Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Mér finnst satt að segja að þessi umræða leiði hugann að því að sumar stofnanir hér í þessu þjóðfélagi virðast hafa meiri völd og meira sjálfstæði en sumar aðrar. Sumar stofnanir í þessu þjóðfélagi eru búnar að koma sér upp þannig aðstöðu að þær eru ríki í ríkinu og þær senda ríkisstjórnum og Alþingi tilkynningar um ákvarðanir sínar en leita ekki til Alþingis eða ríkisstjórnar um sínar niðurstöður. Þessi stofnun sem ég er að tala um núna heitir Landsvirkjun, og það hefur verið ákaflega sérkennilegt að fylgjast með því undanfarin ár, mörg ár, hvernig hún hefur hagað sér, bæði gagnvart framkvæmdarvaldi, fjárveitingavaldi og Alþingi á hverjum tíma. Það hlýtur að verða alþingismönnum sérstakt umhugsunarefni og hvatning til þess að taka sérstaklega á stjórnunarmálum þessarar stofnunar og vinnubrögðum hennar yfirleitt. Á sama tíma og Alþingi liggur með smásjá yfir fjárveitingum og fjármálaákvörðunum einstakra ríkisstofnana þar sem menn eltast við þúsundir króna hér og hundruð króna þar virðist þessi stofnun hafa sjálfstæði og svigrúm sem er allt annað og með allt öðrum hætti en aðrar ríkisstofnanir eða opinberar stofnanir hafa. Þetta hlýtur að kalla á það, virðulegi forseti, í framhaldi af þessum skoðanaskiptum sem fram hafa farið hér að vinnubrögð þessarar stofnunar verði tekin til rækilegrar athugunar í framtíðinni.