Barnsburðarleyfi
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Virðulegur forseti. Því miður get ég ekki þakkað hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör varðandi efnislegt innihald fsp. Ég hef þó skilning á þeim vandkvæðum sem hann telur vera í sambandi við að afla þessara upplýsinga, að þær geti ekki legið fyrir á þeim tíma sem ætlaður er til svara. Ég vil þó taka undir og sérstaklega benda á athugasemdir hæstv. forseta í þessu máli að úr því að fsp. var leyfð á annað borð þá hefði átt að gera ráð fyrir því að þessar upplýsingar lægju fyrir, málsmeðferð hefði átt að vera með þeim hætti. Ég tel að þær upplýsingar sem hér er beðið um séu þó það áhugaverðar að ég áskil mér allan rétt til að hafa um það samráð við upphaflegan fyrirspyrjanda hvernig best er að haga málinu, og þá væntanlega í samráði við hæstv. fjmrh., hvort ekki sé rétt að gefa ráðuneytinu lengri tíma og fá þá upplýsingarnar skriflegar.
    Það er rétt sem kemur fram hjá hæstv. fjmrh. að oft eru fyrirspurnir með þeim hætti að það tekur óhemjulangan tíma að afla upplýsinga og það er kostnaðarsamt. Málin verða væntanlega skoðuð með tilliti til þess. En ég tel að hér sé um það áhugavert málefni að ræða að það komi fyllilega til greina að athuga hvort ekki sé rétt að fá þessar upplýsingar fram með einhverju móti.