með hæstv. menntmrh. þegar hann segir að þar liggi enn margir lausir endar og jafnvel hnútar sem erfiðlega kunni að takast að leysa í framtíðinni. Þar er kannski ekki síst um að kenna þeirri hraðferð sem var á því máli, jafnvel þótt það kæmi tvisvar fyrir þingið, og vissum skorti á samráði við marga hagsmunaaðila. Í því samhengi vil ég vísa til þess erindis sem hæstv. forseti deildarinnar las upp áðan. Það er erindi frá læknum sem ekki voru umsagnaraðilar um sinn hlut í því máli og --- ég veit ekki hve mikill fjöldi --- virðast vera ósammála þeim áhrifum sem þessi breyting kann að hafa á skipulag heilbrigðisstjórnar. Það kann að vera umdeilanlegt hverjir hafa rétt fyrir sér í því máli en það er mjög nauðsynlegt, og ég legg ríka áherslu á það einmitt í umfjöllun þessa máls, að það verði haft sem víðtækast samráð við sem flesta aðila þannig að þær sættir sem nást um þetta mál hér í þinginu og við umfjöllun þess verði til þess að málið verði farsællega til lykta leitt.
    Síðan eru aðrar breytingar sem koma hér inn sem ekki varða beinlínis verkaskiptafrumvarpið eða lögin. Vissulega eru sumar þeirra til bóta, um það verður ekki deilt. Aðrar er erfitt að sjá fyrir hvernig muni reynast í framkvæmd. Það fylgdi máli hæstv. ráðherra að hraða þyrfti þessu máli sem mest vegna gildistöku verkaskiptingarfrumvarpsins og breytinga sem þurfa að verða um áramót. Ég legg aftur mikla áherslu á að vinnubrögð verði vönduð og það verði leitað samráðs sem flestra aðila þannig að þeir geti fengið að tjá sig um málið. Það er kannski helst að einhverjar af þeim stjórnunarlegu breytingum sem hér eru lagðar til innan heilbrigðiskerfisins muni orka tvímælis. Það er vissulega mikilvægt að samræma stjórnunarlega ábyrgð og fella hana sem mest
að fjárhagslegri ábyrgð. Ég held að það sé einmitt mikilvægt að gæta vel að valddreifingarsjónarmiðinu þannig að aðilar í heimabyggð fái ákvarðanatökurétt jafnvel þó að þeir geti ekki ævinlega borið fulla fjárhagslega ábyrgð. Við skulum ekki gleyma því að það var ákveðinn þrýstingur frá sveitarfélögunum í hinum dreifðu byggðum landsins um að ríkið tæki á sig fjárhagslega ábyrgð t.d. af rekstri heilsugæslu vegna þess að mörg sveitarfélögin hafa ekki bolmagn til þess. Það kom beiðni fyrst og fremst frá þeim. Það er kannski eðlilegt að ríkið vilji hafa stjórnunarlega ábyrgð, eða a.m.k. íhlutun, ef það á að veita fjárhagslegan stuðning. Ég held að það verði að gæta mjög vel að valddreifingarsjónarmiðinu og beini orðum mínum þá til hæstv. ráðherra. Ég sé að það er ákveðin viðleitni í frv. til að gæta að þessu sjónarmiði. Ég held að það verði að hlusta mjög vel á alla málsaðila í þessu máli til þess að gæta vel að valddreifingarsjónarmiðinu, bæði til þess að virkja fólk og til þess að ná farsælum sáttum um málið.

    Varðandi skipulagningu á heilsugæslu í Reykjavík, þá er það mál sem hefur komið hér inn reglubundið fyrir hver áramót, framlenging á frestun þessa þáttar laganna vegna þess að ekki hefur tekist að skipuleggja þau mál sem skyldi. Ég fagna því ef þau mál munu nú komast í skipulegra og betra horf en áður var. Ég sé þó að þar er um frestun að ræða til ársins 1991, í lengsta lagi. En kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið og vænti ég þess að þessi breyting verði nú sem fyrst.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um málið nú í þessari umræðu, ekki síst vegna þess að mjög naumur tími hefur gefist til þess að kynna sér það og einmitt til þess að kynna sér hvernig eða hver áhrif útfærslu þessara breytinga á stjórnsýslu innan heilbrigðiskerfisins muni verða. Ég veit um tillögur borgarlæknis, sem er ekki allsendis sáttur við allar þær hugmyndir sem hér koma fram. Ég sé líka að í greinargerðinni er ekki talað um að leggja niður borgarlæknisembættið heldur að breyta inntaki þess og skilgreiningu. Ég held að það sé mjög mikilvægt, án þess að málið verði tafið, að leitast við að gæta sem flestra sjónarmiða þegar breytingar verða gerðar á þessu frv. í umfjöllun þingsins. En ég fagna því að það skuli hér komið fram og það er auðvitað nauðsynlegt að útfæra þær breytingar nánar sem komu fram og voru samþykktar í frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.