Happdrætti Háskóla Íslands
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Mér er það fyllilega ljóst að hér var farið fram á ítarlegar upplýsingar sem felast í miklum talnaröðum og þess vegna sætti ég mig fullkomlega við það svar eins og hann gaf mér hér og að hann muni afhenda mér nánari sundurliðun hér á fundinum eða síðar.
    Ég held að það sé alveg ljóst af þeim tölum sem hér hafa verið nefndar hversu mikilvægt Happdrætti Háskóla Íslands hefur verið í uppbyggingu Háskólans. Frá árinu 1981 hefur verið varið 2 milljörðum króna til uppbyggingar Háskóla Íslands af happdrættisfé. Þetta sýnir líka hversu hættulegt allt fikt með þetta happdrætti er eins og stefnt var að í fjárlagafrv. með því að gera það raunverulega að ríkishappdrætti, taka forræðið af ráðstöfun teknanna frá Háskólanum og flytja það yfir í fjmrn. Þess vegna fagna ég því auðvitað að samkomulag skuli hafa tekist við Háskóla Íslands um þetta mál. Ég var og er þeirrar skoðunar að þetta hafi verið gjörsamlega óheimilt, það hafi verið lagabrot að fara þannig að og að þetta skuli hafa gerst á þennan hátt án nokkurs samráðs við Háskóla Íslands er auðvitað ófært og mjög ámælisvert. En ég fagna því auðvitað nú að samkomulag hefur tekist um þetta. Mér þótti það að vísu dálítið skondið að það væri sérstakt tilefni blaðamannafundar og hátíðlegrar undirskriftar þetta samkomulag sem gert var. Ég var að velta því fyrir mér hvernig hæstv. menntmrh. mundi greina frá þessu í sinni afrekaskrá. Ég sá í tímaritinu Rétti, sem er tímarit gömlu sósíalistanna í Alþýðubandalaginu, að hann birtir þar afrekaskrá sína úr ráðuneytinu. Ég var að velta fyrir mér hvernig hann mundi hafa næstu útgáfu afrekaskrárinnar þegar kæmi að þessu máli. Þá gæti hann birt myndina með háskólarektor og textinn gæti einhvern veginn hljóðað á þessa leið: Horfið var frá fyrri hugmyndum um að taka sjálfsaflafé Háskólans til afnota fyrir ríkissjóð.
    Það sem gerðist þarna var auðvitað ekkert annað en það að hæstv. menntmrh. hvarf frá þeim ákvörðunum að taka sjálfsaflafé Háskólans án samráðs við hann.