Alþjóðleg friðarvika Sameinuðu þjóðanna
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Sigríður Lillý Baldursdóttir):
    Virðulegur forseti. Í ljósi yfirlýsinga hæstv. forsrh., þess efnis að gera Ísland að alþjóðlegri friðarmiðstöð, finnst mér heldur klént að hundsa í ár samþykkt Sameinuðu þjóðanna eða fylgjast ekki betur með samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem tengjast friði í heiminum.
    En ég vænti þess að úr verði bætt að ári og vel að málum staðið þá.
    Væntanlega geta fundist margar skýringar á því að þessi samþykkt skilaði sér ekki inn til ráðuneytis utanríkismála og þaðan boðleið til annarra ráðuneyta. En það vakti ekki fyrir mér að finna sökudólg, heldur einungis að benda á samþykktina og vona ég að ríkisstjórnin taki myndarlega á og það verði staðið vel að viku vísinda og friðar, að ári og þaðan í frá.