Happdrætti Háskóla Íslands
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það er svo að fyrirspurnin sem hér er lögð fyrir á þskj. 94 krefst mjög ítarlegs svars. Hún er um tekjur Happdrættis Háskólans 1981--1988 og hverjar eru áætlaðar tekjur 1989 og hvernig þessum tekjum hefur verið varið, sundurliðað eftir árum og verkefnum. Það er í raun og veru ekki hægt að svara fsp. eins og hún er lögð fyrir í þessum knappa fyrirspurnartíma. Þess vegna mun ég koma á framfæri við hv. fyrirspyrjanda skriflegum upplýsingum um einstök atriði sem snerta fsp. hans en reyna í örstuttu máli að nefna hér yfirlitstölur.
    Framlög til framkvæmda á vegum Háskóla Íslands á verðlagi ársins 1989 hafa verið sem hér segir af happdrættinu:
    Árið 1981 127 millj. kr., árið 1982 220 millj. kr., árið 1983 173 millj. kr., árið 1984 205 millj. kr., árið 1985 133 millj. kr., árið 1986 151 millj. kr., árið 1987 395 millj. kr., árið 1988 402 millj. kr., árið 1989 240 millj. kr.
    Þetta eru framlög happdrættisins til framkvæmda á þessum árum, sem sagt á bilinu frá 127 upp í 402 millj. kr. eftir því hvernig hefur árað í sölu happdrættismiða.
    Samtals eru þetta tveir milljarðar króna á verðlagi ársins 1989 sem Happdrætti Háskólans hefur þannig lagt til framkvæmda á vegum Háskóla Íslands --- um tvö þúsund millj. kr. Til samanburðar má geta þess að það er talið að fullbúin Þjóðarbókhlaða muni á sama verðlagi kosta um 1,8 milljarða króna.
    Stærstu verkefnin sem þetta hefur farið í eru þessi:
    Læknagarður 749 millj. kr. Framlag Háskólans til þessa húss neðan við Hringbrautina, sem menn þekkja, er um 750 millj. kr. Það er langstærsta verkefnið. Næststærsta verkefnið á tímanum er Oddi, fyrri áfangi, 366 millj. kr. og annar áfangi 55 millj. kr. eða liðlega 400 millj. kr. í þessa tvo áfanga við Odda. Og þriðja stærsta verkefnið er á vegum verkfræði- og raunvísindadeildar, þar sem um er að ræða áfangabyggingu III, upp á 256 millj. kr., en samtals hefur verið varið á þessum tíma af 2000 millj. kr. u.þ.b. 1746 millj. kr. í nýbyggingar. Í nýbyggingar hafa farið sem sagt um 1750 millj. af u.þ.b. 2050 millj. kr.
    Þegar framkvæmdafé er svo skipt niður á þætti að öðru leyti þá eru það nýbyggingar 1746 millj., viðhald fasteigna 319 millj. og húsgögn og búnaður á sama tíma 206 millj. kr.
    Þá spyr hv. þm.: ,,Telur menntamálaráðherra heimilt að verja tekjum af Happdrætti Háskóla Íslands til byggingar Þjóðarbókhlöðu eins og ráðgert er í fjárlagafrumvarpi?``
    Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að verja 60 millj. kr. af tekjum Happdrættis Háskólans á næsta ári til byggingar Þjóðarbókhlöðu og nú hefur náðst samkomulag um það við Háskóla Íslands að 53 millj. kr. geti farið á árinu 1990 til framkvæmda við Þjóðarbókhlöðu, þ.e. til þess að kosta tiltekna hluta af búnaði stofnunarinnar. Ég tel að það sé mjög

mikilvægt að þetta samkomulag hefur náðst. Háskólinn hefur viðurkennt að hann hlýtur að greiða hluta af framkvæmdakostnaði við Þjóðarbókhlöðu, ekki aðeins þessar 53 millj. kr. heldur hefur hann líka viðurkennt að hann verði að greiða hluta af kostnaði við búnað í lesrými Þjóðarbókhlöðunnar þar sem getur verið um talsverðar upphæðir að ræða. Heildarkostnaður við þær innréttingar er, samkvæmt áætlun á verðlagi ársins 1989, talinn verða um 200 millj. kr. og það er ljóst að Háskólinn telur að hann eigi eða hljóti að greiða talsverðan hluta þess kostnaðar.
    Í samkomulaginu við Háskólann er svo gert ráð fyrir því að ákvörðun um framkvæmdir á vegum Háskólans verði ekki öðruvísi tekin en í samráði við menntmrn. Það er mjög mikilvægt að samkomulag um það mál skuli núna liggja fyrir þannig að það á að vera alveg á hreinu hver er staða þessa máls gagnvart Happdrætti Háskóla Íslands og háskólaráði. Og ég tel að það sé mjög mikilvægt að þetta samkomulag liggur fyrir.
    Ég tel því að Háskólinn hafi fyrir sitt leyti fallist á að það hafi verið heimilt og sé heimilt að verja hluta af tekjum Happdrættis Háskóla Íslands til framkvæmda við Þjóðarbókhlöðuna eins og fyrir liggur í því samkomulagi sem ég kynnti m.a. fyrir fjölmiðlum í fyrradag.
    Í lögum um Happdrætti Háskóla Íslands segir svo: ,,Ágóðanum skal varið til að reisa byggingar á vegum Háskóla Íslands.`` Ég held að það sé óhjákvæmilegt að láta það koma hér fram að ég tel nauðsynlegt að það fari fram frekari viðræður við Háskóla Íslands um þann lagaskilning sem fyrir liggur af hálfu Sigurðar Líndals prófessors í þessu efni. Ég tel að þar hafi skýringar og túlkanir ekki verið settar fram með þeim hætti að það sé hiklaust hægt að taka undir þær, þar verði menn að skoða lögin um Happdrætti Háskóla Íslands mikið betur en mér virðist hafa verið gert.