Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans, en góð þykja mér þau ekki. Ég held að hér hafi vantað heilmikið á að á þessu máli væri tekið miklu fyrr og í miklu nánara samráði við stéttarfélögin. Ráðherra minntist á það hér að lítil umræða hefði orðið á síðasta ári við afgreiðslu laganna um þennan þátt málsins. Ég átti sæti í félmn. Nd. og var því í þeirri nefnd sem afgreiddi lögin og hóf hvað eftir annað máls á þessu en var auðvitað sagt, bæði af ýmsum þeim gestum sem til voru kallaðir, svo sem eins og framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins o.fl.: Þetta kemur lögunum ekkert við. Þetta er bara kjarasamningaatriði, og það er auðvitað alveg rétt.
    Hitt er svo annað mál að ýmsar þær nefndir sem hæstv. ráðherrar segja að hafi verið settar á laggirnar, eina minntist hæstv. heilbrrh. á áðan, nefnd sem kosin var til undirbúnings í Tryggingastofnun ríkisins, ég hef fyrir því heimildir að sú nefnd hafi t.d. aldrei kallað á sinn fund starfsfólk eða fulltrúa frá stjórn Sjúkrasamlagsins og svo er um fleiri. Svona er auðvitað ekki hægt að vinna. Ég kann ekki neina patentlausn á hvernig á að leysa þessi mál, en eitt veit ég að þetta gengur ekki. Við sættum okkur auðvitað ekkert við það að sú regla sé tekin upp hér í þjóðfélaginu að fólk eigi, eins og hæstv. fjmrh. sagði, frjálst val, að missa vinnuna sína og hætta eða lækka í launum. Það er ekkert frjálst val. Fólk á rétt á að vinna við þau störf sem það kann, getur og vill vinna, og það á rétt á því að lækka ekki í launum.
    Það er alveg ljóst að þetta getur ekki gengið. Menn verða einfaldlega, eins og hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan, að finna á þessu lausn. Það verður að setjast niður og reyna að samræma þessi laun og starfskjör. Annað einfaldlega gengur ekki.
    Og það kemur mér afskaplega mikið á óvart hvað menn eru rólegir yfir þessu. Ég býst við að hæstv. fjmrh. viti svo sem að hann er ekki vinsælasti maður þjóðarinnar, en ég bið fyrir honum þegar starfsfólk á hans vegum fer að lækka niður um allt að átta launaflokka og missa áunnin starfskjör í stórum stíl. Ég vildi ekki vera í hans sporum þegar sú breyting verður.
    Og ég bið hv. Alþingi að standa utan um þetta starfsfólk sem þannig fer nú fyrir í hundraðatali. Menn verða einfaldlega að setja á stofn neyðarnefnd og reyna að finna á þessu lausn. Það verður að gerast núna innan rúmlega mánaðar, og ég vænti þess að hver einasta manneskja hér inni sé sammála mér um þetta. Ég hef lokið máli mínu, virðulegur forseti.