Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Það er eðlilegt að lögin um verkaskiptingu sveitarfélaga komi inn í þessa umræðu og framkvæmd þeirra. En ég er svolítið hissa á því þegar hv. þm., sem stóðu kannski hvað ákveðnast að þeim breytingum og stóðu að því að þau mál fóru hér að sumu leyti hraðbyri í gegnum þingið, fara nú að tala um að það séu ýmsir annmarkar á þeim sem þurfi að skoða. (Gripið fram í). Ég er, virðulegi ráðherra, fyrst og fremst að tala um hv. 6. þm. Reykv., reyndar gæti ég nú að vissu leyti snúið þessum orðum líka til flokksins míns en ekki sérstaklega að hæstv. menntmrh. Það var talað um að þessum málum þyrftum við að koma í kring til þess að koma á valddreifingu. Aftur og aftur var það talið nauðsynlegt. Og ákveðnar yfirlýsingar frá hv. þm., jafnt þess flokks sem þessi hv. þm. tilheyrði, þ.e. Kvennalistanum, og öðrum, um að það væri nauðsynlegt að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að auka valddreifingu á þessu eða hinu svæðinu og sviðunum. En ég man aldrei eftir því í umræðum hér að rætt væri um að það væri verið að þrengja þessa sjálfsögðu ákvarðanatöku hinna ýmsu þegna í þjóðfélaginu þegar var verið að færa heilu þættina yfir á ríkið, né að talað væri mikið um að það þyrfti einhverja sérstaka skipulagningu þegar að því kæmi að framkvæma þetta. Hér var hver yfirlýsingin á fætur annarri um að ágæti þessara laga byggðist fyrst og fremst á því að verið væri að færa sveitarstjórnunum meira vald og það væri hin ágætasta valddreifing. Hver á fætur öðrum lýstu þm. því yfir, jafnt frá Kvennalista sem öðrum flokkum ( KP: Það voru ekki allir.) ekki allir þm., nei, nei, ekki allir þm., að hér væri um hina ágætustu valddreifingu að ræða og hv. þm. treystu sveitarstjórnum sérstaklega vel til hinna breytilegustu hluta o.s.frv. Náttúrlega vildi enginn tala um að hann treysti þeim ekki, meira að segja ekki sá sem hér stendur og er lengi búinn að sitja í sveitarstjórn.
    En það var nú kannski ekki aðallega þetta sem ég ætlaði að nefna, en ég ætla að nokkru leyti að taka undir það sem hv. þm. Karvel Pálmason, 3. þm. Vestf., nefndi hér í upphafi umræðunnar, þ.e. í sambandi við 3. gr. Ég er ekki að gagnrýna að hlutverk héraðslækna í Reykjavík, Reykjanesi og Norðurl. e. sé styrkt með því sem mér virðist koma fram í 3. gr. heldur mundi ég vilja benda á að ég tel nauðsynlegt að um leið og þessi embætti eru styrkt með því að reiknað er með því að þetta verði eingöngu embættislæknar, þá verði einnig svo í hinum héruðunum. Það verði ekki eingöngu ætlast til þess að það verði sama regla og áður var, að það verði starfandi heilsugæslulæknar sem sinni héraðslæknisstarfinu, heldur verði það að einhverjum hluta, kannski ekki að öllu leyti, embættislæknar. Okkur Vestlendingum sem Vestfirðingum er nauðsynlegt að styrkja þessa starfsemi í okkar heimabyggðum og ég held að það sé einmitt þörf á því þegar ríkið tekur að sér mum meiri stjórnun og

ábyrgð á þessum sviðum en áður var. Með því að láta héraðslæknisembættin í hinum héruðunum, þ.e. öðrum héruðum en Reykjanesi, Reykjavík og Norðurl. e., sitja eftir á þann hátt að einhver og einhver heilsugæslulæknir sinni þessu starfi án þess að styrkja það að einhverju leyti, þá er verið að ganga nokkuð aftur á bak miðað við hina væntanlegu stöðu áðurnefndra héraða.