Happdrætti Háskóla Íslands
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Kveikjan að þessari fsp. sem ég flyt hér á þskj. 94 um tekjur af Happdrætti Háskóla Íslands er að sjálfsögðu sú sérkennilega aðför hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. að Háskóla Íslands eins og hún birtist í fjárlagafrv. því sem hér hefur verið til meðferðar á Alþingi. Í því frv. er gert ráð fyrir að tekinn sé af Háskólanum réttur til að ráðstafa tekjum af Happdrætti Háskóla Íslands og þeim varið eins og hæstv. ríkisstjórn hefur lagt til í fjárlagafrv.
    Ég hef þess vegna í fyrsta lagi spurt: ,,Hverjar hafa verið tekjur Happdrættis Háskóla Íslands 1981--1988 og hverjar eru áætlaðar tekjur 1989 og hvernig hefur þessum tekjum verið varið? Sundurliðist eftir árum og verkefnum.``
    Mér hefur þótt nauðsynlegt að draga þessar upplýsingar hér fram, ekki síst vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur látið að því liggja í umræðum hér að þessu fé hafi ekki verið skynsamlega ráðstafað af hálfu Háskólans og þess vegna þurfi stjórnvöld að hafa vit fyrir Háskólanum í þessu efni.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Telur menntmrh. heimilt að verja tekjum af Happdrætti Háskóla Íslands til byggingar Þjóðarbókhlöðu eins og gert er í fjárlagafrv.?``
    Ég tel alveg nauðsynlegt að fá álit hæstv. menntmrh. á þessu. Nú er það að vísu svo að við höfum lesið það í fjölmiðlum að gert hafi verið samkomulag
við Háskólann um hvernig þessum tekjum verði varið á næsta ári en ég tel þó engu að síður, ekki síst vegna framtíðarinnar, nauðsynlegt að fá alveg skýr svör um hvernig menntmrh. telur réttarstöðu Háskólans vera í þessu efni. Háskólaráð hefur látið mjög eindregið álit sitt í ljós og prófessor Sigurður Líndal, sem hefur greinilega verið lögfræðilegur ráðunautur háskólaráðs í þeim efnum, telur að þarna sé ólöglega að staðið. Því er nauðsynlegt að fá álit hæstv. menntmrh. á þessu.