Skráning og meðferð persónuupplýsinga
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir hans innlegg í málið og þá heildarafstöðu sem hann hafði til þessa máls. Það er vafalaust svo að menn greinir á um þetta atriði sem hann nefndi fyrst í máli sínu, um það að leiða hér í lög að tölvunefnd hefði heimild til húsleitar án sérstaks dómsúrskurðar, en hér greinir okkur greinilega á, þá sem þetta frv. flytja og hv. 11. þm. Reykn.
    Um kostnað við starfsemi tölvunefndar og þann kostnað sem hugsanlega yrði frekar í framtíðinni hef ég að vísu og vitaskuld ekki neinar upplýsingar hér, en það ætti að vera nokkuð auðvelt verk að veita hv. allshn. upplýsingar í því efni sem fyrir liggur og ég skal beita mér fyrir því að þær verði veittar.
    Um þriðja atriðið, varðandi skoðanakannanirnar, vildi ég aðeins segja það og leggja á það áherslu að sú grein frv., sem hér er til umfjöllunar, um skoðanakannanir, tekur eingöngu til þeirra skoðanakannana sem eru um það efni sem frv. að öðru leyti fjallar um.