Alþjóðleg friðarvika Sameinuðu þjóðanna
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að hér er um mjög gott mál að ræða sem sannarlega er rétt að sinna. Það er rétt að 6. des. 1988 samþykkti allsherjarþingið ályktun sem beinir því til meðlima ríkjanna að friðarvika skuli haldin í þeirri viku sem 11. nóvember ber upp á, held ég að það sé orðað.
    Ég lét strax athuga hvernig með þetta mál hefði verið farið hér og í fáum orðum sagt þá fannst málið ekki. Athygli menntmrn. hafði ekki verið vakin á þessu máli. En ég lít svo á að menntmrn. beri að framkvæma þessa ályktun.
    Ég vil leyfa mér að fullyrða að það er síður en svo andstaða hjá neinum sem við var rætt um þetta mál heldur almennur stuðningur við málið. En ég get ekki sagt hvar það hefur strandað á leiðinni frá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem í ályktuninni mun hafa verið falið að vekja athygli meðlimaríkjanna á þessu, sem hefði að vísu ekki átt að þurfa, því við eigum fulltrúa á þingi Sameinuðu þjóðanna. En það hafði a.m.k. ekki komist til menntmrn.
    Það sem ég hef gert er að vekja formlega athygli menntmrn. á þessu máli og um leið óska eftir að því verði sinnt í framtíðinni. Ég tel að fsp. hafi þess vegna verið mjög þörf og vakið okkur til umhugsunar um þetta ágæta mál og hef raunar ekki fleira um það að segja núna. Við skulum vona að það takist betur til í þeirri viku sem um er að ræða að ári.