Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Herra forseti. Það er vissulega ánægjulegt þegar umræður verða í þessari hv. deild með þeim hætti sem hér hafa orðið og ég vil þakka hv. 10. þm. Reykv. Guðmundi G. Þórarinssyni fyrir efnislega umfjöllun hans um þau frv. sem við sjálfstæðismenn í Nd. höfum leyft okkur að flytja. Ég verð að segja að það eykur á vonir okkar um að það sé að vakna skilningur í stjórnarherbúðunum fyrir því að eitthvað þurfi að gera mjög fljótt til þess að aðstoða fyrirtækin í landinu við að byggja upp eigið fé. Ég fagna því sérstaklega að nokkrir hv. þm. Framsfl. skuli hafa komist að þessari niðurstöðu og vænti þess að þeir, ekki síst undir forustu hv. 10. þm. Reykv., muni aðstoða okkur sjálfstæðismennina í hv. nefnd við að ná fram niðurstöðu í þessum málum sem geri það að verkum að fyrirtækin búi við betri skilyrði, einkum og sér í lagi er varðar skattlagningu eins og t.d. eignarskatta og eins uppbyggingu eigin fjár.
    Satt að segja, virðulegur forseti, átti ég von á því að hæstv. fjmrh. mundi taka hér til máls og auðvitað kemur hann til með að gera það síðar, annaðhvort í umræðu um þetta mál eða næsta mál sem hér er á dagskrá því það væri vissulega fengur að því að fá að heyra álit hæstv. ráðherra, ekki síst eftir að einn af þingmönnum Framsfl., hv. 10. þm. Reykv., hefur tekið jafnjákvætt undir efnisatriði frv. og við urðum vitni að hér áðan.
    Mig langar til að fara örfáum orðum um þær efnislegu athugasemdir sem hv. 10. þm. Reykv. gerði við frv. og vonast ég til þess, virðulegur forseti, að mér leyfist að ræða þau hér bæði samtímis og ætti það að spara umræður um síðara málið sem hangir við það sem nú er til umræðu.
    Ég vil byrja á því vegna orða hv. þm. um lækkun stimpilgjalda að lýsa því yfir enn einu sinni að Sjálfstfl. styður frv. hv. 10. þm. Reykv. og fleiri þingmanna Framsfl., gerði það reyndar líka á síðasta þingi, og mér sýnist vera mjög víðtækur stuðningur við það frv. Nú er það til skoðunar hjá þingflokkum hæstv. ríkisstjórnar og vænti ég þess að sú skoðun leiði til þess að stimpilgjöld af hlutabréfum verði lækkuð, að hlutfallið breytist úr 2% í 0,5% og tel að það mál geti gengið fram nú fyrir jól.
    Varðandi lífeyrissjóðina sem hv. þm. nefndi og vitnaði þar til skýrslu Enskilda Securities vil ég taka það fram að í framsöguræðu minni ræddi ég þetta mál sérstaklega og benti á að það liggur í ráðuneytinu frv. til breytinga á lögum um lífeyrissjóði sem gerir ráð fyrir því að heimila lífeyrissjóðum að kaupa hlutabréf að því er ég best veit í samræmi við þær hugmyndir sem koma fram í skýrslu Enskilda Securities en það er 5% af árlegu greiðsluflæði sjóðanna. Þetta hefur auðvitað gífurlega þýðingu og til þess að minna á hve mikið fjármagn þar er um að ræða þarf ekki annað en bera saman það fjármagn sem nú fer til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, en þar eru kaup lífeyrissjóðanna um það bil 55% af greiðsluflæðinu á ári hverju ef sjóðirnir

vilja að þeirra félagsmenn fái réttindi til lána úr byggingarsjóðunum.
    Sumir lífeyrissjóðir hafa reyndar heimild til þess að kaupa hlutabréf og bendi ég þá á Lífeyrissjóð verslunarmanna sem hefur verið ötull við það að byggja upp fyrirtæki og hefur það komið að gagni. Þetta hlýtur hins vegar að vekja aðeins þær hugmyndir sem menn hafa um hlutabréf og hlutabréfakaup því að það er stundum svo þegar rætt er um hlutabréf og hlutabréfakaup að menn álíta, ekki síst menn í rekstri, að þannig sé hægt að ná í ódýrara fjármagn heldur en ef um lánsfjármagn er að ræða. Þetta er stórhættulegur hugsunarháttur því að auðvitað verður áhættufjármagn eins og hlutaféð er að gefa a.m.k. sömu ávöxtun ef ekki betri heldur en ef um lánsfé væri að ræða. Kostur hlutabréfanna er hins vegar sá að hlutaféð er kyrrt í félaginu. Félagið þarf ekki að greiða til baka stofninn þótt hlutabréfin gangi kaupum og sölum og þess vegna er mikill munur á hlutabréfum annars vegar og viðskiptabréfum eins og lánaskuldbindingum hins vegar þar sem fyrirtæki þurfa að borga, auk vaxta sem eru samsvarandi og arður, stofninn upp á tilteknum tíma.
    Þess vegna verðum við að átta okkur á því að eitt af aðalskilyrðum þess að hægt sé að byggja upp eigið fé fyrirtækja með þeim hætti að almenningur og lífeyrissjóðir og aðrir aðilar telji þetta vera heppilegt sparnaðarform sem auðvitað er undirstaðan, þá gerist það ekki nema rekstrarskilyrði séu fyrir hendi. Einn mikilvægasti þáttur í að útbúa rekstrarskilyrði er að stjórnarstefna viðkomandi ríkisstjórnar sé með þeim hætti að fyrirtæki fái almennt að græða í landinu, fái að skila hagnaði og það er það sem skiptir ekki síst og kannski mestu máli.
    Varðandi þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. 10. þm. Reykv., þá sýnist mér að flestar þeirra séu um atriði sem auðvelt væri fyrir okkur að semja um í hv. nefnd og ná fullu samkomulagi um. Varðandi 1. gr. er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. að hér er aðeins um að ræða --- verði hlutabréfaeigandi eða hluthafi fyrir tapi af sölu bréfa --- nettóáhrif, þ.e. hann getur eingöngu dregið tapið frá ágóða vegna annarra bréfa. Það má vel vera að ekki sé
nægilega langt gengið með þessu ákvæði. En þarna var fyrst og fremst verið að hugsa um það að líta á heildaráhrif vegna sölu og kaupa á hlutabréfum rétt eins og menn líta á vexti, bæði greidda vexti og fengna vexti. Allir vita að það er nettótalan sem skiptir máli.
    Það kann hins vegar vel að vera, ég er ekki svo vel að mér í skattalögum, að það vanti lagaákvæði sem komi til móts við þá sem verða fyrir verulegum áföllum vegna þess að þeir glata hlutabréfum, t.d. vegna þess að félög sem hluthafi á hlut í verða gjaldþrota og finnst mér sjálfsagt að það mál verði skoðað.
    Ég tek undir það með hv. 10. þm. Reykv. að allar tölur í þessu frv. eru auðvitað álitamál. Þær eru settar fram með það í huga fyrst og fremst að rýmka þær tölur sem fyrir eru í lögum. Hvort þær verða helmingi

hærri, þriðjungi hærri eða eitthvað þar á milli, meira eða minna, skiptir ekki mestu máli, heldur að lögin verði sveigjanlegri en þau eru nú.
    Varðandi 3. gr., um arðinn, þá er það alveg rétt að tillögur okkar ganga ekki eins langt og hv. þm. vildi að gert yrði, þ.e. að arður yrði alveg frádreginn hjá fyrirtækinu frá tekjuskatti þótt það væri gildandi þak fyrir þann sem fengi arðinn greiddan. Vissulega kemur þetta til greina og yrði þá til bóta fyrir viðkomandi fyrirtæki sem gætu greitt svo mikinn arð. En þótt við berum vissulega vonir í brjósti um að svo geti orðið, þá efast ég nú um að a.m.k. á næsta ári verði greiddur arður umfram þau mörk sem þarna er til umræðu. Og finnst mér nú menn í nýjustu atvinnugreinunum vera orðnir æði bjartsýnir ef þeir halda virkilega að þau nýju fyrirtæki skili arði á borð við þetta sem hv. þm. var hér að hugsa um.
    Ég fagna því að hv. þm. hefur skilning á sveiflujöfnunarsjóðunum. Hér er um að ræða nýja hugmynd og hér er auðvitað verið að fitja upp á alveg nýju kerfi. Við höfum langa reynslu af verðjöfnunarsjóðum, fyrst mjög góða, síðan eftir að stjórnmálamenn fóru að misnota verðjöfnunarsjóðina kom í ljós að þeir gátu jafnvel skapað fleiri vandamál en þeir leystu. Þá er spurningin sú hvort ekki sé kominn tími til að fyrirtækin sjálf beri ábyrgð á því að jafna sveiflur og við sem hér sitjum sem löggjafarvald gefum þeim tækifæri til þess með því að breyta lögum þannig að hægt sé að geyma fjármuni óskattlagða til mögru áranna. Þetta er auðvitað sama hugmyndin og kom fram og er til staðar um fjárfestingarsjóðina en heimildir til að geyma ákveðið hlutfall af ágóða fyrirtækjanna voru skertar á sl. ári. Við setjum fram hugmynd um að rýmka þessar heimildir verulega, annars vegar til fjárfestingarsjóðanna og hins vegar til þessara sveiflujöfnunarsjóða. Hvort nákvæmlega þetta hlutfall sé eðlilegt er er erfitt að fullyrða, en ég fagna því vissulega að hv. þm. skuli taka undir hugmyndina og vil gjarna eiga gott samstarf við hann í nefndinni um að færa þessa hugmynd betur út þannig að hún komi ekki einungis fyrirtækjum til góða, heldur einnig öllu efnahagslífinu. Það er undirstöðuatriði að fyrirtækin sjálf taki þátt í því að jafna þær efnahagssveiflur sem eru óumflýjanlegar í okkar þjóðfélagi vegna sífelldra breytinga á verðlagi útflutningsvara og mismunandi afla sem við getum tekið úr sjó á ári hverju. Nýlega höfum við getað farið í gegnum eina slíka sveiflu. Við höfum séð hvernig fyrirtækin í sjávarútvegi fóru flest hver í miklar fjárfestingar þegar vel gekk. Auðvitað verða þær síðan að greiðast á löngum tíma, þar á meðal á þeim tíma þegar slær í bakseglin sem verður þá til þess að niðursveiflan verður enn þá skarpari en ella. Hér er verið að varpa ábyrgðinni yfir á fyrirtækin og ætlast til þess að fyrirtækin rói í sömu átt og ríkisstjórnir á hverjum tíma, einkum og sér í lagi ríkisstjórnir sem hafa áhuga á því að ná tökum á efnahagsmálunum og jafna sveiflur og draga úr miklum breytingum á verðlagi o.s.frv.
    Varðandi 11. gr. er það rétt að hér er um að ræða

sama orðalag og kemur fram í sjálfri lagagreininni, þ.e. í 5. tölul. 74. gr. tekjuskatts- og eignarskattslaganna um sönnunina, þannig að þetta orðalag er ekki úr okkar brtt. Við notum sama orðalag, en meginmarkmið þessarar brtt. eða þessarar greinar í frv. er auðvitað að örva fyrirtæki til að skrá hlutabréf
sín sem til sölu eru og þá um leið gengi þeirra á Verðbréfaþingi Íslands. Því miður, og verður að segja þá sögu alla eins og hún er, hefur það ekki gerst hingað til. Fróðir menn telja að það sé nauðsynlegt að breyta 74. gr. laganna til þess að fyrirtæki fáist til að skrá hlutabréfin á Verðbréfaþinginu. Í dag hagar þannig til að þeir sem festa kaup á hlutabréfum á Verðbréfaþinginu verða að gefa upp nafnverð bréfanna eða skrá verð bréfanna þar, en ef um bein kaup er að ræða á milli aðila er hægt að skrá bréfin til eignar á nafnverði. Þetta er vandamál sem verður að takast á við og hér er gerð tilraun til að gera það með þessum hætti. Við erum að sjálfsögðu tilbúnir til að skoða orðalag, bæði lagagreinarinnar og frumvarpsgreinarinnar, í góðu samkomulagi við þá sem tilbúnir eru til að styðja þær hugmyndir sem koma fram í frv.
    Örstutt um síðara frv.: Það kemur fyllilega til greina af minni hálfu að gera þá breytingu sem hv. þm. taldi að kæmi til álita í 3. gr. frv. en hún var sú að þetta ákvæði þyrfti ekki að ná eingöngu til starfandi fyrirtækja. Við
skulum þó átta okkur á einu og það er að þarna erum við kannski á nokkru hættusvæði. Við þekkjum það úr löggjöf nágrannaþjóðanna að það hefur verið viss tilhneiging til þess að nota hlutafélagsformið til að komast hjá því að greiða skatta. Frægasta dæmið er frá Danmörku þegar heill stjórnmálaflokkur kviknaði nánast af slíku tilefni, en það var þegar Mogens Glistrup sýndi fram á hvernig hægt væri að sleppa við að greiða tekjuskatta með því að stofna hlutafélög jafnvel um tannbursta fjölskyldunnar svo að eitthvað sé nefnt. Þess vegna verður auðvitað að setja einhver mörk. Við höfum sett hér ákveðin skilyrði. Það kann vel að vera að hægt sé að rýmka þau á þessu sviði, þrengja á öðru. Aðalatriði málsins er að við erum að leita að aðferð sem gefur litlum fyrirtækjum, litlum hlutafélögum tækifæri til þess að njóta skattfríðinda á borð við stærri fyrirtækin og smám saman geta smærri fyrirtækin þá komist í hóp stærri fyrirtækjanna sem njóta þeirra skattfríðinda sem um ræðir í lögunum nr. 9/1984. Þetta er meginmarkmiðið. Hvernig við förum að því hlýtur síðan að vera samkomulagsatriði milli þeirra sem hafa skilning á því að hér er verið að fjalla um mál sem geta haft úrslitaþýðingu fyrir atvinnulífið í þessu landi.
    Virðulegur forseti. Hæstv. viðskrh. sagði frá því í blaðaviðtali í sumar, nánar tiltekið í ágúst, að hann hefði snemma í þeim mánuði lagt fram í ríkisstjórninni hugmyndir sem falla í sömu átt og þessi frumvörp sem hér eru til umræðu gera. Ég vil segja að vissulega er það ánægjuefni að hæstv. viðskrh. skuli vera kominn í hóp þeirra sem hafa skilning á

þessum málum. Við sjálfstæðismenn fluttum sum efnisatriði þessara frumvarpa sem hér eru til umræðu á síðasta þingi og ég hlýt að fagna viðbrögðum viðskrh. þegar hann nú nýlega hefur lagt fram í ríkisstjórninni hugmyndir um hvernig hann vilji sjá þessi mál þróast á næstunni. Í hugmyndum sem viðskrh. lagði fram í ríkisstjórninni og reyndar hefur verið gerð grein fyrir í ýmsum dagblöðum má nefna þessi atriði:
    1. Að eignarhlutfall hlutabréfa fái a.m.k. tímabundið --- í tillögunum eru nefnd 5 ár --- hagstæðari skattameðferð en eignarhald skuldabréfa.
    2. Afnumin verði skattaleg mismunun hlutabréfa og annarra sparnaðarforma. Hagnaður og tap verði talin saman og nettóútkoman myndi skattstofn.
    3. Stimpilgjöld af útgáfu hlutabréfa verði lækkuð úr 2% í 0,5%. Ég skýt því hér inn að ég tel að það mál sé komið í höfn eftir þann fund sem við héldum í hv. fjh.- og viðskn. í morgun. Það á að vísu eftir að fara til formlegrar skoðunar í þingflokki Alþb. en að öðru leyti kom fram stuðningur við frv. hv. 10. þm. Reykv. í morgun á nefndarfundi.
    4. Kostnaður við verðbréfakaup viðskiptavaka myndi ekki stofn til útreiknings aðstöðugjalda.
    Þetta eru auðvitað ekki nákvæmlega sömu hugmyndirnar og við höfum verið að fjalla um, en þær hafa sama markmið. Það sem skiptir hins vegar ákaflega miklu máli að átta sig á, og mér finnst margir ekki hafa gert, er að í því blaði sem hæstv. viðskrh. lagði fram á fundi hæstv. ríkisstjórnar kemur fram að hann telji að þessar hugmyndir eigi að eiga samleið með væntanlegum tillögum hæstv. fjmrh. um skattlagningu fjármagns. Sé þetta rétt þá er hæstv. viðskrh. á villigötum.
    Það er nú ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að hreyfa við fjármagnstekjunum að sinni og fagna ég því vissulega, enda ekki sá tími kominn að það sé óhætt. Það hlýtur að vera alvarlegt ef tengja á þessi mál svona saman því að auðvitað er það eitt af stóru málunum sem löggjafarþingið hlýtur að takast á við í vetur hvernig við ætlum að byggja upp eigið fé fyrirtækjanna. Og það gengur ekki að slíkt sé tengt við einhverja nýja skattheimtu sem hæstv. fjmrh. hefur stundum nefnt í sínum ræðum. Nú er hæstv. viðskrh. því miður ekki viðstaddur á þessum fundi, en hæstv. fjmrh. er hér og ég óska eftir því sérstaklega að hæstv. fjmrh. taki hér til máls, segi álit sitt á þeim tillögum sem hér eru til umræðu, segi frá því hvort hæstv. ríkisstjórn hafi á prjónunum nú á næstunni, á þessu haustþingi, að leggja fram frv. um þetta sama efni og hvort það sé rétt sem kemur fram í minnisblaði hæstv. viðskrh. til hæstv. ríkisstjórnar að hugmyndir hans séu bundnar því skilyrði að þær þurfi að eiga samleið með hugsanlegum fjármagnstekjuskatti. Þetta finnst mér svo stórvægilegt mál að ég tel það skyldu hæstv. ráðherra að segja álit sitt og álit hæstv. ríkisstjórnar á þessum mjög svo mikilvægu málum.
    Ég vil að lokum, virðulegur forseti, ítreka þakkir mínar til hv. 10. þm. Reykv. Ég vona að samstarf

okkar og annarra sem sitja í hv. fjh.- og viðskn. leiði til þess að fram komi nú á næstu vikum frv. sem hefur það meginmarkmið sem lýst er í þeim frumvörpum sem við sjálfstæðismenn höfum nú flutt hér á Alþingi.