Skráning og meðferð persónuupplýsinga
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þessi lög sem hér eru til umræðu eru að sjálfsögðu mjög þörf. Mér sýnist einnig að þær breytingar sem hafa verið gerðar í Ed. séu til bóta og í heild sé þetta frv. nokkuð gott. Hins vegar vil ég í fyrsta lagi efast um það sem hæstv. dómsmrh. hafði hér framsögu um, að tölvunefnd eigi að fá vald til þess að úrskurða sjálf um heimild til húsleitar. Ég hefði talið eðlilegt að það væri dómstóll sem skæri úr um það því að það þarf ekki nema 24 tíma til þess að slíkur úrskurður liggi fyrir og hefði talið það nær okkar réttarkerfi.
    Í öðru lagi finnst mér vanta hér upplýsingar um það hver kostnaður við framkvæmd þessara laga muni verða og þá sérstaklega með tilliti til þess að tölvunefnd er ætlað allstórt hlutverk. Það liggur hvergi fyrir hvað áætla mætti í kostnað við framkvæmd þessara laga. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það frá hæstv. dómsmrh.
    Í þriðja lagi eru það ákvæðin um markaðs- og skoðanakannanir. Það hefði óneitanlega verið æskilegt að settur hefði verið inn kafli í frv. um með hvaða hætti markaðs- og skoðanakannanir yrðu framkvæmdar. Ég vil koma því hér á framfæri og vildi óska eftir því að hv. nefnd sem tekur frv. til umræðu athugi það betur hvort ekki væri rétt að skjóta hér inn í reglum um það hvernig skoðanakannanir eigi að fara fram, þannig að það væri þá í þessum lögum, sem væri mjög tímabært að væru settar um miklu nánari og strangari reglur. Að öðru leyti tel ég þetta frv. til mikilla bóta.