Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. fyrirspyrjanda án þess að hafa mikinn hávaða uppi í þeim efnum. Það er til óhagræðis að þetta mál skuli heyra undir þrjú ráðuneyti og hefur lengi verið og þyrfti að breyta því að mínu mati þannig að allt sem varðar verðlagningu búvaranna yrði a.m.k. ekki á fleiri en tveimur stöðum. En eins og þetta er nú þarf um þetta samráð á milli þriggja ráðuneyta.
    Í öðru lagi bendi ég hv. þm. á, hafi það ekki vakið athygli hans, að ekki er búið að afgreiða fjárlögin. Og ég spyr: Átti að skilja hv. þm. Egil Jónsson svo að hann teldi að þar væri allt frágengið og óumbreytt og búið væri að taka í raun og veru fjárveitingavaldið af Alþingi og fjvn.? Ég vakti sérstaka athygli þm. á því að verið væri að vinna að upplýsingasöfnun um söluhorfur og útflutningsþörf á næsta ári og það tengist óhjákvæmilega í þessu máli. Það verður m.a. að meta hvort raunhæft sé að ætla að ná allri þessari söluaukningu hér innan lands eða hvort að einhverju leyti verði að standa við samkomulagið við bændur með útflutningi. Allt skiptir þetta máli áður en dæminu verður lokað. Það verður við endanlega afgreiðslu fjárlaganna þannig að ég tel upphlaup hv. þm. fullkomlega ótímabært á þessu stigi málsins.