Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram mjög athyglisverðar umræður um skattamál og á hvern hátt skattkerfið í landinu geti stuðlað að uppbyggingu heilbrigðs atvinnulífs á Íslandi. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram hjá ræðumönnum að eitt af brýnustu verkefnum okkar er að endurskoða skattlagningu atvinnufyrirtækja á Íslandi, bæði til þess að ná því markmiði að skattkerfið þjóni heilbrigðri uppbyggingu atvinnulífs í landinu og eins til að samræma skattlagningu atvinnulífs og fyrirtækja þeim meginreglum sem gilda í helstu viðskiptalöndum okkar og þar sem íslenskur útflutningur þarf einna helst að keppa við okkar samkeppnisaðila.
    Ef ég má leyfa mér aðeins að skjóta að í framhjáhlaupi vegna ummæla hv. þm. Friðriks Sophussonar um að þetta væri mjög brýnt verkefni sem þyrfti að ljúka á næstu mánuðum, þá er það nú þannig að Sjálfstfl. hafði hér nærri því fimm ár til að vinna að því verkefni án þess að skila hér inn í Alþingi frv. um nýja heildarlöggjöf um skattlagningu atvinnulífs á Íslandi. Það geta sjálfsagt verið margar ástæður sem liggja þar að baki en ég er sannfærður um að ein af ástæðunum er sú að í okkar litla þjóðfélagi höfum við takmarkaða getu til að framkvæma viðamiklar skattkerfisbreytingar á mörgum sviðum í einu. Ég ætla ekki að segja að ástæðan sé skortur á áhuga hjá Sjálfstfl. að breyta skattkerfinu atvinnulífinu í hag, heldur hugsa ég að forsvarsmenn Sjálfstfl. hafi áttað sig á því eins og fleiri að það varð að setja upp ákveðna forgangsröð í þeim skattkerfisbreytingum sem við ætluðum að hrinda í framkvæmd hér á Íslandi.
    Ég vil ítreka hér þá skoðun mína að sú vinnuáætlun sem ég hef ákveðið að fylgja í þessum efnum felst í því í fyrsta lagi að festa staðgreiðslukerfið í sessi og bæta það eins og við höfum unnið að á þessu ári. Í öðru lagi að láta virðisaukaskatt taka gildi um næstu áramót. Það er skattkerfisbreyting sem búið er að boða hér á Íslandi nærri því í tvo áratugi og ýmsar ríkisstjórnir hafa ásett sér að hrinda í framkvæmd án þess að af yrði. Það þarf ekki að útskýra fyrir hv. alþm. að það er mikið verk og hefur lengi verið í undirbúningi og það er alveg ljóst að hinn tiltölulega fámenni hópur starfsmanna í íslenska skattkerfinu og einnig sá tiltölulega fámenni hópur sérfræðinga sem við höfum á sviði skattalöggjafar og skattaframkvæmdar hefur takmarkaða starfsgetu til þess að sinna svo vel sé víðtækum, margbrotnum skattkerfisbreytingum á sama tíma. Þess vegna beitti ég mér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að ákveðið væri að virðisaukaskatturinn fengi að njóta þess algerlega að vera forgangsverkefni nr. 2. Ég ætla ekki að nota tímann hér til þess að færa að því rök hvers vegna það sé brýnt að taka upp virðisaukaskatt hér á Íslandi, ég gæti flutt um það langt mál en ætla ekki að gera það nú, mun væntanlega gera það í næstu viku þegar hér mun koma til 1. umr. frv. til l. um breytingar á

lögunum um virðisaukaskatt.
    Þriðja verkefnið sem ríkisstjórnin varð ásátt um að sinna var skattlagning fjármagnstekna. Fjármagnstekjur eru af margvíslegu tagi. Þær eru t.d. arður af hlutafé. Þær eru einnig arður vegna verðbréfa, inneigna í sjóðum og bankakerfi og þar er um að ræða nýjar tekjur sem menn fá en ekki, eins og haldið er fram í einhverju nánast barnalegu áróðursstríði hér úti í þjóðfélaginu, skattlagning á sparifé. Það er t.d. nauðsynlegt ef menn vilja styrkja fjárhagsgrundvöll atvinnulífsins á Íslandi að arðurinn af fjármagnseign í bönkum og verðbréfasjóðum sé ekki meiri en arðurinn af hlutafé í fyrirtækjunum, að fjármagnið sem liggur bara kyrrt fyrir eigendurna í verðbréfasjóðum, bönkum og sparisjóðum njóti ekki forgangs skattalega séð fram yfir það fjármagn sem menn setja í vinnu í atvinnulífinu sjálfu. Það er þess vegna sem ég, án þess að ég ætli að gera það að umræðuefni hér, við getum rætt það síðar, hef átt svona bágt með að skilja andstöðu Sjálfstfl. við hugmyndir og tillögur okkar við samræmda skattlagningu fjármagnstekna vegna þess að þær eru í reynd sinni veigamikið skref að því að styrkja samkeppnisstöðu þeirra sem vilja að fjármagnið fari til atvinnulífsins.
    Þar að auki er ljóst að vilji menn búa til samræmdan fjármagnsmarkað milli Íslands og Norðurlandanna, svo að ég taki nú atriði sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur lengi boðað að eigi að gera, hvað þá heldur milli Íslands og Evrópu, Evrópubandalagsins sem ræða á hér á morgun, þá er það lykilatriði í þeirri samræmingu --- ég legg áherslu á það --- að sambærileg skattlagning sé á fjármagni á Íslandi og í þessum löndum sem við ætlum að taka mið af. Staðreyndin er hins vegar sú að fjármagnið á Íslandi nýtur skattfríðinda sem fjármagnið gerir ekki í öðrum löndum OECD og þar með ekki á öðrum Norðurlöndum, þar með ekki í Evrópubandalaginu. Vilji menn því í reynd samræma íslenska fjármagnsmarkaðinn fjármagnsmarkaði Norðurlanda og Evrópu er lykilatriði í því hin skattalega samræming og þar ber hæst nauðsyn á því að fjármagnstekjurnar hljóti sömu skattalegu meðferð hér á Íslandi og alls staðar í Vestur-Evrópu eða í öðrum OECD-ríkjum. Ég hef þess vegna aldrei komið því heim og saman hvernig sömu mennirnir geti staðið hér upp á Alþingi og krafist
þessarar samræmingar fjármagnsmarkaðanna og svo næsta dag lagst gegn breytingum á skattlagningu fjármagnstekna.
    Þessi þriðji þáttur, skattlagning fjármagnstekna, er þess vegna eitt af þeim frv. sem ríkisstjórnin mun leggja fyrir Alþingi innan tíðar og það er mjög nauðsynlegt að um það fari fram víðtæk umræða og ítarleg skoðun. Það er þó ljóst að það mun verða nokkuð þungt verk fyrir starfsfólk íslenska skattkerfisins að vinna bæði að víðtækum breytingum sem felast í virðisaukaskattkerfinu sem er nánast kerfisbylting í skattlagningu hér á Íslandi og einnig á sama tíma að hrinda í framkvæmd löggjöf, þótt hún væri fullbúin, um skattlagningu fjármagnstekna.

Staðreyndin er sú, og hefur kannski komið mér nokkuð á óvart við að kynnast því náið, að við ætlum mjög fámennum hópi manna í okkar skattkerfi, mjög fámennum hópi sérfræðinga á þessu sviði, nánast ofurmannlegt verk og það er hættulegt að leggja of miklar breytingar á þetta kerfi á sama tíma þótt ég skilji vel að menn séu bráðlátir eftir að breytingarnar komi til framkvæmda. Þetta er mjög veigamikill þáttur í þeirri afstöðu minni að raða þessum verkum upp í ákveðna verkáætlun og láta hvern þátt fá þann tíma sem hann þarf til að geta komist til framkvæmda með öruggum hætti.
    Fjórði þátturinn í þessari verkáætlun er síðan víðtækar breytingar á skattlagningu atvinnulífs og fyrirtækja á Íslandi. Undirbúningur þess máls er þegar hafinn og ætlunin er að á fyrri hluta næsta árs verði það eitt aðalviðfangsefni sérfræðinga, embættismanna og fulltrúa stjórnarflokkanna og e.t.v. einnig flokkanna í stjórnarandstöðu, sem og efni í viðræður við samtök atvinnulífsins, að ræða mjög ítarlega þær breytingar, skoða hvernig þarf að tengja það við skattlagningu atvinnulífs í helstu samkeppnislöndum okkar og skoða skref fyrir skref á hvern hátt er skynsamlegast að haga þessum skattkerfisbreytingum þannig að þær styrki uppbyggingu atvinnulífsins á Íslandi.
    Ég held þess vegna að það sé óraunhæft að ætla sér að koma til framkvæmda víðtækum breytingum á skattlagningu atvinnulífs á Íslandi fyrr en á árinu 1991 og þá legg ég áherslu á að þær komi til framkvæmda. Það er hins vegar nauðsynlegt að sú umræða fari fram í mun lengri tíma og það er ætlun okkar að stuðla að því að svo verði.
    Hér hefur nokkuð verið vikið að því hver eigi að vera markmið slíkrar endurskoðunar. Ég get lýst fáeinum atriðum í þeim efnum.
    Í fyrsta lagi að einstaklingar, fyrirtæki, samtök og sjóðir séu beinlínis hvött til þess að leggja fjármagn í uppbyggingu heilbrigðs atvinnulífs. Með heilbrigðu atvinnulífi á ég við atvinnulíf sem skilar arði, bæði fyrir þjóðfélagið og eigendur þess. Það er nokkuð hættulegt að hafa skattakerfi sem er þannig útbúið að menn freistast til að leggja fjármuni í margs konar rekstur af því að þeir sjá í því um skamma stund eitthvert skattalegt hagræði án þess að huga nægilega vel að því hvort atvinnureksturinn er í sjálfu sér arðbær og kann að verða það í framtíðinni. Þess vegna tel ég að fyrsta atriðið eigi að vera sá þáttur skattalaganna að veita hvata þegar beinlínis og sannanlega er um vænlegan og arðbæran kost í atvinnuuppbyggingunni að ræða.
    Annað markmiðið þarf að vera, að mínum dómi, samræming í skattlagningu einstakra atvinnugreina. Við vitum það mjög vel að því miður hefur þróast hér á Íslandi allmikið ósamræmi í skattlagningu atvinnugreina og samkeppnisstaða þeirra, bæði innbyrðis og til vaxtar, hefur þess vegna orðið mjög ólík og mismunandi og hefur e.t.v. að nokkru leyti leitt til þess að uppbygging atvinnulífs á Íslandi í dag er óarðbærari en hún hefði orðið ella ef fyrri ríkisstjórnir eða fyrri þing hefðu haft vilja eða getu til

þess að taka upp samræmda skattlagningu allra atvinnugreina sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar, verslunar og þjónustu, þannig að skattkerfið í sjálfu sér fæli ekki í sér þá mismunun sem kann að skekkja fjárfestinguna og arðsama uppbyggingu atvinnulífsins í landinu.
    Nú vitum við það hins vegar að auðvitað eru sterk hagsmunaöfl sem vilja halda áfram því skattalega hagræði sem þau hafa í dag og kannski er skýringin á því að fyrri ríkisstjórnir og fyrri þing hafa ekki lagt í það verk að samræma t.d. launaskatta allra atvinnugreina, að menn hafa óttast atganginn í þeim hagsmunasamtökum sem í dag njóta forréttinda í þessu skattakerfi og vilja halda þeim áfram. En ég nefni þetta atriði hér númer tvö vegna þess að ég er sannfærður um það að slík endurskoðun á skattkerfi atvinnulífsins á Íslandi nær aldrei verulegum árangri nema menn hafi getu og vilja til að hrinda þessari samræmingu allra atvinnugreinanna í framkvæmd.
    Þriðja markmiðið þarf að vera að laga skattlagningu atvinnulífs á Íslandi að meginþáttunum í skattlagningu atvinnulífs í okkar helstu viðskiptalöndum. Þar er auðvitað ljóst að Evrópubandalagið og EFTA-ríkin eru mjög ofarlega á blaði vegna þess hve þau skipa stóran sess í okkar útflutningi og þess vegna hljótum við í því verki að skoða mjög rækilega, ekki bara hvernig þessi skattkerfi eru í dag, heldur líka hverjar eru helstu breytingarnar sem menn hyggjast gera á þeim á næstu árum.
    Ég held að það væri röng áhersla að flýta sér svo við þetta verk að menn taki eingöngu það skattkerfi, sem er nú reyndar ekki eitt þó að því svipi nokkuð saman í ýmsum löndum, sem er í okkar helstu viðskiptalöndum í dag og reyna að samræma skattlagningu atvinnulífsins á Íslandi að þeim veruleika.
    Ég hef ákveðið að á vegum fjmrn. verði nokkuð ítarleg vinna lögð í það að safna saman þeim áhersluþáttum sem helst einkenna umræðuna og kröfurnar um breytingar á þessu skattakerfi í helstu viðskiptalöndum okkar vegna þeirra sjónarmiða sem menn hafa þar um æskilega þróun atvinnulífsins. Og ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir þingheim allan að slíkar upplýsingar lægju fyrir svo að menn geti líka horft til framtíðar þegar menn eru að taka afstöðu til þess hvað eigi að gera.
    Fjórða markmiðið sem slíkar breytingar ættu að þjóna væri að gera íslenskum fyrirtækjum kleift að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra sveiflna sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur í íslensku efnahagslífi meðan við erum í jafnríkulegum mæli háð sjávarútvegi og sveiflum á útflutningsverðlagi okkar helstu útflutningstegunda eins og reyndin hefur verið á undanförnum áratug. Sú sveiflujöfnun getur gerst með ýmsum hætti. Það er engin ein ákveðin leið sem þar ber að fara. Stærsta spurningin í því máli er hins vegar sú hvort sveiflujöfnunin á að eiga sér stað innan hvers fyrirtækis fyrir sig þannig að það beri í senn áhættuna og ávinninginn af því að hafa byggt upp í

gegnum skattakerfið slíka sveiflujöfnunarsjóði og þá víkja frá því kerfi sem hér hefur verið um langan tíma að það séu sveiflujöfnunarsjóðir atvinnuveganna í heild sem gegna þessu hlutverki eða ætla menn áfram að byggja að einhverju leyti á sveiflujöfnunarsjóðum atvinnugreinanna í heild. Ef farin er sú leið að byggja sveiflujöfnunartækin inn í skattakerfið eitt og sér eru ýmis sterk rök fyrir því að leggja niður þá sveiflujöfnunarsjóði sem byggðir hafa verið upp til að þjóna atvinnugreinunum í heild. Það skortir hins vegar stundum á það að þeir sem leggja áherslu á að byggja sveiflujöfnurnar inn í skattkerfið skýri þá um leið frá því hvað þeir vilja gera við hina stóru sveiflujöfnunarsjóði sem hafa starfað hér á undanförnum árum.
    Það eru mörg önnur markmið sem mætti vissulega setja fram þegar þessi endurskoðun kemur til umræðu en ég nefni þessi sem ég hef nú fjallað um vegna þess að ég tel að þau séu mikilvægust, og ef um þau getur skapast samstaða þurfa menn að snúa sér að því nokkuð flókna verki hvernig á tæknilega að útfæra breytingarnar á þann veg að menn nái árangri í verkinu sjálfu. Þar held ég að enginn hafi í dag hin réttu svör, heldur þurfi að vinna mun meira í málinu en gert hefur verið.
    Ég skil það ósköp vel að þeir sem bera hag atvinnulífsins fyrir brjósti kjósi að flytja hér á Alþingi frumvörp og tillögur í þessum efnum. Ég vil þó í fullri alvöru segja það sem ég rakti hér áðan, að vilji menn vanda þetta verk vel, bæði undirbúninginn og ekki síður framkvæmdina, er íslenska skattkerfið, starfsfólk þess og skipulag það veikburða, ef má nota það orð, að það ræður ekki við nema eina umfangsmikla stóra kerfisbreytingu í senn og við megum ekki flýta okkur svo við breytingarnar að kerfið sjálft ráði ekki við framkvæmdina.
    Ég hef orðið að fjölga allnokkuð starfsfólki í skattkerfinu vegna virðisaukaskattsins, m.a. af því að Alþingi áður fyrr horfðist ekki í augu við það að óhjákvæmilegur fylgifiskur virðisaukaskattsins var að starfsfólki í skattkerfinu yrði nokkuð fjölgað.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég leggja áherslu á það, sem hér hefur reyndar aðeins komið fram, að hvað svo sem líður skattkerfisbreytingum eru það hin almennu rekstrarskilyrði atvinnulífsins sem ráða meiru um það hvort þar á sér stað arðsöm uppbygging en skattkerfið sjálft þótt skattkerfi geti vissulega við eðlilegar kringumstæður haft þar mikil áhrif. Það hafa hins vegar ekki verið eðlilegar kringumstæður í rekstrarskilyrðum íslensks atvinnulífs á undanförnum missirum. Ég tel hins vegar að þær séu að skapast nú. Ég tel að raungengisþróunin sé orðin á þann veg að þar sé nánast að nást eðlilegt mark. Ég tel líka að staðan í peningamálunum sé í grófum dráttum að ná því marki að vera hinn eðlilegi rammi og ég tel einnig að vöruskiptajöfnuðurinn sem nú er orðinn jákvæður og viðskiptahallinn, eins og hann er samansettur, fyrst og fremst vegna vaxtagreiðslna og flugvélakaupa, feli það í sér að hægt sé að ganga út frá því sem eðlilegu viðmiði. Og það á einnig að vera

mögulegt að stuðla að því hægt og bítandi á næsta ári að verðlag fari lækkandi.
    Menn hafa deilt hér um svokallaða millifærslusjóði eða skuldbreytingasjóði. Ég ætla ekki að vekja upp þá deilu hér og nú. Ég tel hins vegar að þeir hafi skilað góðu verki. Starfsemi þeirra fer senn að ljúka og þar með er endir sleginn í þann kafla björgunaraðgerða sem ríkisstjórnin hefur staðið að í rúmt ár. Þess vegna er sem betur fer senn að koma hinn rétti tími þar sem við getum rætt með eðlilegum hætti hvernig skattkerfi við viljum búa íslensku atvinnulífi við eðlilegar rekstrarforsendur og eðlilegan efnahagslegan ramma í okkar þjóðfélagi. Ég tel að sú umræða sem hér fer fram sé gagnlegt framlag, þar komi fram margvíslegar athyglisverðar hugmyndir, en eins og síðasti
ræðumaður sagði áðan: Þær talnalegu útfærslur sem í frumvörpunum eru eiga sér auðvitað engan sérstakan sannleika, heldur eru meira settar fram til þess að skýra þær meginhugmyndir sem í frumvörpunum felast.
    Ég vænti þess svo að á næstu mánuðum geti hér á Alþingi orðið áframhaldandi umræður um þær breytingar sem menn vilja gera í skattlagningu atvinnulífsins á Íslandi og það komi nokkuð skýrt fram með hvaða hætti menn eru tilbúnir að gera þær heildarbreytingar sem þarf að gera til þess að kerfið gangi upp. Þar er ekki nóg t.d. að gera bara breytingar á skattlagningu hlutafjár en láta skattlagningu annarra fjármagnstekna liggja kyrra. Þá gengur dæmið einfaldlega aldrei upp, hvorki tæknilega né efnislega.
    Það er ákveðinn misskilningur sem kom fram hér áðan að í sjálfu sér væri eitthvert efnislegt samhengi milli frv. um breytingar á skattlagningu fjármagnstekna og svo víðtækra breytinga á skattlagningu hlutafjár eða atvinnulífs á Íslandi. Ég hef aldrei séð þetta þannig samofið, heldur fyrst og fremst sem sjálfstæða, að vísu tengda, verkþætti sem skoða ætti hvern fyrir sig en ekki skilyrða einn með öðrum eins og hefði kannski mátt skilja af þeim orðum sem hv. þm. Friðrik Sophusson fór með hér áðan.
    Þær tillögur sem hæstv. viðskrh. setti fram í ríkisstjórninni eru mjög athyglisverðar. Það hafa ýmsar aðrar tillögur komið fram í ríkisstjórninni í vinnugögnum og hugmyndum frá einstökum ráðherrum. Þær tillögur sem hér hafa komið fram frá þingmönnum í formi frumvarpa eða í ræðum eru einnig, eins og ég hef sagt, mjög athyglisverðar og við munum ekki síður skoða þær en þær tillögur sem komið hafa fram á vettvangi ríkisstjórnarinnar.