Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alls ekki svo að Landsvirkjun hafi gengið lengra heldur en vera ber varðandi undirbúning hugsanlegrar stækkunar Búrfellsvirkjunar. Það er auðvitað alltaf matsatriði í jafnstóru fyrirtæki og Landsvirkjun er, sem hefur með höndum jafnumfangsmiklar framkvæmdir og raun ber vitni, hversu miklu fjármagni eigi að verja í undirbúning framkvæmda og til rannsókna. En á Landsvirkjun hvílir mjög þung lagaskylda í þessum efnum og því tel ég að hingað til hafi ekki verið gengið lengra heldur en lög og fyrirmæli Alþingis gefa tilefni til.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að öllu lengra verður ekki gengið en nú hefur verið gert, án þess að málið verði lagt fyrir Alþingi. Þess vegna hefur, eins og hv. 2. þm. Austurl. benti á, Landsvirkjun ekki aðeins nú heldur áður farið fram á það að þetta mál verði tekið upp á Alþingi og lagaheimildar leitað til stækkunar Búrfells II.
    Ég hafði reyndar kvatt mér hljóðs áður en hæstv. iðnrh. flutti sína aðra ræðu hér, en engu að síður vil ég inna hann eftir því hvernig hann hyggst bregðast við mjög nýlegri samþykkt stjórnar Landsvirkjunar um lagaheimild til stækkunar Búrfells II þannig að hægt sé með eðlilegum hætti að vinna að undirbúningi þeirrar virkjunar eins og annarra kosta sem eru fyrir hendi varðandi aukningu á okkar orkuöflunarkerfi.