Sjúkrasamlög
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt eins og kom hér fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Vestf., að það eru mörg mál sem koma fram í dagsljósið og koma núna upp í umræðuna sem eru fylgifiskar verkaskiptingarinnar sem við samþykktum á síðasta þingi og þeirrar lagasetningar sem þá fór fram. Við erum að takast á við það núna í ráðuneytunum sem hlut eiga að máli, t.d. heilbrrn. þar sem voru verulegar breytingar við það að færa alla heilbrigðisþjónustuna yfir til ríkisins frá sveitarfélögunum að því leyti sem sveitarfélögin höfðu verið þátttakendur í þeirri þjónustu. Það hefur auðvitað í för með sér margvíslegar breytingar, m.a. á högum starfsfólks. Það er ljóst. Og það er rétt sem hann heyrði í mínu svari að það er gert ráð fyrir því, það vita allir að sjúkrasamlögin eru með lögum lögð niður, eru ekki lengur til sem vinnustaður. Því fólki sem þar vann var sagt upp störfum. Því voru hins vegar boðin störf í þeirri stofnun sem tekur við starfseminni, Tryggingastofnun ríkisins, og á þeim kjörum sem Tryggingastofnunin hefur samið um eða ríkið fyrir hennar hönd við sína starfsmenn. Öðruvísi getur það ekki gengið fyrir sig. Það kemur síðan í ljós við þessa breytingu að það verður einhver lækkun á launum flestra og ég tók það fram, á bilinu einn til fimm launaflokkar eftir þeim upplýsingum sem ég hef.
    Ég bendi hins vegar á það að í fsp. hér á eftir er spurt um starfskjör og réttindi starfsmanna vegna þessa tilflutnings þannig að það kemur þá líka fram þar nánar, en svona lítur þetta út.
    Ég vil síðan auðvitað taka undir það með hv. fyrirspyrjanda og hv. 2. þm. Reykv. að ég held að það sé mjög mikilvægt að við leggjum okkur fram um það að þessi breyting hafi ekki í för með sér að þjónusta versni. Ég mun leggja áherslu á það eftir því sem ég get að það verði reynt að sinna þjónustuþættinum vel og að hann verði veittur á svipaðan hátt og er í dag. Það muni t.d. ekki verða tafir á greiðslu reikninga, eins og hv. fyrirspyrjandi setti hér fram í hugleiðingum sínum, eða aðrir slíkir hnökrar á þessari breytingu. Það má ekki verða.
    Ég vil líka minna á og ítreka það sem kom fram í svari mínu að það er nú þegar ákveðið að starfsemin verði áfram fyrst um sinn í Tryggvagötunni. Það getur auðvitað verið og hlýtur --- og ég bið nú hv. þm. að hafa það í huga --- að vera skynsamlegt að taka það til athugunar ef einhverjir þættir af þeirri starfsemi sem þar er í dag, eitthvað af þeirri þjónustu sem þar er í dag sé betur komin uppi í Tryggingastofnuninni, það eru nú ekki vegalengdirnar þar á milli svo miklar í sjálfu sér að það skipti nú máli, en að þá sé það sameinað og sú þjónusta sé veitt þar ef hún er þar fyrir á annað borð, eins og t.d. greiðsla ákveðinna reikninga. En að verulegu leyti geri ég ráð fyrir því að þjónustan við almenning verði áfram í Tryggvagötunni þar sem sjúkrasamlagið er nú með sína starfsemi og það kemur að sjálfsögðu

reynsla á það hvernig slík skipting á starfsemi sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunarinnar kemur til með að virka.
    Ég held, eins og fram kom í svari mínu áðan, að það hljóti að vera miklu eðlilegra og betra að þessi starfsemi sé öll rekin í sama húsi, undir sama þaki þegar fram í sækir, en við fáum alla vega reynslu af því á fyrstu mánuðum næsta árs, kannski tekur það allt næsta ár, um það ætla ég ekki að spá á þessu stigi, að starfrækja þarf þessa þjónustu á tveimur stöðum.