Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég byrja á því að vísa síðustu ummælum hv. þm. á bug. Reyndar skildi ég ekki hvað hann átti við, en það stendur hvorki til að óvirða lög né reglur hér í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég svara spurningum hv. þm. þannig að það er margra ára fordæmi fyrir því að Framleiðnisjóður landbúnaðarins leggi fé til markaðsstarfs, enda er skýrt á um það kveðið, bæði samkvæmt gildandi lögum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins jafnframt þeim heimildum sem lúta að ráðstöfun fjár úr Framleiðnisjóði og eru í búvörulögnuum frá 1985. Þannig hefur til að mynda Framleiðnisjóður á sl. árum, svo að ég upplýsi þingheim um það, varið á árinu 1987 um 23 millj. kr. til markaðsstarfs á þágildandi verðlagi sem jafngildir sjálfsagt 30--35 millj. kr. á núgildandi verðlagi. Á árinu 1988 ráðstafaði sjóðurinn um 26,8 millj. kr. til markaðsstarfs sem á núgildandi verðlagi gæti látið nærri að vera 32--34 millj. kr. og áætlun sjóðsins fyrir þetta ár gerir ráð fyrir að ráðstafa a.m.k. 20 millj. kr. til markaðsstarfsemi af ýmsu tagi á verðlagi þessa árs. Fyrir því er auðvitað þegar löng hefð og fordæmi að Framleiðnisjóður leggi fé til ýmiss konar starfsemi sem tengist markaðsmálum.
    Í öðru lagi vík ég að því sem um er fjallað í athugasemdum með fjárlagafrv. Þar er greint frá því samkomulagi ríkisvaldsins og bænda að beita sér fyrir átaki til að minnka birgðir kindakjöts í landinu og er það að mínu mati eitthvert brýnasta hagsmunamál sauðfjárbænda að það takist og hefur lengi verið. Það tókst á þessu ári að minnka birgðirnar um 500 tonn og vonandi tekst að halda áfram á sömu braut þannig að á næsta hausti verði birgðir orðnar nálægt þeim mörkum sem þarna er um fjallað eða um 1500 tonn. Framleiðnisjóði, eins og segir í athugasemdum með fjárlagafrv., er ætlað að styðja við þetta átak og ég vek athygli á orðalagi á bls. 285 í þskj. 1, fjárlagafrv. Þar segir, með leyfi forseta.:
    ,,Samkvæmt því skulu birgðir minnka um allt að 600 tonn [þ.e. samkvæmt samkomulaginu] fyrir lok verðlagsársins. Þá munu birgðir kindakjöts í landinu verða um 1540 tonn ... Ætlunin er að Framleiðnisjóður landbúnaðarins noti hluta ríkisframlags á næsta ári til að efla markaðsstarf innan lands sem fellur undir verkefni sjóðsins, sbr. 37. gr. laga.`` Enn fremur segir neðar: ,,Reiknað er með að Framleiðnisjóður styrki þetta markaðsstarf á næsta ári og með stuðningi sjóðsins megi tryggja a.m.k. sölu þeirra 600 tonna sem þarf til að ríkissjóður standi við sinn hluta samningsins við bændasamtökin.``
    Ég legg þann skilning í þetta orðalag að Framleiðnisjóði sé ætlað að leggja verulegt fjármagn til markaðsstarfsemi á næsta ári eins og hann hefur áður gert, e.t.v. meira fé en hann hefur gert a.m.k. á þessu ári og ég reikna
með að því fé verði varið með svipuðum hætti og gert hefur verið, þ.e. til ýmiss konar starfsemi sem

tengist þessum markaðsmálum, auglýsinga, e.t.v. til stuðnings við vinnslu- og pökkunarverkefni, söluaðgerðir og fleira af því tagi en ekki til beinna niðurgreiðslna. Ég tel, og vil hafa það alveg skýrt af minni hálfu, ég tel það orka miklu meira tvímælis hvort eðlilegt væri miðað við hlutverk sjóðsins að hann legði fé til beinna niðurgreiðslna á vöruverði en ýmiss konar annarra aðgerða (Gripið fram í.) já, og ég er að svara hv. þm., ég er að svara, hv. frammíkallandi. Ég vil svo vekja athygli á því að það er verið að vinna að bæði útflutnings- og söluáætlun fyrir næsta ár og þær upplýsingar verða sendar hv. fjvn. og ég mun beita mér fyrir því að fjvn. fái allar upplýsingar sem þessu máli tengjast. Það er ekki hægt að svara því endanlega hvernig ráðstöfun fjár í tengslum við söluaðgerðir kindakjöts verða í heild sinni fyrr en fyrir liggja bæði sölu- og útflutningsáætlanir fyrir næsta ár, fyrr en ljóst er hvernig upptaka virðisaukaskatts kemur við verðlagningu og verðmyndunarferil búvaranna á næsta ári. Allar þessar upplýsingar þurfa í raun og veru að liggja fyrir og ég tel að þegar þar að kemur verði hægt að setja upp áætlun þar sem Framleiðnisjóði er ætlað umtalsvert hlutverk af því tagi sem ég áðan nefndi, en ekki að hefja beinar niðurgreiðslur á vöruverðinu, enda, svo að ég svari sérstaklega síðari spurningunni, mundi takmarkað fé Framleiðnisjóðs duga skammt ef farið yrði ótæpilega út á þá braut að hefja beinar niðurgreiðslur á vöruverði með fjármagni Framleiðnisjóðs, en enn liggur ekki endanlega fyrir hversu mikið laust fé hann kemur til með að hafa til ráðstöfunar á næsta ári.