Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Virðulegi forseti. Hver veit nema þessi lög sem eiga að taka gildi um áramótin verði til þess að loksins verði samræmd laun fólks sem vinnur sömu störf hvar sem það vinnur á landinu. Á mínum síðustu árum í Sókn varð ég mjög vör við það að bæjarstarfsmenn hingað og þangað um landið voru að ná betri kjörum en hér náðust við ríkið og Reykjavíkurborg. Þetta er auðvitað ákaflega slæmt að kjörin skuli ekki vera samræmd og þá samræmd við það sem skást er, því að a.m.k. stærstu hóparnir af þessu fólki eru á mjög lélegum kjörum. Ég gleðst yfir því ef þessi breyting gæti orðið til þess að leiðrétta þetta því að enginn þarf að láta sér detta í hug, enginn ráðherra eða enginn frammámaður, að hægt sé að lækka heila hópa af fólki án þess að komi til verulegra mótmæla. Og ég vil taka undir það og ég vona það a.m.k. að enginn láti sér detta það í hug og jafnan sé miðað við það sem skást er, hvar sem það er.