Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð vegna ummæla í umræðunni hér áðan. Ég heyrði að alþýðubandalagsþingmaðurinn Skúli Alexandersson hafði ekki bara næmt minni heldur auga og eyra fyrir valddreifingu. Ég vildi samt aðeins hrista svolítið upp í minni hans vegna þess að hann mundi ekki alveg rétt.
    Það var vissulega rétt hjá honum munað að sá meginkostur sem kvennalistakonur sáu við frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var sá þátturinn sem snéri að því að dreifa valdi til sveitarfélaganna þar sem um slíkt var að ræða. Ég vil líka minna hv. þm. á að það var gífurlega mikill þrýstingur, einmitt frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, um að þetta frv. yrði samþykkt. Ekki síst vegna þess að sveitarfélögin fengju meiri rétt til þess að ráða sínum eigin málum. Það var a.m.k. ein af ástæðunum sem Samband ísl. sveitarfélaga gaf fyrir miklum áhuga sínum á að málið yrði samþykkt hér á þingi. Hins vegar voru margir þættir í þessu frv. sem kvennalistakonur höfðu fyrirvara um, gerðu jafnvel brtt. um og voru ekki sáttar við og það varðaði sérstaklega skólamál og heilbrigðismál ef hv. þm. man rétt. Og ég hygg að við höfum einmitt beitt okkur saman að því að knýja fram breytingar í þeim málum þegar málið var til umræðu hér í deildinni.
    Hins vegar er hér um að ræða þann þátt þessa frv. þar sem ekki er verið að flytja vald til sveitarfélaga heldur frá þeim og líka fjárhagslega ábyrgð, ekki síst vegna þrýstings frá sveitarfélögunum. Í ræðu minni hér áðan tók ég skýrt fram að einmitt þess vegna, vegna þess að það væri verið að flytja þarna verkefni frá sveitarfélögunum til ríkisins, þá bæri að gæta að valddreifingarsjónarmiðum þannig að þátttaka og virkni sveitarfélaganna væri sem mest þrátt fyrir aukna fjárhagslega ábyrgð ríkisins. Ég rakti einmitt ástæðurnar fyrir því hvers vegna ég héldi að það væri mikilvægt. Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram hér í umræðunni til þess að enginn væri í vafa um hvers konar valddreifingu Kvennalistinn aðhylltist og sæktist eftir.
    Vegna athugasemdar sem kom fram í máli hv. 6. þm. Reykn. um 18. gr. í þessu frv., varðandi það að laun starfsliðs heilsugæslustöðva fari eftir kjarasamningum við opinbera starfsmenn og hún minntist einmitt á afköst heimilislækna og vinnulag, þá vildi ég vara mjög eindregið við því að heimilislæknum eða heilsugæslulæknum verði fyrst og fremst greitt fyrir --- ja, hvað eigum við að segja, fyrir hvern sjúkling. Ég átti þess kost nýlega í Bretlandi að hlusta á umræður um þessi mál sem fara fram þar nú (Gripið fram í.), já, þar sem verið er að koma á breytingum á heilsugæslustöðvum og heimilislæknastarfsemi í Bretlandi þannig að læknum sé fyrst og fremst greitt pr. sjúkling. Heimilislæknafélagið breska mótmælir þessu ákaft vegna þess að það telur að þetta muni leiða til mun styttri samskipta læknis og sjúklings þar sem læknar

kunni að miða við afköst til að geta fengið lífvænleg laun, og ég vil taka það fram að heimilislæknar eru ekki endilega mjög vel launaðir í Bretlandi miðað við aðra lækna og jafnvel miðað við aðra í því þjóðfélagi. Áður hefur það verið svo að læknar réðu því hve langan tíma þeir veittu hverjum sjúklingi og laun þeirra ekki háð því. Þeir telja sem sé að þetta geti leitt til þess að þjónusta við sjúklinga geti farið versnandi. Tilhneigingin geti orðið sú að afgreiða hvern mann á sem stystum tíma. Ég held að mörgum neytandanum, mörgum sjúklingnum þyki hann nú þegar afgreiddur með of miklu hraði og hann fái ekki nægilegan tíma til að skýra sín mál og ræða við sinn lækni um það sem honum liggur á hjarta og hver vandi hans er. Það þurfi því frekar að gefa aukinn tíma til samskipta en reyna að stytta hann vegna launalegs hvata.