Barnsburðarleyfi
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það hefur nokkuð færst í vöxt hér á Alþingi á undanförnum árum að bornar eru fram fsp. um margvíslegar upplýsingar. Oft eru hér á ferðinni óskir um upplýsingaöflun sem í reynd er meiri háttar rannsóknarverkefni. Mér finnst nokkuð skorta á um það að hv. alþm. og kannski einnig stjórnendur þingsins geri sér nægilega grein fyrir því hvað mikið starfsálag er orðið hjá ráðuneytum og stjórnarskrifstofum við að svara þessum ítarlegu fsp. eða svara margvíslegum erindum frá umboðsmanni Alþingis eða öðrum þeim sem á vegum Alþingis leita eftir upplýsingum.
    Hér er á ferðinni fsp. sem er mjög gott dæmi um þetta. Ég treysti mér ekki til að svara þessari fsp. hér og nú einfaldlega vegna þess að mat hefur leitt í ljós að það er u.þ.b. ársverk að afla þeirra upplýsinga sem hér er farið fram á og heildarkostnaður væri kringum 1 millj. kr.
    Ástæða þess að þetta er svo mikið verk er að þegar kona fer í barnsburðarleyfi færir viðkomandi stofnun upplýsingar um það atriði inn á sérstakt eyðublað, Tilkynning um leyfi og breytingar í starfi, og sendir launaskrifstofu. Þar er tilkynningin skráð inn á bréfaskrá viðkomandi. Tilkynningakerfi þetta sem og skráningin eru ekki trygg. Auk þess er einnig um mál þessi fjallað í sérstökum launadeildum sem ekki tengjast skjalasafni launaskrifstofunnar, t.d. hjá mjög stórum ríkisstofnunum eins og ríkisspítulunum og Póst- og símamálastofnun. Meðferð launaskrifstofunnar á tilkynningum um barnsburðarleyfi hefur ekki áhrif á launaforsendur í hinu vélræna kerfi útreikninga á launafgreiðslum þannig að það er því miður ekki hægt að kalla fram þessar upplýsingar um konur sem fengið hafa barnsburðarleyfi þó að þær hafi verið tilkynntar með þeim hætti sem ég hef hér lýst.
    Fyrr á þessu ári hófst tilraun til þess að flokka þessar upplýsingar og það stendur nokkur von til þess að hægt verði að koma á ákveðnu skipulagi á næstu mánuðum. Hins vegar er ljóst að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir á þann hátt að með skömmum fyrirvara sé hægt að veita svar við þessari spurningu. Eins og ég gat um áðan þá mundi heildarkostnaður við að svara þessari fsp. nema um 1 millj. kr. og það þyrfti að fá sérstakan starfsmann sem að því mundi vinna í u.þ.b. heilt ár til þess að hægt væri að veita þessi svör. Mér þykir þetta mjög leitt því þessar upplýsingar væru örugglega mjög fróðlegar en hv. alþm. og hv. Alþingi verður þess vegna að meta hvort það telur svo ríka ástæðu til að þessari fsp. sé svarað að í þann kostnað yrði lagt.
    Ég vil svo endurtaka, virðulegur forseti, það sem ég sagði í upphafi. Ég held að það sé orðið nokkuð brýnt að ákveðið mat sé lagt á það áður en fsp. koma fram hvort hægt sé að ætlast til þess að þeim sé svarað á þeim skamma tíma sem til þess er ætlaður í þingsköpum og einnig að ákveðið kostnaðarmat fari fram á því hvort réttlætanlegt sé að fsp. sé svarað með þeim hætti sem

hún sjálf felur í sér. Okkar fámennu ráðuneyti eru því miður það illa búin að ef taka á einhvern hluta starfsmanna til þess að svara fsp. yfir langan tíma þá munu önnur verkefni í ráðaneytunum líða fyrir það.