Heilsugæslustöðvar í Reykjavík
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki eyða löngum tíma, heldur aðeins út af þeirri athugasemd hv. þm. enn að ekki hefði verið haft samráð við nokkurn mann um það hvernig þessi hverfaskipun skyldi ákveðin í frv. sem fyrir liggur um skipulag heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir 13 stöðvum vil ég vitna til greinargerðarinnar þar sem segir svo um þessa ákveðnu grein í því frv.:
    ,,Hverfaskipting sú sem lögð er til í 10. gr. er í samræmi við þær tillögur sem þegar hafa verið samþykktar á vegum borgarinnar en ekki hafa komist til framkvæmda enn þá.``
    Annað liggur ekki fyrir hjá okkur en þessar hugmyndir. En ég get alveg fyllilega tekið undir það með hv. þm. að á þessu má að sjálfsögðu gera endurskoðun og skoða nánar hvort þetta er nákvæmlega rétt skipting og bendi einnig á að í umræddri grein er gert ráð fyrir að það sé heimilt að breyta skipan heilsugæslustöðva í Reykjavík með reglugerð að fengnum tillögum stjórna heilsugæslustöðva í Reykjavík og héraðslæknis í samráði við þá aðallega sem með þessi mál eiga að fara, með öðrum orðum. Ég vona það líka, eins og hv. þm. sagði, að okkur hafi tekist að ná fram upplýsingum sem segja okkur hver sé eðlileg fjárþörf heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, svo og annarra heilsugæslustöðva, en auðvitað eru á því þó þeir fyrirvarar að hér er um að ræða breytt skipulag og það kann auðvitað að vera að reynsla fyrsta ársins með því rekstrarfyrirkomulagi færi okkur heim nýjan sannleika en þann sem við höfum þó verið að reyna að afla okkur með þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur við það að undirbúa fjárlagafrv. fyrir næsta ár.
    Að lokum, hvað varðar starfsemi heilsugæslustöðva í starfstengslum við sjúkrahús, vil ég bara árétta það að þar er um að ræða eina stjórn. Það er aðeins ein stjórn sem þá fer með starfsemi stofnunarinnar allrar, sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar sem þar er í starfstengslum. Þar er ekki um að ræða neinar tvær stofnanir og mín hugmynd í frv. umrædda, þó að það sé ekki hér til umræðu, er sú að þar gildi sama form stjórnunar eins og er með sjálfstætt starfandi stöðvarnar í dag og Alþingi varð sammála um að afgreiða á sl. vori en náði ekki fullkomnu samkomulagi um hvernig staðið skyldi að stjórnum sjúkrahúsa, þar með taldar þær heilsugæslustöðvar sem starfa í starfstengslum við þau.