Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í svari mínu áðan þá er aðdragandi þessa máls alllangur. Framkvæmdir sem tengja má, eða aðgerðir sem tengja má fyrirhugaðri stækkun Búrfellsvirkjunar má rekja allt til ársins 1982. Þá var skolað burt lausum jarðvegi, eins og ég sagði, í fyrirhuguðum stöðvarhússgrunni og frárennslisskurði með vatnsrennsli. Þá hófust þessar framkvæmdir í raun og veru. Og þetta voru mjög umfangsmiklar framkvæmdir. Í þrjú ár eftir 1982 var þessu haldið áfram. Þá voru fjarlægðir alls um 1200 þús. rúmmetrar eða jafnvel 1300 þús. rúmmetrar af jarðefni. Ég tel þetta alveg eðlilegt. Eins og ég sagði í mínu svari hér áðan þá var það skynsamlegt og hyggilegt að undirbúa stækkun Búrfellsvirkjunar samhliða Blönduvirkjun.
    Ég vil í þessu sambandi, og líka til að andmæla því að þetta hafi verið gert í trássi við vilja þingsins, benda á það að í nefndaráliti atvmn. vegna þingsályktunarinnar sem við nefndum hér áðan, um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu frá vorinu 1982, sagði svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Miðað við áform um vatnsmiðlun á Þjórsár-Tungnársvæðinu er nýting þess vatns við Búrfell eðlileg og sjálfsögð. Nægir í því sambandi að benda á að kostnaðarsöm mannvirki, sem fyrir eru við Búrfell, nýtast að fullu nýjum aflvélum. Er eðlilegt að leitað verði lagaheimildar fyrir þeim aflauka við Búrfell, í stað heimildar um fjórðu aflvél við Hrauneyjafoss og Sigöldu.``
    Það er því alveg ljóst að þingmenn tengdu, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, stækkun Búrfellsvirkjunar orkuöflunarframkvæmdum á Þjórsár-Tungnársvæðinu með beinum hætti við afgreiðslu Alþingis á þingsályktuninni árið 1982. Jafnframt taldi þingið þá eðlilegt að það yrði fremur horfið að þessu en aflaukningu í Hrauneyjafossvirkjun eða Sigölduvirkjun.
    Ég vildi líka vekja athygli á því að þáv. forsrh., Gunnar Thoroddsen, taldi upp sérstaklega --- og með leyfi hæstv. forseta vildi ég rekja þau atriði --- þegar þáltill. var á lokastigi, eftirtalin skýringaratriði. Hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Það fer ekki leynt að nokkuð mismunandi skilning leggja menn í það sem hér verður væntanlega samþykkt. En ég vil taka það skýrt fram að þegar farið verður að skýra það sem kann að vera ágreiningur um, þá verður auðvitað fyrst að líta á lögin um raforkuverð frá sl. ári, þá kemur þál. sem við erum nú að fjalla um, í þriðja lagi það sem segir í nál. hv. atvmn. og í fjórða lagi þær bókanir sem nefndarmenn hafa gert án þess að þær séu settar í sjálft nál., þar sem annars vegar er bókun sem sex nefndarmenn hafa samþykkt og hins vegar bókun sem einn nefndarmaður hefur staðið að. Ég er aðeins að benda hlutlaust á þessi túlkunaratriði þar sem þarf að hafa þau gögn til hliðsjónar sem ég nú rakti og hlýtur að gilda við sérhverja túlkun.``

    Þetta er í reynd það sem við ræðum hér nú sjö árum síðar, en það heldur sínu gildi. Og það er alls ekki sanngjarnt eða réttmætt að halda því fram að þær skynsamlegu og hyggilegu ráðstafanir sem gerðar hafa verið á grundvelli þessarar ályktunar sé í andstöðu við vilja þingsins.