Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Á síðasta þingi þegar þessi lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga voru til umræðu voru alþingismenn beittir gífurlegum þrýstingi, tel ég vera, af samtökum sveitarfélaga, og það var talið að líf lægi við að þessi lög yrðu afgreidd nákvæmlega eins og þau lágu fyrir í textum. Þar mátti helst ekki hrófla við einni einustu línu og þetta var rekið með svipuðum hætti og sagt er að krossferðir hafi verið reknar hér fyrir nokkrum öldum.
    Ég sagði þá, og ég tel að það sé að koma í ljós núna, að fjöldamargir þættir þessa máls væru óljósir og að ákvörðun um gildistöku laga um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hefði átt að taka hálfu öðru ári áður en gildistakan kæmi til framkvæmda en ekki hálfu ári. Ég er sannfærður um að umræða eins og þessi sem hér fer fram í dag um þennan vanda sem menn skildu eftir sig og fór fram í hv. Ed. í gær mun fara hér fram einu sinni til tvisvar í mánuði þetta þing og það næsta af því að það verða alltaf að koma upp vandamál af þessu tagi. Og það er rétt hjá hv. 3. þm. Vestf. sem hann gat um hér áðan: Af þessu ættu menn að reyna að læra.