Afstaða til Kambódíu
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur beint til mín fsp. í þremur liðum um afstöðu til Kambódíu.
    1. ,,Hver hefur verið afstaða Íslands til málefna Kambódíu undanfarin ár?`` Ísland hefur ekki tekið upp stjórnmálasamband við Kambódíu og ekki veitt stjórnum landsins viðurkenningu frá því að Sihanouk prins var hrakinn frá völdum. Samskipti Íslands og Kambódíu hafa verið lítil sem engin í gegnum tíðina, bæði á sviði viðskipta og menningarmála. Sihanouk prins kom til Íslands í september 1985 að eigin ósk og ræddi þá við ýmsa íslenska ráðamenn og þar á meðal þáv. forsrh., Steingrím Hermannsson, og starfandi utanrrh. á þeim tíma, Ragnhildi Helgadóttur. Einu opinberu afskiptin sem Ísland hefur haft af málefnum landsins hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    2. ,,Hvernig hefur sú afstaða birst á alþjóðavettvangi, m.a. hjá Sameinuðu þjóðunum?`` Svarið er: Nokkur undanfarin ár hafa svæðissamtök Suðaustur-Asíuríkja, skammstafað ASIAN, Indónesía, Singapore, Malaysia, Thailand, Brunei og Filippseyjar flutt sameiginlega ályktunartillögu um Kambódíumálið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þessi hlutlausu grannríki Kambódíu hafa mikilla hagsmuna að gæta af því að friðsamleg lausn fáist á málum Kambódíu. Mörg ríki hafa gerst meðflytjendur að ályktunartillögunni gegnum árin og nú í ár voru 78 ríki meðflytjendur tillögunnar og þeirra á meðal var Ísland. Ísland hefur um árabil verið meðflytjandi að ályktunartillögunni, en hún kveður m.a. á um að málið verði leyst með pólitísku samkomulagi allra deiluaðila. Kjarni ályktunartillögunnar er að mynduð verði þjóðstjórn í Kambódíu eftir að erlendur her hefur verið fluttur á brott.
    Talið hefur verið að Sihanouk prins sé einn líklegur til að geta náð öllum deiluaðilum saman, Hun Sen, núv. forsrh. og andspyrnuhreyfingunum þremur, þeirra á meðal rauðum khmerum sem eru studdir af Kína og ekki verður gengið fram hjá eigi raunverulegur friður að nást í landinu.
    Ályktunartillagan viðurkennir sjálfsákvörðunarrétt kambódísku þjóðarinnar og að henni skuli heimilað að beita þeim rétti í frjálsum, heiðarlegum, lýðræðislegum kosningum undir alþjóðlegu eftirliti. Tillagan viðurkennir einnig hið mikilvæga hlutverk sem Sameinuðu þjóðirnar gegna í þessu sambandi og kveður á um að aldrei megi hverfa aftur til þeirrar stefnu og ógnarstjórnar sem var við lýði í landinu og var fordæmd um heim allan. Þetta er afdráttarlaus yfirlýsing um að fyrri stjórnarhættir rauðra khmera verði ekki endurteknir en talið er að um 2 millj. manna af 7 millj. íbúa hafi verið myrtir í Kambódíu á valdatíma þeirra.
    Í umræðunni um ályktunartillöguna í ár fól ég fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum að skýra sjónarmið Íslands varðandi Kambódíumálið alveg sérstaklega þar sem hann gerði grein fyrir atkvæði sínu. Skýrði hann þá frá því að Íslendingar teldu að

þjóðir heims bæru ábyrgð á því gagnvart kambódísku þjóðinni að ef pólitískt samkomulag næðist í málinu yrði það tryggt að aldrei aftur yrði horfið til hinna illræmdu stjórnarhátta rauðra khmera.
    3. ,,Hvert er mat utanrrh. á núverandi stöðu mála í Kambódíu?`` Undanfarin tvö ár hafa forsætisráðherrar Thailands og utanríkisráðherra Indónesíu tekið upp beint samband við Víetnam og stjórn Hun Sen í Kambódíu til að binda endi á fyrri borgarastyrjöld og stuðla að friði. Í ágúst 1989 var fundur haldinn í París milli allra aðila málsins í þeim tilgangi að ná samkomulagi um þjóðstjórn og frið, en því miður náðist ekki samkomulag. Frakkar lögðu sig mjög fram um að finna lausn á málinu, enda var Kambódía frönsk nýlenda og frönsk menningaráhrif sterk í landinu.
    Ég tel eðlilegt að Suðaustur-Asíuríkin hafi forustu um að reyna að koma á sáttum og samsteypustjórn í Kambódíu þar sem málið varðar þau mest af ríkjum heims, m.a. með tilliti til ófriðarhættu og flóttamanna. Svo virðist sem dregið hafi verulega úr tortryggni Suðaustur-Asíu og raunhæfur friðarvilji sé sterkari en áður í samræmi við almenna þróun heimsmála. En það er óneitanlega áhyggjuefni að upp á síðkastið hafa vopnuð átök í landinu færst í aukana og eiga m.a. rauðir khmerar þar hlut að máli. Það hefur verið von manna að Kínverjar gætu haldið þeim í skefjum þar sem þeir hafa verið sú þjóð sem hingað til hefur stutt þá og séð þeim fyrir vopnum. Pólitísk lausn virðist ekki í sjónmáli í nánustu framtíð, en vonast er til að aðilar komi sér brátt saman um að hefja viðræður á nýjan leik eins og lagt var til í ályktunartillögu allsherjarþingsins um þetta mál.
    Þann 10. nóv. sl. tók ég málið upp í ríkisstjórn og þann fréttaflutning sem þá hafði nýlega verið um málið í fjölmiðlum. Ég hef enn fremur falið embættismönnum utanrrn. og fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum að fylgjast áfram grannt með þróun þessara mála.