Afstaða til Kambódíu
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það verður að koma hér skýrt fram að það er á engan hátt rétt túlkun að túlka þessa ályktunartillögu sem stuðning við rauða khmera og þeirra framferði. Menn geta spurt sig að því sjálfir hvort 124 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, þar með hin hlutlausu grannríki Kambódíu, hafi með þessum tillöguflutningi verið að lýsa stuðningi við rauða khmera. Það er hreinlega ekki svo. 124 ríki greiddu atkvæði með, 17 ríki greiddu atkvæði á móti og tvö sátu hjá.
    Auðvitað var það hugleitt mjög alvarlega hvort ætti að breyta afstöðu Íslands frá fyrri tíð og snúast annaðhvort gegn þessari tillögu eða sitja hjá. Niðurstaðan varð sú að gera það ekki á seinustu stundu, m.a. vegna þess að engin samstaða fékkst um flutning annarrar tillögu og þrátt fyrir allt var hert á þeim ákvæðum tillögunnar og fyrirvarar gerðir þegar grein var gerð fyrir atkvæði af Íslands hálfu þess efnis að undir engum kringumstæðum mætti skilja tillöguna sem stuðning við rauða khmera, og annað, að með flutningi tillögunnar væru tillöguríkin að skuldbinda sig til þess að tryggja það að aldrei kæmi aftur til þeirrar morðaldar sem þessir aðilar stóðu fyrir. Og ég fól sérstaklega fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum að gera alveg skilmerkilega grein fyrir þessari afstöðu og það gerði hann m.a. með þessum orðum. Hann sagði og ég vitna til þeirra orða:
    ,,Það er heppilegt að ASIAN-ríkin skuli hafa tekið frumkvæði í þessu vandamáli, bæði hér hjá Sameinuðu þjóðunum og á heimaslóðum. Þau hafa skorað á alla aðila málsins að auka viðleitni sína til að finna pólitíska lausn á Kambódíumálinu með sem víðtækustu pólitísku samkomulagi í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari átök, manntjón og þjáningar kambódísku þjóðarinnar, tryggja sjálfstæði hennar, fullveldi, yfirráð yfir eigin landi, hlutleysi og óbundna stöðu og framar öllu að tryggja að stefna og aðgerðir rauðu khmeranna á nýliðnum árum, sem allur heimurinn hefur fordæmt, verði aldrei endurteknar.``
    Enn fremur sagði fastafulltrúi Íslands í lok þeirra ummæla sem hann viðhafði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu:
    ,,Við teljum að þjóðir heims beri ábyrgð á því gagnvart kambódísku þjóðinni að sérhvert pólitískt samkomulag sem næst í málinu tryggi að aldrei verði aftur horfið til hinnar alþjóðlega fordæmdu stefnu sem rauðu khmerarnir framfylgdu.`` Þannig að ég vísa því á bug að íslenska ríkisstjórnin hafi verið að lýsa velþóknun sinni á eða stuðningi við framferði slíkra aðila.