Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Aðeins örstutta athugasemd. Það er út af þessum endurteknu ummælum hv. þingmanna um það að hér ráði ferð einhverjir illviljaðir ráðherrar og vinni ekki eins og fyrir þá hafi verið lagt. Mér finnst það reyndar alveg furðulegt og ég verð að segja það að ég varð mjög undrandi á ummælum hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur hér áðan. Það er nú einu sinni svo að Alþingi samþykkti sjálft í lok seinasta þings þessi lög um breytingar á verkefnaskipan milli ríkis og sveitarfélaga og það er staðreynd, og það nefndi ég reyndar áðan í svari mínu við annarri fsp., að mörg vandamál hafa komið upp í sumar sem ráðuneytin hafa verið að reyna að leysa eftir bestu getu til þess að þessi breyting geti gengið hnökralaust fram vegna þess að Alþingi tók ekki nægjanlega vel á þeim málum hér í fyrra eins og kom mjög vel fram í svari hæstv. fjmrh. áðan. Málin voru ekki nógu vel rædd, nógu vel undirbúin, þá og þess vegna eru menn nú að reyna að vinna úr þeim og gera hið besta.
    Hæstv. forseti. Út af því sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði hér áðan um það hvernig staðið hefði verið að þessum málum í heilbrrn. vil ég ítreka það sem kom fram áðan í svari mínu. Tryggingastofnun ríkisins var falið að fjalla sérstaklega um þessi málefni sjúkrasamlaganna og þar var nefnd að störfum sem vann sitt verk eftir bestu getu. Bæði stjórn og fulltrúar starfsfólks Sjúkrasamlags Reykjavíkur hafa komið á minn fund og gert mér grein fyrir því að þeim hafi fundist heldur hægt miða og kannski málum ekki nægjanlega vel sinnt. Ég kom þeim athugasemdum á framfæri við Tryggingastofnunina og þá aðila og starfsmenn sem þar unnu eftir bestu getu að þessum málum, en þeirra starf hefur verið mjög erfitt og þess vegna erum við að reyna að glíma við að leysa þessi mál eftir bestu getu nú og ég vona sannarlega að okkur takist að gera það þannig að þjónustan verði veitt áfram öllum til sóma, bæði starfsmönnum, þeim sem þurfa að njóta þjónustunnar, svo og að sjálfsögðu af hálfu stjórnvalda sem bera ábyrgð á henni.