Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Austurl. beinir til mín fsp. í þremur liðum.
    Í fyrsta lagi er spurt hvaða framkvæmdir hafi átt sér stað vegna nýrrar virkjunar við Búrfell?
    Því er til að svara að verkhönnun stækkunar Búrfellsvirkjunar lauk árið 1982. Á því ári var byrjað að skola burt lausum jarðvegi í fyrirhuguðum stöðvarhússgrunni og frárennslisskurði með vatni sem ekki nýttist til virkjunarinnar. Þessum aðgerðum var svo haldið áfram næstu þrjú árin og fjarlægt mikið efnismagn. Á sl. sumri var svo þessu verki haldið áfram. Þá var reyndar einnig byrjað að gera undirstöður fyrir vinnubúðir og á uppsetningu húseininga á þær. En þessar einingar hafa verið geymdar í Búrfelli frá því að framkvæmdum lauk við Hrauneyjafossvirkjun og við fjórða áfanga Kvíslaveitu.
    Í öðru lagi var spurt hvaða áform séu uppi af hálfu Landsvirkjunar um frekari framkvæmdir og undirbúning þessarar virkjunar, m.a. varðandi útboð og öflun tilboða.
    Um þetta er því til að svara að sl. vor gáfu viðræður við svonefndan Atlantal-hóp álfyrirtækja um hugsanlega aukningu álbræðslu í Straumsvík tilefni til þess að ætla að aukin framleiðsla á áli gæti hafist fyrir lok ársins 1992, ef viðræður leiddu til þess að gengið yrði til samninga. Landsvirkjun þurfti því að búa sig undir að geta afhent orku til Atlantal-bræðslu á þeim tíma. Til þess að eiga raunhæfan möguleika á því að það mætti takast ákvað Landsvirkjun að senda útboðsgögn í vélar og rafbúnað til valinna fyrirtækja. Með útboðsgögnunum fylgdi bréf þar sem vakin var athygli á því að óvíst væri hvort nokkru tilboðanna yrði tekið, það væri m.a. því háð hvort álbræðsla yrði aukin og að sjálfsögðu að heimild Alþingis fengist til virkjunarinnar.
    Ég vil taka það fram að tilboð þessi hafa enn ekki verið opnuð og verða væntanlega ekki opnuð fyrr en einhvern tíma í byrjun næsta árs.
    Í júní sl. samþykkti stjórn Landsvirkjunar 27,7 millj. kr. fjárveitingu til þess að halda undirbúningi að stækkun Búrfellsvirkjunar áfram og 37,2 millj. kr. fjárveitingu til undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar og háspennulínu frá Fljótsdalsvirkjun til Akureyrar.
    Ég kynnti þetta mál í ríkisstjórninni þegar það barst og ég gerði ekki athugasemdir við þessa samþykkt stjórnar Landsvirkjunar. Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningi samkvæmt þessari samþykkt og hefur verið unnið að hönnun stöðvarhúss og gerð útboðsgagna fyrir gröft stöðvarhússgrunns og byggingu stöðvarhúss.
    Í þriðja lagi var spurt hvaða aðilar hafi fjallað um og leyft þessar framkvæmdir og annan undirbúning vegna þessarar virkjunar.
    Stjórn Landsvirkjunar hefur, eins og ég sagði, samþykkt ýmsar áætlanir og fjárveitingar til undirbúnings virkjanaframkvæmda, m.a. vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar, og ég hef ekki gert neinar athugasemdir við það og um samþykkt stjórnarinnar

vegna undirbúnings við virkjun í Fljótsdal að sjálfsögðu ekki heldur.
    Í þessu sambandi vil ég líka á það benda að í ályktun Alþingis um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu frá 6. maí 1982 var sagt skýrum orðum að samhliða næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjunum skuli unnið að orkuöflunarframkvæmdum á Þjórsár-Tungnársvæðinu með Kvíslaveitum, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og gerð Sultartangastíflu. Búrfellsvirkjun verði stækkuð þannig að orkugeta vatnsaflsvirkjana á svæðinu verið allt að 950 gwst. á ári. Með tilliti til þessa er ekki óeðlilegt að samhliða Blönduvirkjun hafi verið unnið að undirbúningi stækkunar Búrfellsvirkjunar, ekki síst þegar kostur var á að beita þar búhyggindun og nota rennandi vatn til að ryðja burt jarðvegi vegna hugsanlegrar slíkrar framkvæmdar.
    Ég vil að lokum benda á að það er lögum samkvæmt skylda Landsvirkjunar að hafa forgöngu um virkjanir á sínu orkusvæði svo tryggt verði að afl- og orkuþörf viðskiptavina fyrirtækisins verði ávallt fullnægt. Ég tel að þessar framkvæmdir hafi verið í þeim anda.